Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1390/2020

Nr. 1390/2020 21. desember 2020

REGLUR
um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum.

I. KAFLI

Gildissvið og skilgreining samruna.

1. gr.

Ákvæði reglna þessara og viðauka þeirra gilda um tilkynningar til Samkeppniseftirlitsins um sam­runa fyrirtækja sem falla undir 17. gr. og 17. gr. a til 17. gr. g samkeppnislaga nr. 44/2005 og 62. gr. b laga um fjölmiðla nr. 38/2011.

 

2. gr.

Samruni skv. 1. mgr. 17. gr. samkeppnislaga telst hafa átt sér stað þegar breyting verður á yfirráðum til frambúðar:

  1. vegna samruna tveggja eða fleiri fyrirtækja eða hluta úr fyrirtækjum sem áður störfuðu sjálfstætt,
  2. þegar fyrirtæki tekur yfir annað fyrirtæki,
  3. vegna þess að einn eða fleiri aðilar, sem þegar hafa yfirráð yfir a.m.k. einu fyrirtæki, eða eitt eða fleiri fyrirtæki ná beinum eða óbeinum yfirráðum, í heild eða að hluta, yfir einu eða fleiri fyrirtækjum til viðbótar með því að kaupa verðbréf eða eignir, með samningi eða öðrum hætti,
  4. með stofnun fyrirtækis um sameiginlegt verkefni sem gegnir til frambúðar allri starfsemi sjálfstæðrar efnahagseiningar.

 

3. gr.

Yfirráð skv. 2. gr. reglna þessara, sbr. 17. gr. samkeppnislaga, skapast af rétti, með samningum eða með einhverjum öðrum hætti sem annaðhvort sérstaklega eða samanlagt, og með hliðsjón af staðreyndum eða lagalegum atriðum sem við eiga, gerir aðila kleift að hafa afgerandi áhrif á fyrirtæki, einkum með:

  1. eignarhaldi eða rétti til að nota eignir fyrirtækis, allar eða að hluta,
  2. rétti eða samningum sem veita afgerandi áhrif á samsetningu, atkvæðagreiðslu eða ákvarð­anir stofnana fyrirtækis.

Yfirráð öðlast aðilar sem:

  1. eru rétthafar eða eiga tilkall til réttar samkvæmt samningum þar að lútandi, eða
  2. þrátt fyrir að vera ekki handhafar slíks réttar eða eiga ekki tilkall til réttar samkvæmt slíkum samningum hafa möguleika til að beita slíkum réttindum.

 

II. KAFLI

Aðdragandi tilkynningar samruna og stöðufundir.

4. gr.

Auk þess að veita aðilum að samruna almennar leiðbeiningar er Samkeppniseftirlitinu heimilt að eiga í samskiptum við þá í aðdraganda tilkynningar um samruna. Tilgangur slíkra samskipta er að undir­búa meðferð mögulegs samrunamáls og tryggja að allar viðeigandi upplýsingar sem samruna­aðilar búa yfir liggi þegar fyrir við upphaf málsmeðferðar. Auk þess geta slíkar viðræður varðað önnur atriði, s.s. mögulega tilkynningarskyldu, markaðsskilgreiningar og hugsanleg samkeppnisleg vandamál og lausnir við þeim. Markmiðið er að slíkur undirbúningur leiði til skjótari og enn vand­aðri meðferðar samrunamála.

Samskipti aðila mögulegs samruna við Samkeppniseftirlitið í aðdraganda samrunatilkynningar, sbr. 1. mgr. þessarar greinar, eru m.a. almennt forsenda þess að eftirlitinu sé unnt að veita þeim undanþágu frá þeim kröfum sem gerðar eru til upplýsinga í samrunatilkynningu, sbr. 2. og 4. mgr. 10. gr. reglna þessara, við tilkynningu á samruna.

Sé þess óskað, er Samkeppniseftirlitinu heimilt að veita aðilum mögulegs samruna trúnað og nafnleynd í slíkum viðræðum.

 

5. gr.

Í málum sem þarfnast frekari rannsóknar, sbr. 3. mgr. 12. gr. reglna þessara, er Samkeppnis­eftirlitinu heimilt að boða samrunaaðila á fund, eða fundi, þar sem þeim er kynnt staða rannsóknar­innar á viðkomandi tímamarki og eftir atvikum frummat eftirlitsins hvað varðar afmarkaða þætti málsins.

