1. gr.
Við reglugerðina bætist ný grein, sem verður 6. gr. a., og hljóðar svo:
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 6. gr. er, vegna áhrifa alheimsfaraldurs COVID-19, á tímabilinu 1. apríl til 1. júlí 2020, heimilt að óska eftir sérstakri útborgun á endurgreiðslu að hluta. Þetta á við um verkefni sem áður hefur fengið vilyrði, þó framleiðslu sé ekki lokið. Þessi hlutaendurgreiðsla kemur að fullu til frádráttar fullri endurgreiðslu við lokauppgjör. Sömu kröfur eru gerðar til endurgreiðslu á grundvelli þessa ákvæðis og fram koma í 6. gr., eftir því sem við á og á einungis við um kostnað við framleiðslu sem hefur verið greiddur og fellur til á Íslandi. Sérstök skilyrði hlutaendurgreiðslu eru að umsækjandi skili greinargerð um framleiðslustöðu verkefnisins þar sem eftirfarandi upplýsingar koma fram:
- Gera þarf grein fyrir hvaða kostnaðarþættir innan uppfærðrar heildarkostnaðaráætlunar verkefnis mynda stofn til útreiknings hlutaendurgreiðslu.
- Gera þarf grein fyrir þeim verkþáttum sem ekki eru fullunnir og þeim kostnaði sem ekki hefur verið greiddur innan uppfærðrar heildarkostnaðaráætlunar verkefnis.
- Gefa þarf skýringar á því hvernig alheimsfaraldur COVID-19 hefur áhrif á framleiðslu verkefnis, stöðu þess varðandi fjármögnun eða tekjuöflun, almenna dreifingu og fjárhagslegar skuldbindingar.
2. gr.
Reglugerð þessi er sett á grundvelli 8. gr. laga nr. 43/1999, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 15. apríl 2020.
F. h. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,
Ingvi Már Pálsson.
|