Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Leiðréttingar:
Leiðrétt skjal: B_nr_1449_2022_leidrett_skjal.pdf
Leiðrétt 22. desember 2022:
HTML-texti og PDF-skjal: Ný mgr. á eftir 8. tl. verði 2. mgr. undir 8. tl. og síðari 1.-7. tl. verði 9. -15. tl.


Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1449/2022

Nr. 1449/2022 7. desember 2022

AUGLÝSING
frá ríkisskattstjóra um skil á upplýsingum á árinu 2023, vegna framtalsgerðar o.fl.

Ríkisskattstjóri hefur ákveðið að eftirtöldum upplýsingum og gögnum vegna ársins 2022 skuli skilað eigi síðar en 20. janúar 2023. Upplýsingum þessum skal skilað á rafrænu formi og samkvæmt lýsingum á vef Skattsins á slóðinni www.skatturinn.is.

  1. Launa- og verktakaupplýsingar o.fl. (RSK 2.01). Skilaskyldir eru allir þeir sem innt hafa af hendi launagreiðslur, hlunnindi (þ.m.t. kaup- og söluréttarsamningar), lífeyri, bætur, styrki, happdrættis- og talnavinninga (skattskylda sem óskattskylda), greiðslur til verktaka fyrir þjónustu (efni og vinnu) eða aðrar greiðslur (þ.m.t. umsýslu- eða umboðsgreiðslur, s.s. í ferðaþjónustu o.fl.).
  2. Bifreiðahlunnindaupplýsingar (RSK 2.035). Skilaskyldir eru allir þeir sem í rekstri sínum eða annarri starfsemi hafa látið launamönnum eða öðrum vélknúin ökutæki í té til afnota.
  3. Hlutafjárupplýsingar (RSK 2.045). Skilaskyld eru öll hlutafélög, einkahlutafélög, samlags­hlutafélög, samvinnuhlutafélög og sparisjóðir. Sundurliða skal upplýsingarnar á kennitölur og nöfn allra skattaðila (rétthafa) eða á erlent auðkennisnúmer (TIN nr.) ef um erlenda rétt­hafa er að ræða án íslenskrar kennitölu.
  4. Stofnsjóðsupplýsingar (RSK 2.065). Skilaskyld eru öll samlagsfélög, sameignarfélög og samvinnufélög, þ.m.t. kaupfélög. Skila skal m.a. upplýsingum um eign eigenda í félaginu í árslok og úttektir af höfuðstól á árinu. Sundurliða skal upplýsingarnar á kennitölur og nöfn allra skattaðila (rétthafa) eða á erlent auðkennisnúmer (TIN nr.) ef um erlenda rétthafa er að ræða án íslenskrar kennitölu.
  5. Launaframtali (RSK 1.04, RSK 1.06 eða RSK 4.05) skal skila rafrænt með almennu skatt­framtali.
  6. Viðskipti með hlutabréf/afleiður. Skilaskyldir eru bankar, verðbréfafyrirtæki og aðrir þeir aðilar sem annast kaup og sölu, umboðsviðskipti og aðra umsýslu með hlutabréf og/eða afleiður. Sundurliða skal upplýsingar um hver viðskipti á kennitölu eða erlent skatt­auðkennis­­númer (TIN) viðskiptaaðila.
  7. Innstæður o.fl. Skilaskyldar eru allar fjármálastofnanir og aðrir aðilar sem taka við fjármunum til ávöxtunar eða hafa milligöngu um ávöxtun og/eða vörslu fjármuna. Sama á við um þá sem taka við eða hafa milligöngu um hvers konar ráðstöfun fjármuna, s.s. vegna söfnunartrygginga og rafeyriskorta. Tilgreina skal, sundurliðað á kennitölu eða erlent skatt­auðkennisnúmer (TIN) viðskiptaaðila, upplýsingar um alla bankareikninga og rafeyris­kort, þ.e. innstæður og heildarveltu ársins ásamt vaxtatekjum, þ.m.t. verðbætur, afföll og gengishagnað, hvort heldur greitt hefur verið til erlendra eða innlendra aðila og afdregna staðgreiðslu af þeim, og stöðu reikninganna í árslok. Þá skal upplýsa um alla vexti af kröfum greiddum erlendum aðilum, sbr. 8. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003 og afdrátt staðgreiðslu og stöðu þessara krafna í árslok. Sjá nánar í skilalýsingu á vef Skattsins.
  8. Viðskipti með verðbréf, önnur en hlutabréf og afleiður, sbr. 6. tölul. að framan. Skila skal, sundurliðað á kennitölu eða erlent skattauðkennisnúmer (TIN) viðskiptaaðila, upplýsingum um öll verðbréf, s.s. kröfur og hlutdeildarskírteini. Tilgreina skal vaxtatekjur, þ.m.t. verð­bætur, afföll og gengishagnað, hvort heldur greitt hefur verið erlendum eða innlendum aðilum og afdregna staðgreiðslu af þeim, og stöðu í árslok.

