Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 971/2023

Nr. 971/2023 7. september 2023

REGLUR
um beingreiðslusamninga við fatlað fólk og forsjáraðila fatlaðra barna í Fjallabyggð.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Grundvöllur beingreiðslusamninga.

Reglur þessar grundvallast á 28. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og 10. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 og taka til útfærslu á þjónustu sem Fjallabyggð er skylt að veita fötluðu fólki samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitar­­félaga og lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Þjónusta í formi beingreiðslusamnings er háð faglegu mati félagsmáladeildar Fjallabyggðar um að beingreiðslusamningur sé hentugt þjónustuform til að mæta þjónustuþörf viðkomandi.

Félagsmáladeild gerir beingreiðslusamninga við fatlað fólk og forsjáraðila fatlaðra barna sem eiga lögheimili í Fjallabyggð.

 

2. gr.

Markmið og inntak beingreiðslusamninga.

Markmið beingreiðslusamninga er að auka val fatlaðs fólks á formi og fyrirkomulagi aðstoðar. Unnt er að gera beingreiðslusamning vegna athafna daglegs lífs sem fellur undir stuðnings- og stoð­þjónustu. Um er að ræða þjónustu samkvæmt 1., 3. og 4. tl. 1. mgr. 8. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Inntak beingreiðslusamnings er að þjónustuþörf notanda er metin í tilteknum fjölda klukku­stunda á grundvelli reglna Fjallabyggðar um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra og reglna Fjalla­byggðar um stuðningsþjónustu og stoðþjónustu. Samhliða þarf að liggja fyrir mat félagsmáladeildar á að almenn stuðnings- og stoðþjónusta sem áður hefur verið samþykkt nýtist ekki notanda. Er þá notanda í sjálfsvald sett hvernig þjónustu er háttað og hvenær tíma dagsins hún fer fram innan þeirra marka sem mat á þjónustuþörf setur. Notanda er þó skylt að gæta að lágmarksréttindum aðstoðar­fólks í starfi þeirra. Ekki er um að ræða næturþjónustu.

Heimilt er að gera beingreiðslusamning við fatlað fólk á aldrinum 18 til 67 ára eða við foreldra/forsjáraðila fatlaðs barns á aldrinum 6 til 18 ára í ákveðnum tilfellum og að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum, sbr. III. kafla í reglum þessum. Hafi fatlaður einstaklingur átt rétt á bein­greiðslu­samningi fyrir 67 ára aldur á hann rétt á slíkri útfærslu á þjónustu eftir 67 ára aldur að uppfylltum skilyrðum í reglum þessum.

 

II. KAFLI

Umsókn og mat á þjónustuþörf.

3. gr.

Umsókn og fylgigögn.

Umsóknir um beingreiðslusamninga eru afgreiddar af félagsmáladeild í kjölfar viðtals við ráðgjafa þar sem farið hefur verið heildstætt yfir þjónustuþarfir umsækjanda. Umsækjandi getur veitt öðrum aðila skriflegt umboð til að sækja um þjónustu í formi beingreiðslusamnings fyrir sína hönd.

Með umsókn skal leggja fram eftirfarandi gögn:

  1. Örorkumat, fötlunargreiningu, umönnunarmat og mat á stuðningsþörf/SIS-mat umsækj­anda, sé það til staðar, eftir því sem við á.
  2. Yfirlit Skattsins yfir greiðslustöðu opinberra gjalda.
  3. Upplýsingar úr vanskilaskrá.

 

4. gr.

Þjónustuþörf.

Þjónustuþörf umsækjanda er metin í tilteknum fjölda klukkustunda. Fjárhæð sem greidd er vegna hverrar klukkustundar í metinni þjónustu er reiknuð samkvæmt kostnaðarforsendum félags­mála­deildar.

 

5. gr.

Afgreiðsla umsókna.

Ákvörðun um að veita þjónustu í formi beingreiðslusamnings skal taka á grundvelli faglegs mats á þjónustuþörf ásamt því sem öll skilyrði 6. og 7. gr. þessara reglna verða að vera uppfyllt.

 

III. KAFLI

Fyrirkomulag beingreiðslusamnings.

6. gr.

Forgangur til þjónustu.