Tilgangur slíkra stöðufunda er að stuðla að gagnsærri, vandaðri og skilvirkri ákvarðanatöku í samrunamálum. Slíkir fundir gefa færi á að ræða ýmis mikilvæg atriði, s.s. markaðsskilgreiningar, möguleg samkeppnisleg vandamál, lausnir við þeim, sem og andmæli aðila.

 

III. KAFLI

Tilkynning samruna.

6. gr.

Skylt er að tilkynna um samruna til Samkeppniseftirlitsins sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði:

  1. sameiginleg heildarvelta viðkomandi fyrirtækja er 3 milljarðar kr. eða meira á Íslandi, og
  2. að minnsta kosti tvö af þeim fyrirtækjum sem aðild eiga að samrunanum hafa a.m.k. 300 millj. kr. ársveltu á Íslandi hvert um sig.

Telja skal með veltu skv. 1. mgr. veltu móður- og dótturfélaga, fyrirtækja innan sömu fyrirtækja­samstæðu og fyrirtækja sem aðilar samrunans hafa bein eða óbein yfirráð yfir.

Velta skv. grein þessari skal miðast við síðastliðið reikningsár eða eftir atvikum veltu síðustu 12 mánaða fyrir samruna.

 

7. gr.

Tilkynna skal Samkeppniseftirlitinu um samruna áður en hann kemur til framkvæmda en eftir að samningur um hann er gerður, tilkynnt er opinberlega um yfirtökuboð eða yfirráða í fyrirtæki er aflað. Samruni sem fellur undir ákvæði samkeppnislaga og reglna þessara skal ekki koma til fram­kvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann.

Með samningi í skilningi 1. mgr. þessarar greinar er átt við endanlegt samkomulag sem leiðir til breyttra yfirráða yfir viðkomandi fyrirtæki eða fyrirtækjum. Þannig skal almennt tilkynnt um sam­runa þegar bindandi samkomulag liggur fyrir og að viðskiptin munu að óbreyttu ganga í gegn að fengnu samþykki samkeppnisyfirvalda. Við tilkynningu þarf að gera grein fyrir hvers konar fyrir­vörum við samkomulagið.

Samkeppniseftirlitið getur samkvæmt beiðni veitt undanþágu frá því að samruni komi ekki til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann, enda sé sýnt fram á að tafir á fram­kvæmd samrunans geti skaðað viðkomandi fyrirtæki eða viðskiptaaðila þess og að samkeppni sé stefnt í hættu. Beiðnin skal vera skrifleg og rökstudd. Undanþágu er heimilt að binda skilyrðum í þeim tilgangi að tryggja virka samkeppni.

 

8. gr.

Fyrirtæki sem tilkynnir samruna skv. 1. mgr. 17. gr. a skal greiða samrunagjald að fjárhæð 500.000 kr. fyrir hverja samrunatilkynningu. Fyrirtæki sem tilkynnir samruna skv. 6. mgr. 17. gr. a skal greiða samrunagjald að fjárhæð 200.000 kr. fyrir hverja samrunatilkynningu. Fyrirtæki sem tilkynnir samruna samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins á grundvelli 3. mgr. 11. gr. reglna þessara, sbr. 3. mgr. 17. gr. b samkeppnislaga, skal ekki greiða samrunagjald. Samrunagjald er greitt við afhendingu samrunatilkynningar og rennur til Samkeppniseftirlitsins.

Tímafrestur til rannsóknar samruna byrjar ekki að líða fyrr en samrunagjald hefur verið greitt.

 

9. gr.

Í tilkynningu um samruna skal veita upplýsingar um hann, þau fyrirtæki sem honum tengjast, um viðkomandi markaði og um önnur nauðsynleg atriði við athugun á samkeppnislegum áhrifum samrunans. Í tilkynningu um samruna skulu vera þær upplýsingar, þar á meðal skjöl, sem óskað er eftir í skrá um upplýsingar í viðauka I-II við reglur þessar (samrunaskrá). Upplýsingarnar skulu vera réttar og fullnægjandi og skal samrunagjald hafa verið greitt. Sé afhent skrifleg tilkynning skal jafnframt afhenda eintak af tilkynningunni á rafrænu lesanlegu formi. Með rafrænu lesanlegu formi er átt við tölvuskjöl sem unnt er að afrita texta og tölur úr og vinna með. Samhliða skal jafnframt afhenda eintak af samrunaskrá og fylgiskjölum með henni án trúnaðar, sbr. reglur um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins.

Samkeppniseftirlitið skal senda viðkomandi aðilum skriflega staðfestingu á því að stofnuninni hafi borist tilkynning.

