Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 22/2019

Nr. 22/2019 17. apríl 2019

LÖG
um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum (strandveiðar).

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. a laganna:

  1. Orðin „og aflaheimilda á tímabil og landsvæði“ í 2. málsl. 2. mgr. falla brott.
  2. 3. málsl. 2. mgr. orðast svo: Þá skal Fiskistofa með auglýsingu í Stjórnartíðindum stöðva strandveiðar þegar sýnt er að leyfilegum heildarafla, að ufsa undanskildum, verði náð samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur um strandveiðar fyrir hvert ár.
  3. Við 1. málsl. 4. mgr. bætist: nema strandveiðileyfi hafi verið fellt úr gildi skv. 5. mgr.
  4. Við 3. málsl. 4. mgr. bætist: sbr. þó 10. mgr.
  5. Á eftir 4. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
        Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. er fiskiskipi sem hefur fengið strandveiðileyfi heimilt að óska eftir að leyfið verði fellt úr gildi og stunda fiskveiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum. Þó tekur slík niðurfelling strandveiðileyfis ekki gildi fyrr en mánuðinn eftir að ósk um niðurfellingu á sér stað. Hafi strandveiðileyfi fiskiskips verið fellt úr gildi getur það fiskiskip ekki fengið strandveiðileyfi að nýju á umræddu strandveiðitímabili.
  6. Á eftir 6. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

    Heimilt er hverju skipi að stunda strandveiðar í 12 veiðidaga innan hvers mánaðar mánuðina maí, júní, júlí og ágúst.

    Fiskistofa skal auglýsa árlega eftir umsóknum um leyfi til strandveiða. Heimilt er hverju strandveiðiskipi að landa ufsa í því magni sem ráðherra ákveður með reglugerð ár hvert án þess að sá afli teljist til hámarksafla skv. 5. tölul. 6. mgr. Um ufsa sem ekki reiknast til heimilaðs afla í hverri veiðiferð strandveiðiskips gilda eftirtalin skilyrði:

    1. Að aflanum sé haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann veginn sérstaklega og skráður.
    2. Að aflinn sé seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir og andvirði hans renni til sjóðs, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum, sbr. þó 2. málsl. 10. mgr.

    Sé heimild skv. 9. mgr. nýtt skulu forráðamenn uppboðsmarkaðarins þar sem aflinn er seldur standa skil á andvirði hins selda afla að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið. Þá skal útgerð skipsins fá 80% af andvirði selds afla sem skiptist milli útgerðar og áhafnar samkvæmt samningum þar um.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

 Gjört á Bessastöðum, 17. apríl 2019.

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Kristján Þór Júlíusson.


A deild - Útgáfud.: 24. apríl 2019