1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um úthlutun aflamarks í grásleppu til skipa í eigu nýliða samkvæmt 7. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.
2. gr.
Nýliði.
Nýliði samkvæmt reglugerð þessari telst sá aðili sem á skip, sem ekki hefur skráða aflahlutdeild og hefur ekki fengið úthlutað aflahlutdeild í grásleppu vegna fiskveiðiársins 2024/2025.
3. gr.
Auglýsing og umsókn um aflamark í grásleppu.
Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um aflamark í grásleppu fyrir skip í eigu nýliða á hverju fiskveiðiári.
Aflamark í grásleppu til úthlutunar til nýliða er miðað við það magn sem tilgreint er í reglugerð um veiðar í atvinnuskyni sem gildir fyrir viðkomandi fiskveiðiár og almanaksár.
Umsókn skal skilað á því formi sem Fiskistofa ákveður. Í umsókn um aflamark í grásleppu til nýliða skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:
- Nafn, kennitala og lögheimili umsækjanda.
- Fiskiskip sem óskað er að aflamark verði skráð á.
- Á hvaða staðbundna veiðisvæði fiskiskip muni stunda veiðar.
4. gr.
Úthlutun aflamarks.
Aflamarki í grásleppu til nýliða skv. 7. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða skal Fiskistofa úthluta árlega til skipa í eigu nýliða skv. 2. gr.
Fiskistofa skal úthluta aflamarki í grásleppu til skips nýliða á grundvelli umsókna skv. 3. gr. Aflamark í grásleppu skal skiptast jafnt á milli nýliða. Hver nýliði getur að hámarki fengið 0,4% af aflamarki leyfilegs heildarafla í grásleppu á viðkomandi fiskveiðiári úthlutað á skip.
Eftirstöðvum óráðstafaðs aflamarks í grásleppu til nýliða skal Fiskistofa ráðstafa til skipa með aflahlutdeild í grásleppu á þeim degi sem úthlutun aflamarks til nýliða fer fram.
5. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett skv. 2. mgr. 7. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997 og 6. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Reglugerðin öðlast þegar gildi.
Matvælaráðuneytinu, 25. nóvember 2024.
Bjarni Benediktsson.
Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir.
|