Þeir umsækjendur eru í forgangi fyrir þjónustu í formi beingreiðslusamnings sem hafa sértækar þarfir sem félagsmáladeild getur ekki uppfyllt með viðeigandi hætti, svo sem þegar þjónusta er afar sérhæfð, veitt utan hefðbundins vinnutíma eða í stuttan tíma í senn. Þá þarf einnig að liggja fyrir faglegt mat um að þjónusta veitt samkvæmt beingreiðslusamningi sé hentugra form til að mæta þjónustu­þörfum viðkomandi, sbr. 1. gr. í reglum þessum.

Ekki er heimilt að veita að auki sömu þjónustu frá félagsmáladeild til að mæta þörfum notanda og samið er um í beingreiðslusamningi.

 

7. gr.

Skilyrði fyrir samþykkt.

Grundvallarskilyrði fyrir beingreiðslusamningi er að veiting þjónustu sem notandi á rétt á sam­kvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um þjónustu við fatlað fólk með lang­varandi stuðningsþarfir falli niður af hálfu Fjallabyggðar. Í staðinn fær notandi greidda ákveðna fjár­hæð sem hann ráðstafar sjálfur til kaupa á metinni þjónustu. Samþykkt fyrir gerð beingreiðslu­samnings er ávallt háð fjárhagsáætlun Fjallabyggðar hverju sinni.

Til að umsækjandi eigi rétt á þjónustu í formi beingreiðslusamnings verður hann að uppfylla skilyrði 1. og 6. gr. í reglum þessum um grundvöll beingreiðslusamnings og forgang til þjónustu, ásamt öllum eftirfarandi skilyrðum:

  1. Umsækjandi skal eiga lögheimili í Fjallabyggð meðan þjónustan er veitt.
  2. Umsækjandi skal vera á aldrinum 18 til 67 ára. Foreldrar/forsjáraðilar fatlaðra barna, 6 ára og eldri, geta jafnframt sótt um þjónustu í formi beingreiðslusamnings fyrir hönd barna sinna.
  3. Umsækjandi skal teljast fatlaður í skilningi laga um þjónustu við fatlað fólk með langvar­andi stuðningsþarfir.
  4. Umsækjandi skal búa í sjálfstæðri búsetu en ekki í sértæku þjónustu- og búsetuúrræði og þar sem veitt er samþætt þjónusta. Búseta einstaklings í foreldrahúsum fellur undir sjálf­stæða búsetu. Einstaklingur sem býr á hjúkrunarheimili eða stofnun og þar sem greidd eru dag­gjöld frá ríkinu á ekki rétt á þjónustu í formi beingreiðslusamnings.
  5. Umsækjandi skal hafa viðvarandi og umfangsmikla þjónustuþörf sem metin er af félags­mála­deild í samvinnu við umsækjanda.
  6. Umsækjandi skal þurfa daglega aðstoð sem nemur að lágmarki 60 klst. á mánuði, sbr. fag­legt mat á þjónustuþörf umsækjanda skv. 5. gr. í reglum þessum. Fjöldi tíma í beingreiðslu­samningi ræðst af samþykkt samkvæmt reglum Fjallabyggðar um stuðnings- og stoðþjón­ustu fyrir börn og fullorðna.

Félagsmáladeild er heimilt að líta til þess hvort umsækjandi eða foreldrar/forsjáraðilar séu á vanskilaskrá við afgreiðslu umsóknar.

 

8. gr.

Greiðslur.

Greiðslur frá félagsmáladeild til notanda/forsjáraðila (hér eftir nefndur notandi) hefjast við gildis­töku beingreiðslusamnings. Greiðslur berast að jafnaði 25. dag mánaðarins á undan.

Notandi greiðir kostnað sem fellur til vegna beingreiðslusamnings auk þess sem hann skal taka á sig þær skyldur sem uppfylla þarf varðandi umsýslu beingreiðslusamnings. Óheimilt er að reikna umsýslukostnað inn í samningsfjárhæð.

 

9. gr.

Fjárhæðir og meðferð fjármagns.

Greidd fjárhæð vegna hverrar klukkustundar í metinni þjónustu er reiknuð samkvæmt kostn­aðar­forsendum félagsmáladeildar.

