Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 835/2019

Nr. 835/2019 2. september 2019

REGLUR
um aðfaranám í háskólum.

1. gr.

Almennt.

Aðfaranám er ætlað þeim sem ekki hafa lokið reglubundnu námi í framhaldsskóla og hyggja á háskólanám eða þeim sem lokið hafa námi í framhaldsskóla og hyggja á háskólanám en þurfa að bæta við sig námi til að fullnægja inntökuskilyrðum háskóla. Aðfaranámið er skilgreint á framhalds­skólastigi og er skipulagt í framhaldsskólaeiningum. Námið er ekki metið til háskólaeininga.

Viðurkenndum háskóla er heimilt, að fengnu samþykki mennta- og menningarmálaráðuneytis, að bjóða upp á aðfaranám að skólanum. Aðfaranám skal vera fullnægjandi undirbúningur að háskóla­námi við þann háskóla er ábyrgist það. Þó er öðrum háskólum frjálst að meta aðfaranámið til inntöku samkvæmt lögum um háskóla nr. 63/2006. Í samþykki ráðuneytisins felst ekki að stjórn­völd séu skuldbundin til að veita fé til námsins.

Námið og gæði þess eru á ábyrgð viðkomandi háskóla en honum er heimilt að fengnu samþykki ráðuneytisins, að gera samning við framhaldsskóla eða aðra viðurkennda fræðsluaðila um fram­kvæmd þess.

2. gr.

Skipulag náms og framkvæmd.

Aðfaranám er ætlað fullorðnum nemendum og er ekki ígildi stúdentsprófs.

Aðfaranám getur verið skipulagt sem stök námskeið eða heildstætt undirbúningsnám.

Háskóli sem hyggst bjóða upp á aðfaranám skal gera greinargóða námslýsingu sem tekur til skipulags náms, kennslu og námsmats, umfangs og inntökuskilyrða í samræmi við aðgangsviðmið viðkomandi háskóla. Jafnframt skal þar fjallað um réttindi nemenda við námslok í aðfaranámi. Þá ber ábyrgðaraðilum aðfaranáms að upplýsa tilvonandi nemendur með skýrum hætti um réttindi til áframhaldandi náms á háskólastigi að loknu aðfaranámi.

Háskóli ber ábyrgð á að meta fyrra nám, hæfni nemenda og gefur út prófskírteini er staðfestir námslok. Við mat á fyrra námi skal þess gætt að nemendur endurtaki ekki nám sem þeir hafa þegar lokið og leitast við að meta hæfni sem þeir hafa tileinkað sér í starfi.

Ef aðfaranám er skipulagt sem heildstætt nám skulu nemendur í fullu námi geta lokið því á tveimur önnum. Ef aðgangsviðmið deilda kalla á meiri undirbúning er heimilt að skipuleggja aðfaranám sem þriggja anna nám.

3. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 4. mgr. 19. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, með áorðnum breytingum taka þegar gildi. Á sama tíma falla úr gildi reglur um aðfaranám nr. 1266/2013.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 2. september 2019.

Lilja D. Alfreðsdóttir.

Ásta Magnúsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 23. september 2019