1. gr.
Gildissvið.
Reglur þessar taka til eftirlits með gæðum náms, kennslu og rannsókna í háskólum sem fólgið er í innra mati háskóla og reglubundnu ytra mati þess ráðuneytis sem fer með málefni háskóla. Ef í reglum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við þann ráðherra og ráðuneyti sem fer með málefni háskóla.
2. gr.
Markmið.
Markmið eftirlits með gæðum náms, kennslu og rannsókna í háskólum eru:
að bæta markvisst nám og rannsóknir, að stuðla að aukinni ábyrgð skóla á eigin starfi, að tryggja að skilyrði fyrir viðurkenningu ráðherra á fræðasviðum háskóla séu uppfyllt, samkvæmt reglum um viðurkenningu háskóla á grundvelli 3. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla, nr. 1067/2006, að tryggja að viðmið um æðri menntun og prófgráður séu uppfyllt, að gæðastarf í háskólum sé í samræmi við útgefna handbók Gæðamats háskóla og að tryggja samkeppnishæfni háskóla á alþjóðavettvangi.
3. gr.
Gæðamat háskóla.
Með eftirlit með gæðum náms, kennslu og rannsókna í háskólum fer sjálfstætt ráð, Gæðamat háskóla, sem ráðherra skipar.
Ráðið skal skipað eigi færri en fimm sérfræðingum, sem skipaðir eru til sex ára í senn, auk eins fulltrúa stúdenta sem tilnefndur skal af Landssamtökum íslenskra stúdenta og er skipaður til tveggja ára, með möguleika á framlengingu til eins árs. Ráðið nýtur faglegs sjálfstæðis í störfum sínum.
Þóknun til ráðsins og annar kostnaður við rekstur Gæðamats háskóla greiðist samkvæmt samningi við ráðuneytið.
Almenn hæfisskilyrði til ráðsmanna eru að þeir búi yfir nauðsynlegri þekkingu og hæfni til að hafa yfirumsjón með ytra mati á íslenskum háskólum. Sérstök hæfisskilyrði eru að ráðsmenn hafi ekki sinnt rannsóknum eða kennslu við íslenskan háskóla og að ráðsmaður sé ekki eða hafi ekki verið í slíkum tengslum við þann háskóla sem sætir ytra mati að ástæða sé til þess að draga hlutleysi hans í efa. Þeir sem sinna ytra mati samkvæmt reglum þessum og viðmiðum fyrir slíkt mat skulu að öðru leyti uppfylla skilyrði 3. gr. stjórnsýslulaga.
Ráðherra felur Gæðamati háskóla að reka sérstaka skrifstofu eða semja við til þess bæra aðila að annast þjónustu í nafni þess.
Gæðamati háskóla er heimilt að ráða framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn til að annast í umboði ráðsins daglega framkvæmd og stjórnun þeirra verkefna sem ráðinu eru falin samkvæmt reglum þessum. Framkvæmdastjóri Gæðamats háskóla skal hafa háskólamenntun og búa yfir sérþekkingu á sviði gæðamála háskóla.
4. gr.
Um innra og ytra mat.
Innra mat háskóla felur annars vegar í sér fyrirfram ákveðið skipulag, verkferla eða aðgerðir, sem háskólar innleiða í þeim tilgangi að meta gæði eigin náms, kennslu og rannsókna og hins vegar grundvöll fyrir stefnumörkun og gerð verklagsreglna og umbótaáætlana.
Með ytra mati er átt við eftirlit ráðuneytis eða aðila á þess vegum með gæðum náms, kennslu og rannsókna háskóla. Ytra mat fer einkum fram með þrennum hætti: með viðurkenningu fræðasviða að undangenginni alþjóðlegri úttekt, með reglubundinni söfnun samræmdra lykilupplýsinga um starfsemi skólanna og með úttektum á háskólum, fræðasviðum, deildum, námsbrautum eða einstökum þáttum í starfsemi skólanna.
5. gr.
Viðmið um innra og ytra mat.
Gæðamat háskóla gefur út viðmið fyrir innra og ytra mat ásamt leiðbeiningum um útfærslu þeirra. Viðmiðin skulu m.a. ná til eftirfarandi þátta: hlutverks og markmiða, stjórnskipunar og skipulags, fyrirkomulags náms, kennslu og rannsókna, hæfisskilyrða starfsmanna, reglna um inntökuskilyrði og um réttindi og skyldur nemenda, aðstöðu og umgjörð kennara og nemenda og þjónustu við þá, innra gæðakerfis, lýsingar á inntaki náms, fjárhags skóla og mannauðs, skipulag rannsókna – umgjörð rannsóknastarfs, samantekt upplýsinga sem liggja til grundvallar innra og ytra gæðamati. Gæðamat háskóla endurskoðar reglulega viðmið um innra og ytra mat og gefur út ný viðmið og leiðbeiningar eftir því sem tilefni er til.