Flokka skal fjármálagerninga í almenna og sérstaka (kúlubréf, s.s. spariskírteini). Vaxtatekjur af sérstökum verðbréfum, sem seld voru eða innleyst á árinu 2022, þarf að sundurliða eftir því sem þær hafa áunnist. Sjá nánar í skilalýsingu á vef Skattsins.

  1. Lánaupplýsingar (bankalán, fasteignaveðlán, bílalán og önnur lán). Skilaskyldar eru allar fjármálastofnanir (bankar, sparisjóðir, lífeyrissjóðir, tryggingafélög, fjármögnunarleigur, greiðslukortafyrirtæki o.s.frv.) sem hafa lánað fé til einstaklinga og lögaðila. Jafnframt skal veita upplýsingar um kröfur sem hafa verið afskrifaðar að hluta eða öllu leyti.
  2. Takmörkuð skattskylda - greiðsluyfirlit (RSK 2.025). Skilaskyldir eru þeir sem innt hafa af hendi hvers konar greiðslur til erlendra aðila og annarra, sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi, og skattskyldar eru skv. 3. tölul. (þjónusta eða starfsemi innt af hendi hér á landi) og 6. tölul. (leiga og greiðslur fyrir afnot eða hagnýtingu einkaleyfa og hvers konar annarra leyfa, réttinda, sérþekkingar, o.fl.) 3. gr. laga nr. 90/2003.
  3. Greiðsluupplýsingar - leiga eða afnot (RSK 2.02). Skilaskyldir eru þeir sem innt hafa af hendi hvers konar greiðslur fyrir leigu eða afnot af lausafé, fasteignum og fasteignaréttindum, sbr. 1. og 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, svo og fyrir greiðslur fyrir sérhver önnur afnot af réttindum, s.s. aflaheimildum, einkaleyfum eða sérþekkingu, enda sé ekki gerð grein fyrir þessum greiðslum á öðrum skilagreinum sem taldar eru upp hér að framan. Sama á við um þá sem hafa í atvinnuskyni milligöngu um útleigu, bæði til skamms og langs tíma, s.s. leigu­miðlarar, bókunarþjónustufyrirtæki og umboðsmenn slíkra aðila.
  4. Hlutabréfakaup skv. staðfestri kaupréttaráætlun (RSK 2.085). Skilaskyld eru öll hlutafélög, einkahlutafélög og samlagshlutafélög sem gert hafa kaupréttarsamninga við starfsmenn sína samkvæmt staðfestri kaupréttaráætlun, sbr. 10. gr. laga nr. 90/2003. Sama á við um söluréttar­samninga.
  5. Staðfesting á tilteknum hlutabréfakaupum (listi yfir þátttakendur). Skilaskyld eru öll hluta­félög og einkahlutafélög sem fengið hafa staðfestingu ríkisskattstjóra á að þau uppfylli skilyrði fyrir því að kaup einstaklinga á hlutum í hlutafjáraukningu félagsins geti veitt rétt til skattfrádráttar sbr. B-lið 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003.
  6. Fjármagnstekjur. Þeir sem innheimt hafa vexti (þ.m.t. verðbætur og dráttarvexti), skulu skila upplýsingum um slíkar fjármagnstekjur, sundurliðað á móttakendur, og staðgreiðslu fjár­magnstekjuskatts sem haldið hefur verið eftir. Hér er einkum um að ræða innheimtu­aðila, t.d. lögmannsstofur, óháð því hvort veitt hefur verið undanþága frá afdrætti staðgreiðslu við innheimtu á vaxtatekjum einstaklinga.
  7. Mótteknar gjafir og framlög til félaga sem skráð eru á almannaheillaskrá Skattsins. Skila­skyldir eru allir þeir lögaðilar sem samþykktir hafa verið til skráningar á almannaheillaskrá Skattsins og skal skila upplýsingum um fjárhæðir móttekinna gjafa/framlaga, sundurliðað eftir gefendum ásamt kennitölum. Skil á þessum upplýsingum er forsenda þess að viður­kenndur verði frádráttur framteljenda frá tekjum sínum vegna gjafa/framlaga, sbr. 7. tölul. A-liðar 30. gr., sbr. og 3. málsl. 2. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003.

Ef skilað er röngum eða gölluðum upplýsingum, eða ef þær eru á annan hátt ekki samkvæmt skila­lýsingu, þarf skilaskyldur aðili, eftir atvikum, að greiða þann kostnað sem af því kann að hljótast.

Allar fyrirspurnir vegna gagnaskila má senda á netfangið [email protected].

Auglýsing þessi, sem birt er samkvæmt 92. og 93. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, öðlast þegar gildi.

 

Reykjavík, 7. desember 2022.

 

Snorri Olsen ríkisskattstjóri.


B deild - Útgáfud.: 21. desember 2022