 

10. gr.

Heimilt er að tilkynna samruna með styttri tilkynningu þegar eitt af eftirfarandi skilyrðum er upp­fyllt:

  1. Þeir markaðir þar sem áhrifa samrunans gætir eru ekki tengdir.
  2. Tveir eða fleiri aðilar samrunans starfa á sama vöru- og landfræðilega markaði (láréttur samruni) og markaðshlutdeild þeirra samanlagt er minni en 20%.
  3. Aðilar samrunans starfa ekki á sama sölustigi (lóðréttur samruni) og markaðshlutdeild hvers þeirra á viðkomandi mörkuðum er minni en 40%.
  4. Um er að ræða samruna í skilningi d-liðar 2. gr. reglna þessara, sbr. d-lið 1. mgr. 17. gr. samkeppnislaga, sem hefur takmörkuð áhrif hér á landi.
  5. Aðili sem hafði yfirráð yfir fyrirtæki ásamt öðrum nær fullum yfirráðum yfir því.

Samkeppniseftirlitið getur veitt samrunaaðilum heimild til að tilkynna samruna með styttri til­kynn­ingu þótt samruninn uppfylli ekki skilyrði a–d-liðar 1. mgr., sbr. 6. mgr. 17. gr. a sam­keppnis­­laga. Forsenda þess er almennt sú að samrunaaðilar hafi átt í samskiptum við eftirlitið í aðdrag­anda tilkynningar, sbr. 4. gr. reglna þessara.

Í styttri tilkynningu um samruna skulu a.m.k. vera þær upplýsingar, þar á meðal skjöl, sem óskað er eftir í skrá um upplýsingar í viðauka II við reglur þessar.

Samkeppniseftirlitið getur veitt undanþágu frá efniskröfum um innihald styttri tilkynningar skv. viðauka II við reglur þessar, sbr. 9. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga. Forsenda þess er almennt sú að samrunaaðilar hafi átt í samskiptum við eftirlitið í aðdraganda tilkynningar, sbr. 4. gr. reglna þessara.

 

11. gr.

Ef um er að ræða samruna tveggja eða fleiri fyrirtækja eða hluta úr fyrirtækjum sem áður störf­uðu sjálfstætt í skilningi a-liðar 2. gr. reglna þessara, sbr. a-lið 1. mgr. 17. gr. samkeppnislaga, eða öflun sameiginlegra yfirráða í skilningi c-liðar 2. gr. reglna þessara, sbr. c-lið 1. mgr. 17. gr. samkeppnislaga, skulu aðilar samrunans eða þeir sem ná sameiginlega yfirráðum, eftir því sem við á, ganga sameiginlega frá tilkynningu um samrunann.

Eignist fyrirtæki ráðandi hlut í öðru fyrirtæki skal fyrirtækið sem stóð að yfirtökunni ganga frá tilkynningu um samruna. Sé um yfirtökuboð í fyrirtæki að ræða skal bjóðandi ganga frá tilkynningu.

Telji Samkeppniseftirlitið verulegar líkur á að samruni, sem þegar hefur átt sér stað og uppfyllir ekki skilyrði a- og b-liðar 6. gr. reglna þessara, sbr. a- og b-lið 1. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga, geti dregið umtalsvert úr virkri samkeppni er stofnuninni heimilt að krefja samrunaaðila um til­kynningu um samrunann ef sameiginleg heildarvelta viðkomandi fyrirtækja er meiri en 1,5 millj­arður króna á ári. Eftir að krafa hefur verið sett fram byrjar frestur skv. 12. gr. reglna þessara, sbr. 17. gr. d samkeppnislaga, að líða fyrsta virka dag eftir að Samkeppniseftirlitinu berst tilkynning sem uppfyllir skilyrði reglna þessara, sbr. 17. gr. a samkeppnislaga.

Ef aðilar samruna sem uppfyllir ekki skilyrði a- og b-liðar 6. gr. reglna þessara, sbr. 1. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga, greina Samkeppniseftirlitinu frá því skriflega að samruninn hafi átt sér stað skal Samkeppniseftirlitið innan 15 virkra daga ákveða hvort beita skuli heimild skv. 3. mgr. þessarar greinar, sbr. 3. mgr. 17. gr. b samkeppnislaga.

Um málsmeðferð og heimildir Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar vegna samruna sem krafist er tilkynningar um fer að öðru leyti eftir ákvæðum 17. gr. a til 17. gr. g samkeppnislaga.

 

12. gr.

