Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1234/2024

Nr. 1234/2024 5. nóvember 2024

REGLUR
um heimild fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands til að ljúka máli með sátt.

1. gr.

Gildissvið.

Hafi málsaðili gerst brotlegur við ákvæði laga, reglna eða ákvarðanir, þar sem fjármálaeftirlitinu er falið vald til ákvörðunar stjórnvaldssekta, er fjármálaeftirlitinu heimilt á öllum stigum máls að ljúka máli með sátt ef það telur að málsatvik séu með þeim hætti að sátt komi til álita.

Heimild til sáttar nær ekki til meiri háttar brota sem refsiviðurlög liggja við.

 

2. gr.

Inntak sáttar.

Í sátt felst að málsaðili gengst við að hafa brotið gegn ákvæðum laga, reglna eða ákvörðunum fjármálaeftirlitsins og upplýsir að fullu um brotið. Enn fremur getur sátt verið bundin skilyrðum um að málsaðili taki á sig ákveðnar skuldbindingar, t.a.m. um greiðslu sektarfjárhæðar og/eða að málsaðili ráðist í aðgerðir í samræmi við úrbótakröfur fjármála­eftirlitsins.

Sátt er bindandi fyrir málsaðila og fjármálaeftirlitið þegar báðir aðilar hafa samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni innan frests skv. 4. mgr. 4. gr. reglnanna.

 

3. gr.

Ákvörðun sektarfjárhæðar.

Sé máli lokið með sátt um greiðslu sektarfjárhæðar er miðað við að sektarfjárhæð sé hlutfalls­lega lægri en sem ætla má að fjárhæð stjórnvaldssektar gæti numið að teknu tilliti til þyngingar- og mildunarsjónarmiða.

Þegar aðili sýnir mikinn samstarfsvilja og óskar eftir að ljúka máli með sátt á fyrri stigum eða hefur frumkvæði að því að upplýsa um brot sitt, getur lækkun á sektarfjárhæð numið allt að 50% af þeirri fjárhæð sem ætla má að stjórnvaldssekt gæti numið.

Óski aðili eftir því að ljúka máli með sátt á síðari stigum getur lækkun á sektarfjárhæð numið allt að 30% af þeirri fjárhæð sem ætla má að stjórnvaldssekt gæti numið.

Fjármálaeftirlitið metur, með hliðsjón af framangreindum atriðum, hversu mikil hlutfallsleg lækkun er veitt af þeirri fjárhæð sem ætla má að stjórnvaldssekt gæti numið.

 

4. gr.

Málsmeðferð.

Fjármálaeftirlitið vekur athygli málsaðila á að heimilt sé að ljúka máli með sátt. Aðili máls getur jafnframt óskað eftir að ljúka máli með sátt á hvaða stigi málsins sem er. Í báðum tilvikum metur fjármálaeftirlitið hvort sátt komi til álita.

Telji fjármálaeftirlitið að máli geti lokið með sátt býður fjármálaeftirlitið málsaðila að ljúka máli á þann hátt og sendir málsaðila sátt til samþykktar.

Í sátt skal m.a. koma fram dagsetning, nafn málsaðila, kennitala, heimilisfang, númer máls hjá fjár­mála­eftirlitinu, lýsing á broti, tilvísun til laga og reglna, sú skylda sem lögð verður á málsaðila með sátt, t.a.m. greiðsla á tilgreindri sektarfjárhæð, og viðurlög við broti á sátt.

Fjármálaeftirlitið sendir málsaðila sátt til samþykktar og skal málsaðili undirrita hana með raf­rænum eða öðrum viðurkenndum hætti innan tiltekins frests frá móttöku hennar. Fjármála­eftirlitið undirritar því næst sáttina og sendir málsaðila afrit ásamt greiðsluseðli, eftir atvikum, þar sem veittur er 30 daga greiðslufrestur.