Notandi ber ábyrgð á að ráðstafa fjármagni samkvæmt beingreiðslusamningi í samræmi við mat á þjónustuþörf. Notandi skal leggja fram öll nauðsynleg gögn til félagsmáladeildar þar að lútandi, sbr. 14. gr. í reglum þessum.

Notanda er skylt að ráðstafa hverri mánaðargreiðslu í þeim mánuði sem hún er greidd. Notanda er þó heimilt að færa til greiðslur vegna vinnustunda milli mánaða innan almanaksársins til að mæta breytilegum þjónustuþörfum. Ef uppsafnaðar greiðslur vegna vinnustunda nema allt að tveimur mán­aðar­greiðslum samkvæmt beingreiðslusamningi skal notandi leggja fram viðhlítandi skýringar á slíkri uppsöfnun. Ef fullnægjandi skýringar verða ekki veittar af hálfu notanda er félagsmáladeild heimilt að endurkrefja um fjárhæðina. Notanda er skylt að skila afgangsfjármagni til Fjallabyggðar í lok hvers almanaksárs. Heimilt er að lækka greiðslur næstu mánaða sem nemur þeirri fjárhæð sem notandi verður endurkrafinn um.

Skil á fé og gögnum til Fjallabyggðar er forsenda fyrir því að til endurnýjunar samnings geti komið.

Félagsmáladeild er heimilt að stöðva greiðslur tímabundið þegar notandi er ekki fær um að nýta þá þjónustu sem fjármagn er ætlað til. Í þeim tilvikum þarf þó að taka tillit til skuldbindinga sem notandi kann þegar að hafa stofnað til í tengslum við þjónustuna.

 

10. gr.

Gildistími.

Í fyrsta sinn sem beingreiðslusamningur er gerður skal gildistími hans vera þrír mánuðir. Aldrei skal gera beingreiðslusamning til lengri tíma en eins árs í senn og skal miða við almanaksár.

 

IV. KAFLI

Framkvæmd beingreiðslusamninga.

11. gr.

Form og gerð samnings.

Ef notandi er ólögráða gerir lögráðamaður hans samning við félagsmáladeild fyrir hans hönd. Skal sá aðili annast alla umsýslu fyrir hönd notanda. Notast skal við staðlað samningsform.

 

12. gr.

Aðstoðarfólk.

Notandi skal annast leit, ráðningu og umsýslu vegna aðstoðarfólks. Geti notandi ekki annast það ferli án aðstoðar skal leitast eftir samþykki hans við valið. Notanda er ekki heimilt að velja sér aðstoðarmann sem býr á sama heimili eða er náinn ættingi. Þó er heimilt að víkja frá þessu ákvæði í undantekningartilvikum ef sýnt þykir að hagsmunum notanda sé best borgið með slíkri ráðstöfun og það sé sannarlega hans vilji. Notandi skal gera samning við aðstoðarfólk sitt þar sem m.a. er kveðið á um réttindi og skyldur aðstoðarfólks, kjör, umfang vinnu, vinnufyrirkomulag og upp­sagnar­frest.

 

13. gr.

Skilyrði fyrir ráðningu aðstoðarfólks.

Aðstoðarfólk skal skila inn sakavottorði að beiðni notanda og verður ekki hjá því komist. Sveitarfélagið hefur heimild til að fylgja þessu eftir við notanda.

Notanda er óheimilt að ráða aðstoðarfólk til þess að sinna þjónustu við sig ef viðkomandi hefur hlotið refsidóma vegna brota á ákvæðum XXII. og XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hafi viðkomandi verið dæmdur til refsingar fyrir brot á öðrum ákvæðum almennra hegn­ingarlaga eða laga um ávana- og fíkniefni skal ráðgjafi félagsmáladeildar, í samráði við notanda, meta áhrif þess á hæfni viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins.

 

14. gr.

Eftirlit og upplýsingaskylda.

Stöðumat skal fara fram innan tólf vikna frá upphafi gildistíma beingreiðslusamnings þar sem kannað er hvernig samningur nýtist notanda og hversu vel markmið hans hafa náðst. Skal matið framkvæmt í samvinnu við notanda.