Samkeppniseftirlitið skal innan 25 virkra daga tilkynna þeim aðila sem sent hefur stofnuninni samrunatilkynningu ef hún telur ástæðu til frekari rannsóknar á samkeppnislegum áhrifum sam­runa. Frestur þessi byrjar að líða fyrsta virka dag eftir að Samkeppniseftirlitinu barst tilkynning sem upp­­fyllir skilyrði 5. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga og reglna þessara. Berist tilkynning frá Samkeppnis­­eftirlitinu skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar ekki innan tilskilins frests getur Samkeppnis­eftirlitið ekki ógilt samrunann.

Ef upplýsingar, þar á meðal skjöl, sem fylgja tilkynningu eru ófullnægjandi byrjar frestur skv. 1. málsl. 1. mgr. þessarar greinar að líða fyrsta virka dag eftir að fullnægjandi upplýsingar berast. Samkeppniseftirlitið skal upplýsa samrunaaðila um það hvort tilkynning þeirra sé ófullnægjandi.

Ákvörðun um ógildingu samruna skal taka eigi síðar en 90 virkum dögum eftir að tilkynning skv. 1. málsl. 1. mgr. þessarar greinar hefur verið send þeim aðila sem tilkynnti um samruna. Setji samrunaaðilar, sem óska eftir sáttaviðræðum við Samkeppniseftirlitið, fram möguleg skilyrði vegna samrunans á 55. virka degi rannsóknar eftir að tilkynning skv. 1. málsl. var send þeim aðila sem tilkynnti um samruna, eða síðar, framlengist frestur til rannsóknar samrunans sjálfkrafa um 15 virka daga. Óski samrunaaðilar þess er Samkeppniseftirlitinu heimilt að framlengja framangreinda fresti til rannsóknar samruna um allt að 20 virka daga.

Berist styttri samrunatilkynning getur Samkeppniseftirlitið innan 15 virkra daga frá móttöku hennar krafist lengri tilkynningar ef skilyrði 1. mgr. 10. gr. reglna þessara, sbr. 6. mgr. 17. gr. a samkeppnislaga, eru ekki uppfyllt eða slíkt þykir nauðsynlegt til að meta samkeppnisleg áhrif sam­runans. Í slíkum tilvikum byrjar frestur skv. 1. mgr. þessarar greinar að líða fyrsta virka dag eftir að lengri tilkynning berst.

Taki Samkeppniseftirlitið ekki ákvörðun um ógildingu samruna eða setningu skilyrða fyrir samruna innan fresta samkvæmt þessari grein getur stofnunin hvorki ógilt samrunann né sett honum skilyrði.

Frestir samkvæmt ákvæði þessu byrja að líða fyrsta virka dag eftir viðkomandi tímamark.

Verði veigamiklar breytingar á forsendum þeirra upplýsinga sem koma fram í tilkynningu og við­komandi fyrirtækjum er kunnugt um þær, ber þeim að tilkynna Samkeppniseftirlitinu um breytingarnar án tafar. Þegar svo hagar til og þessar veigamiklu breytingar geta haft veruleg áhrif á mat á samruna, hætta frestir skv. þessari grein, sbr. 17. gr. d samkeppnislaga, að líða daginn sem samrunaaðilum verður kunnugt um breytingarnar. Þegar fullnægjandi upplýsingar um breytingarnar hafa borist Samkeppniseftirlitinu byrjar frestur að líða að nýju.

 

13. gr.

Ef áfrýjunarnefnd samkeppnismála eða dómstóll ógildir ákvörðun um höfnun samruna eða um setningu skilyrða fyrir samruna vegna formgalla á málsmeðferð er Samkeppniseftirlitinu heimilt að taka samrunann til skoðunar að nýju. Ef breytingar hafa orðið á markaðsaðstæðum skulu samruna­aðilar þegar í stað afhenda Samkeppniseftirlitinu nýja samrunatilkynningu. Hafi engar slíkar breyt­ingar orðið skulu þeir gera Samkeppniseftirlitinu grein fyrir því án tafar. Samkeppniseftirlitið skal taka ákvörðun um höfnun samruna eða setningu skilyrða fyrir samruna í máli sem hefur verið endurupptekið eigi síðar en 30 virkum dögum eftir að endanleg niðurstaða liggur fyrir um ógildingu ákvörðunar stofnunarinnar.