Verði ekki af sátt, eða ef sátt er felld úr gildi á grundvelli 1. mgr. 5. gr. reglnanna, mun fjármála­eftirlitið, við síðari málsmeðferð vegna brots, ekki byggja á því að málsaðili hafi áður gengist við brotinu í þeim tilgangi að ljúka máli með sátt.

 

5. gr.

Brot gegn sátt.

Verði málsaðili uppvís að því að brjóta gegn sátt getur fjármálaeftirlitið fellt sáttina úr gildi og eftir atvikum tekið ákvörðun um álagningu um stjórnvaldssekt á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsaðili brýtur gegn sátt m.a. ef hann innir ekki þá skyldu af hendi sem sátt kveður á um, gefur rangar upplýsingar um málsatvik eða leynir upplýsingum sem máli skipta.

 

6. gr.

Birting sáttar.

Um birtingu sáttar fer eftir stefnu Seðlabankans um opinbera birtingu, sbr. 9. gr. a laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

 

7. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar með heimild í 111. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, 145. gr. c. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, 20. gr. c. laga nr. 33/2005 um fjarsölu á fjármála­þjónustu, 142. gr. laga nr. 108/2007 um yfirtökur, 32. gr. laga nr. 11/2008 um sértryggð skuldabréf, 19. gr. innheimtulaga nr. 95/2008, 3. mgr. 43. gr. laga nr. 17/2013 um útgáfu og meðferð rafeyris, 3. mgr. 4. gr. laga nr. 78/2014 um greiðslur yfir landamæri í evrum, 166. gr. laga nr. 100/2016 um vátrygg­ingastarfsemi, 3. mgr. 57. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda, 9. mgr. 3. gr. laga nr. 50/2017 um lánshæfismatsfyrirtæki, 7. gr. laga nr. 55/2017 um skortsölu og skuldatrygg­ingar, 51. gr. laga nr. 60/2017 um vátryggingasamstæður, 9. gr. laga nr. 15/2018 um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, 47. gr. laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peninga­þvætti og fjármögnun hryðjuverka, 7. gr. laga nr. 31/2019 um milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur, 49. gr. laga nr. 62/2019 um dreifingu vátrygginga, 11. mgr. 29. gr. laga nr. 7/2020 um verðbréfa­miðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga, 13. gr. laga nr. 14/2020 um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði, 96. gr. laga nr. 70/2020 um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, 9. gr. laga nr. 7/2021 um fjárhagslegar við­mið­anir, 13. gr. laga nr. 60/2021 um aðgerðir gegn markaðssvikum, 11. gr. laga nr. 55/2021 um lykil­upplýsingaskjöl vegna tiltek­inna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta, 16. gr. laga nr. 70/2021 um gjaldeyrismál, 107. gr. laga nr. 114/2021 um greiðsluþjónustu, 127. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármála­gerninga, 11. gr. laga nr. 31/2022 um evrópska áhættu­fjármagns­sjóði og evrópska félagslega framtakssjóði, 10. gr. laga nr. 115/2020 um evrópska langtímafjárfest­ingar­sjóði, 22. gr. laga nr. 5/2023 um greiðslureikninga, 10. gr. laga nr. 6/2023 um peningamarkaðs­sjóði, 6. gr. laga nr. 25/2023 um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokk­unarkerfi fyrir sjálfbærar fjár­festingar, 13. gr. laga nr. 41/2023 um fjármögnunarviðskipti með verð­bréf og 31. gr. laga nr. 68/2023 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjár­muna. Reglur þessar öðlast gildi við birtingu. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 326/2019 um heimild Fjármála­eftirlitsins til að ljúka máli með sátt.

 

Seðlabanka Íslands, 5. nóvember 2024.

 

  Ásgeir Jónsson Rannveig Júníusdóttir
  seðlabankastjóri. framkvæmdastjóri.

B deild - Útgáfud.: 7. nóvember 2024