6. gr.
Innra mat.
Háskólar skulu innleiða formlega stefnu um gæði náms, kennslu og rannsókna, móta vinnuferla sem hvetja til stöðugra umbóta og stuðla að aukinni vitund um mikilvægi gæða í öllu starfi. Háskólar bera ábyrgð á innra mati sem birtist í formlegu gæðakerfi þeirra á sviði náms, kennslu og rannsókna. Innra mat skal vera kerfisbundið og fela í sér skilgreinda öflun lykilupplýsinga um starfsemi háskólanna. Tryggja skal virka þátttöku nemenda og starfsmanna í innra mati. Gæðamat háskóla gefur út viðmið um innra mat.
7. gr.
Birting upplýsinga um innra mat.
Háskólar skulu birta með reglubundnum hætti birta, opinberlega og á aðgengilegan hátt, samantekt upplýsinga um hvernig staðið er að innra mati í samræmi við handbók Gæðamats háskóla. Niðurstöður innra mats skulu birtar opinberlega ásamt lýsingu á því hvernig matið er nýtt til úrbóta og umbóta í skólastarfi.
8. gr.
Ytra mat.
Gæðamat háskóla framkvæmir ytra mat á gæðum náms, kennslu og rannsókna háskóla samkvæmt áætlun sem endurskoðuð er með reglubundnum hætti, og eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Matið getur náð til háskóla í heild, einstakra vísinda- og fræðasviða, deilda, námsbrauta eða annarra skilgreindra þátta í starfsemi háskóla. Jafnframt má ákveða að sérstakt ytra mat fari fram á háskóla, einstökum einingum eða tilteknum þáttum háskólastarfs ef ástæða þykir til.
Um söfnun reglubundinna lykilupplýsinga um starfsemi háskóla skal fjallað í samningum ráðuneytis við einstaka skóla, sbr. 21. gr. laga um háskóla nr. 63/2006. Einnig getur Gæðamat háskóla kallað eftir samræmdum upplýsingum frá háskólum til skýrslugerðar. Ráðherra gefur út almenn viðmið um öflun, úrvinnslu og birtingu lykilupplýsinga um starfsemi háskóla. Áður en ytra mat hefst skulu gefnar út leiðbeiningar um framkvæmd þess. Háskólar sem gangast undir ytra mat skulu veita upplýsingar (sjálfsmatsskýrslu) um þau atriði sem úttektin snýr að hverju sinni.
9. gr.
Framkvæmd ytra mats.
Ráðherra felur Gæðamati háskóla framkvæmd ytra mats á háskólum. Við framkvæmd ytra mats skal tryggja aðkomu nemenda að matinu sem og aðkomu erlendra sérfræðinga er lúti sömu hæfisskilyrðum og ráðsmenn Gæðamats háskóla.
10. gr.
Niðurstöður ytra mats.
Gæðamat háskóla ber ábyrgð á ytra mati og birtir niðurstöður þess. Ráðuneyti greinir einnig opinberlega frá niðurstöðum ytra mats og birtir þær á vef ráðuneytisins. Niðurstöður ytra mats skulu settar fram á skýran og aðgengilegan máta, þar sem m.a. skal greint frá tilmælum og ábendingum um úrbætur. Háskóli skal, áður en þrír mánuðir eru liðnir frá því að matsskýrsla var birt, gera opinberlega grein fyrir niðurstöðum ytra mats og birta á heimasíðu sinni hvernig brugðist hafi verið við þeim.
11. gr.
Afturköllun viðurkenningar.
Leiði ytra mat í ljós að skilyrði viðurkenningar fræðasviðs eru ekki uppfyllt getur ráðherra að undangenginni málsmeðferð skv. 5. gr. reglna nr. 1067/2006 afturkallað viðurkenningu á einstökum fræðasviðum háskóla eða fyrir háskóla í heild, eða sett fram tilmæli um úrbætur eða veitt tiltekinn frest til að hrinda þeim í framkvæmd.
12. gr.
Gildistaka.
Reglur þessar sem settar eru samkvæmt heimild í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla, öðlast þegar gildi.
Frá sama tíma falla úr gildi reglur um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna í háskólum, nr. 1368/2018.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, 30. september 2024.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
|