Notandi skal skila félagsmáladeild rekstrarskýrslu eigi sjaldnar en á sex mánaða fresti um fjölda vinnustunda sem hafa verið nýttar. Þá skal notandi leggja fram öll nauðsynleg gögn þar að lútandi, s.s. samninga við aðstoðarfólk, afrit greiddra reikninga og önnur gögn sem máli kunna að skipta í samræmi við beiðni félagsmáladeildar.

Eftir hvert almanaksár er notanda skylt að veita félagsmáladeild upplýsingar um samninga, tíma­skrár og vinnuáætlanir sem tengjast samningi. Nota ber staðlað yfirlitsblað yfir nýtingu fjár­magns og framkvæmd þjónustu, sem staðfest hefur verið af aðstoðarfólki notanda. Auk þess ber notanda að leggja fram reikninga og staðfestingu á greiðslu til aðstoðarfólks. Einnig skulu afhent öll gögn sem kveðið er á um í 2. mgr. þessa ákvæðis auk skattframtals. Þá er félagsmáladeild heimilt að kalla eftir fyrrgreindum upplýsingum oftar ef þörf er á.

Endurmat á þjónustuþörf notanda skal framkvæmt við endurnýjun samnings og eigi síðar en fjórum vikum áður en samningur rennur úr gildi. Notandi skal tilkynna félagsmáladeild tímanlega um þær breytingar á högum sínum sem geta haft áhrif á framkvæmd samnings, þar á meðal um tíma­bundna dvöl annars staðar en á lögheimili sem og um flutning lögheimilis.

Breytingar á aðstæðum notanda sem áhrif hafa á þarfir hans fyrir stuðning geta leitt til endur­mats á þjónustuþörf.

 

V. KAFLI

Lok samnings.

15. gr.

Uppsögn samnings.

Umsýsla vegna beingreiðslusamninga skal fara í öllu að gildandi lögum, reglugerðum, opin­berum fyrirmælum sem við eiga sem og almennum reglum vinnuréttar eftir því sem við á.

Gagnkvæmur uppsagnarfrestur samningsaðila er einn mánuður og skal tilkynna gagnaðila um uppsögn með skriflegum hætti svo unnt sé að skipuleggja þjónustu við notanda frá félagsmáladeild.

 

16. gr.

Vanefndir og riftun samnings.

Félagsmáladeild getur krafist þess að notandi bæti úr vanefndum á samningi á eigin kostnað. Meinta vanefnd ber þó ávallt að tilkynna til notanda með sannanlegum hætti og gefa honum kost á að gefa skýringar eða bæta úr innan hæfilegs frests. Félagsmáladeild skal setja hæfilegan tímafrest fyrir því hvernig staðið skuli að úrbótum vanefnda. Séu úrbætur ekki gerðar innan þess tíma sem félagsmáladeild tilgreinir, getur það krafist þess að notandi greiði þann kostnað sem af hlýst til að koma að nauðsynlegum úrbótum.

Verði uppi ágreiningur milli félagsmáladeildar og notanda skal leitast við að jafna þann ágrein­ing. Ef um verulegar vanefndir er að ræða geta aðilar rift samningi fyrirvaralaust.

 

17. gr.

Viðbrögð vegna riftunar.

Í þeim tilvikum sem samningi er rift stöðvast greiðslur frá Fjallabyggð til notanda þegar í stað.

Fjallabyggð er heimilt að krefja notanda um endurgreiðslu fjár, í heild eða að hluta, sem honum hefur verið úthlutað samkvæmt samningi ef sýnt er fram á að eitthvert eftirtalinna tilvika eigi við:

  1. Féð hefur að hluta til eða í heild ekki verið nýtt til að koma til móts við skilgreindar þarfir notanda fyrir stuðning samkvæmt áætlun.
  2. Ákvæðum beingreiðslusamnings hefur ekki verið fylgt.

Í þeim tilvikum sem beingreiðslusamningi er rift ber félagsmáladeild að tryggja að ekki verði rof á þjónustu við notanda og að lok samnings valdi notanda eins lítilli röskun og óþægindum og mögu­legt er.

 

VI. KAFLI

Málsmeðferð og ákvörðun.

18. gr.

Ákvörðun.