Hafi Samkeppniseftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að samruni hafi ekki raskað samkeppni eða heimilað samruna með setningu skilyrða getur Samkeppniseftirlitið afturkallað slíka ákvörðun ef:

  1. ákvörðunin er byggð á röngum upplýsingum sem einhver samrunaaðila ber ábyrgð á eða þegar hún er fengin fram með blekkingum eða
  2. hlutaðeigandi fyrirtæki brjóta gegn skilyrðum sem samruna hafa verið sett.

Ef ákvörðun er afturkölluð skv. 2. mgr. þessarar greinar, sbr. 3. mgr. 17. gr. e samkeppnislaga, skal Samkeppniseftirlitið leggja að nýju mat á viðkomandi samruna og beita heimildum 17. gr. c samkeppnislaga ef þurfa þykir. Ákvæði laganna um málsmeðferð og tímafresti gilda ekki í slíku máli.

 

14. gr.

Nú er lögmanni, eða öðrum ráðgjafa, veitt umboð í samræmi við reglur um málsmeðferð Sam­keppnis­­eftirlitsins og skal það þá fylgja samrunaskrá óski aðilar þess að lögmaður annist fyrirsvar fyrir þá við meðferð samrunamáls.

 

IV. KAFLI

Sáttarviðræður.

15. gr.

Samkvæmt 17. gr. f samkeppnislaga er Samkeppniseftirlitinu heimilt að ljúka rannsókn sam­runamáls með sátt við málsaðila. Forsenda þess að máli sé lokið með sátt er að samrunaaðilar óski eftir sáttarviðræðum við Samkeppniseftirlitið og leggi fram heildstæðar tillögur að skilyrðum sem ætlað er að leysa með fullnægjandi hætti möguleg samkeppnisleg vandamál sem annars myndu leiða af samruna.

Samkeppniseftirlitið leggur í hverju tilviki mat á hvort forsendur séu til að hefja formlegar sáttar­viðræður um möguleg skilyrði. Við mat á því skal m.a. líta til þess hvort líklegt sé að tillögur sam­runa­aðila mæti þeim líklegu samkeppnislegu vandamálum sem rannsókn eftirlitsins hefur leitt í ljós. Skilyrði sem snúa að gerð markaðarins, kalla ekki á viðvarandi eftirlit og leysa varanlega hið sam­keppnis­lega vandamál hafa að jafnaði meira vægi í efnismati eftirlitsins.

Æskilegt er að tillögur að mögulegum skilyrðum séu lagðar fram eins snemma og framast er unnt við meðferð máls. Leggi samrunaaðilar fram möguleg skilyrði á 55. degi rannsóknar skv. 3. mgr. 12. gr. reglna þessara, eða síðar, framlengist frestur til rannsóknar samrunans sjálfkrafa um 15 virka daga. Leggi samrunaaðilar fram tillögur að skilyrðum á 70. degi rannsóknar, sbr. framan­greint, eða síðar, tekur Samkeppniseftirlitið þær almennt ekki til efnislegrar skoðunar nema sérstakar aðstæður leyfi það og unnt er að rannsaka skilyrðin með fullnægjandi hætti.

Áður en formlegar sáttarviðræður við aðila samruna hefjast skulu þeir undirrita yfirlýsingu þess efnis að þeir geri sér grein fyrir þeim réttaráhrifum sem lok máls með sátt um skilyrði fyrir samruna hefur í för með sér.

Samkeppniseftirlitinu er heimilt, að fenginni beiðni aðila eða að eigin frumkvæði, að hefja máls­meðferð að nýju vegna máls sem lokið er með sátt, sbr. 3. mgr. 17. gr. f samkeppnislaga:

  1. ef verulegar breytingar hafa orðið á þeim málsatvikum sem liggja til grundvallar ákvörðun,
  2. ef hlutaðeigandi fyrirtæki efna ekki skuldbindingar sínar, eða
  3. ef ákvörðunin er byggð á ófullnægjandi, röngum eða villandi upplýsingum sem aðilar hafa látið í té.

 

V. KAFLI

Viðurlög og gildistaka.

16. gr.

Brot gegn reglum þessum varða viðurlögum skv. IX. kafla samkeppnislaga nr. 44/2005.

 

17. gr.

Reglur þessar eru settar með stoð í 2. mgr. 8. gr., 5. mgr. 17. gr. a og 4. mgr. 17. gr. f samkeppnis­laga nr. 44/2005 og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur um tilkynningu samruna nr. 684/2008, með síðari breytingum.

 

Samkeppniseftirlitinu, 21. desember 2020.

 

Páll Gunnar Pálsson.

 

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 29. desember 2020