Félagsmáladeild metur þjónustuþörf umsækjanda eins fljótt og unnt er eftir að umsókn hefur borist út frá þeim gögnum sem liggja fyrir. Öflun gagna og upplýsinga skal fara fram í samvinnu við umsækjanda eftir því sem unnt er. Að öðrum kosti skal hafa samvinnu og samráð við persónulegan talsmann hans, sbr. ákvæði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 88/2011 um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Félagsmáladeild skal taka ákvörðun í máli svo fljótt sem unnt er og tryggja að mál sé nægjan­lega upplýst áður en ákvörðun er tekin.

 

19. gr.

Samvinna við notanda.

Við meðferð umsóknar, öflun gagna og ákvarðanatöku skal leitast við að hafa samvinnu og samráð við notanda eftir því sem unnt er, en að öðrum kosti við aðstoðarmann/umboðsmann notanda eftir því sem við á.

 

20. gr.

Varðveisla gagna, trúnaður og aðgangur að gögnum.

Málsgögn er varða persónulega hagi einstaklinga skulu varðveitt með tryggilegum hætti. Hafi starfsmenn kynnst einkahögum umsækjanda eða annarra í starfi sínu er leynt eiga að fara samkvæmt lögum eða eðli máls er þeim óheimilt að fjalla um þau mál við óviðkomandi nema að fengnu sam­þykki viðkomandi. Þagnarskylda helst eftir að starfsmaður lætur af störfum.

Umsækjandi á rétt á að kynna sér upplýsingar úr skráðum gögnum sem varða mál hans að svo miklu leyti sem það stangast ekki á við trúnað gagnvart öðrum.

Vinnsla mála og varðveisla gagna byggist á lögum um persónuvernd og vinnslu persónu­upplýsinga nr. 90/2018 og lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014.

 

21. gr.

Leiðbeiningar til notanda.

Við afgreiðslu umsóknar skal starfsmaður félagsmáladeildar bjóða notanda ráðgjöf og veita upp­lýsingar og leiðbeiningar um réttindi sem hann kann að eiga annars staðar. Þá skal starfsmaður einnig upplýsa notanda um þær skyldur sem kunna að hvíla á honum vegna beingreiðslusamnings og leiðbeina honum um að leita upplýsinga um það hjá viðeigandi yfirvöldum, s.s. vegna skattskila og upplýsinga til Tryggingastofnunar ríkisins.

 

22. gr.

Rangar eða villandi upplýsingar.

Beingreiðslusamningur sem gerður er á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hálfu notanda fellur þá þegar úr gildi og getur félagsmáladeild endurkrafið notanda um þá fjárhæð sem úthlutað hefur verið samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Félagsmáladeild Fjallabyggðar skal þó sjá til þess að ekki verði rof á þjónustu.

Ef sannreynt er við vinnslu máls að upplýsingar sem notandi hefur veitt eru rangar eða villandi stöðvast afgreiðsla umsóknarinnar á meðan notanda er gefið tækifæri á að leiðrétta eða bæta úr annmörkum.

 

23. gr.

Niðurstaða, rökstuðningur synjunar.

Kynna skal niðurstöðu á afgreiðslu umsóknar með skriflegum hætti svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn synjað skal umsækjandi fá skriflegt svar þar sem vísað er með skýrum hætti til viðeigandi ákvæða reglna þessara og leiðbeint um heimild til að óska rökstuðnings fyrir synjun.

Upplýsa skal umsækjanda um rétt hans til að fara fram á endurskoðun synjunar. Umsækjandi getur áfrýjað ákvörðun félagsmáladeildar til félagsmálanefndar innan fjögurra vikna frá því honum barst vitneskja um ákvörðun.

 

24. gr.

Málskot til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Ákvörðun félagsmálanefndar skal kynnt umsækjanda skriflega og samhliða kynntur réttur hans til að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála. Umsækjandi getur kært synjun félags­mála­nefndar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Skal það gert innan þriggja mánaða frá því að umsækjanda var kunngerð ákvörðun félagsmálanefndar.

 

25. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar með stoð í 28. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991 og 10. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018 og kveða þær á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita. Reglur þessar öðlast þegar gildi.

Samþykkt í félagsmálanefnd Fjallabyggðar, 29. nóvember 2022.

Samþykkt á 223. fundi bæjarstjórnar Fjallabyggðar, 15. desember 2022.

 

Fjallabyggð, 7. september 2023.

 

Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri.


B deild - Útgáfud.: 21. september 2023