Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 157/2022

Nr. 157/2022 21. janúar 2022

REGLUR
um nýráðningar og hæfismat akademískra starfsmanna við Landbúnaðarháskóla Íslands.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um nýráðningar og hæfismat akademískra starfsmanna, þ.e. lektora, dósenta og prófessora, við Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ). Reglur þessar gilda ekki um ráðningar aðjúnkta og stundakennara, en rektor ræður þá án hæfisdóms dómnefndar.

 

2. gr.

Gildandi lög og reglur um ráðningar og hæfismat.

Reglur þessar byggja á lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008, lögum um háskóla nr. 63/2006, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, stjórnsýslulögum nr. 37/1993, reglum um auglýsingar á lausum störfum nr. 464/1996 og reglum fyrir Landbúnaðarháskóla Íslands nr. 366/2020.

 

3. gr.

Ákvörðun um ráðningu.

Rektor veitir akademísk störf við háskólann og framgang akademískra starfsmanna. Engan má ráða í akademískt starf án þess að meirihluti dómnefndar hafi talið hann uppfylla lágmarksskilyrði til að gegna viðkomandi starfi. Lágmarksskilyrðin eru skilgreind í 10. gr. reglna þessara. Hafi umsækj­andi á síðustu fimm árum verið af dómnefnd talinn uppfylla lágmarksskilyrði til að gegna sambæri­legu starfi er rektor heimilt að víkja frá kröfu um dómnefndarálit.

 

4. gr.

Starfsskyldur.

Starfsskylda kennara við háskólann skiptist í þrjá meginþætti: rannsóknir, kennslu og stjórnun eins og kveðið er á um í viðkomandi kjara- og stofnanasamningum. Deildarforseti ákveður nánar hvernig starfsskyldur einstakra kennara skiptast og hann ákveður enn fremur til hvaða starfa við kennslu og stjórnun kennara er vísað.

 

5. gr.

Skilgreining starfs.

Deild gerir tillögu um skilgreiningu starfs í samræmi við stefnu deildar og háskólans. Þetta verkefni er falið deildarráði þegar slíkt er starfandi. Skýrt þarf að koma fram í auglýsingu hvaða hæfnis­kröfur farið er fram á að umsækjendur um starfið uppfylli, m.a. með tilliti til fræðasviðs og prófgráða. Gera skal kröfu um að umsækjendur hafi doktorspróf á viðkomandi fræðasviði. Starfs­maður er ráðinn til tiltekinnar deildar. Rektor og deildarforseta er heimilt að breyta skilgreiningu starfsins í krafti stjórnunarheimilda.

 

6. gr.

Auglýsing.

Laus störf akademískra starfsmanna eru auglýst á starfatorgi fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Að jafnaði skal starf auglýst þannig að umsóknarfrestur sé fjórar vikur frá birtingu auglýsingar. Til þess að tryggja að háskólinn eigi völ á sem hæfustum starfskröftum skal auglýsa laus störf á alþjóð­legum vettvangi og í innlendum dagblöðum eftir því sem ástæða er til. Kynningarstjóri skal annast allar auglýsingar bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Allar upplýsingar um laus störf hjá háskólanum skulu vera aðgengilegar á vef háskólans.

 

7. gr.

Undantekningar frá auglýsingaskyldu.

Ekki er skylt að auglýsa starf, ef um er að ræða tímabundna ráðningu til afleysinga til tólf mánaða eða skemur, eða ef um er að ræða hlutastarf, þannig að starfið telst ekki vera aðalstarf í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ef ráðið er til afleysinga til tólf mánaða eða skemur er ekki heimilt að framlengja ráðninguna án auglýsingar í samræmi við reglur þessar. Starf er ekki auglýst þegar um er að ræða framgang samkvæmt ákvæðum laga um opinbera háskóla. Þá er heimilt að undanþiggja auglýsingu um störf sem byggja á sérstökum tímabundnum styrkjum, störf sem tengjast sérstökum tímabundnum verkefnum, störf sem nemendur gegna við háskólann samhliða rannsókna­tengdu framhaldsnámi og störf við háskólann sem tengjast tilteknu starfi utan hans á grundvelli samstarfssamnings.

 

8. gr.

Umsóknir og meðferð þeirra.

Umsóknir um starf skulu berast mannauðsstjóra. Æskilegt er að umsókn og umsóknargögn séu á rafrænu formi. Að umsóknarfresti liðnum staðfestir mannauðsstjóri móttöku umsókna með bréfi til umsækjenda. Eftir að umsóknarfresti um starf lýkur eru öll nöfn umsækjenda opinber.

Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni vottorð um námsferil sinn og störf, ritaskrá, skýrslu um vísindastörf og önnur störf sem þeir hafa unnið, s.s. þróunarverkefni, listaverk og hönn­unar­verk, og greinargerð um áform ef til ráðningar kemur. Í umsókn skal koma fram hver ritverka sinna, allt að átta talsins, umsækjandi telur veigamest með tilliti til þess starfs sem um ræðir. Umsækjandi sendir eingöngu þessi ritverk sín með umsókn. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Enn fremur er ætlast til þess að umsækj­endur láti fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf sín, eftir því sem við á.

 

9. gr.

Skipan og málsmeðferð dómnefndar vegna nýráðninga.

Rektor skipar dómnefnd vegna nýráðninga í samræmi við 16. gr. laga nr. 85/2008 og 18. gr. laga nr. 63/2006. Heimilt er að fela fastadómnefnd verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands að annast dóm­nefndarmat fyrir LbhÍ og skipar rektor þá einn fulltrúa.

Dómnefnd metur hvort umsækjendur uppfylli lágmarksskilyrði sem sett eru um það starfsheiti sem á við. Dómnefnd skal meta hvern umsækjanda á þann veg að ótvírætt komi fram hvort hún dæmir hann hæfan eða ekki hæfan til að gegna því starfi sem um ræðir. Hún metur hvort menntun og aðrar forsendur umsækjanda falli með eðlilegum hætti innan þess sviðs sem auglýsing kveður á um. Í áliti dómnefndar skal koma fram rökstuðningur fyrir dómi hennar um hæfi umsækjanda og auk þess þær upplýsingar sem dómnefnd telur leiðbeinandi fyrir rektor við endanlega ákvörðun um ráðn­ingu eða framgang. Ef ágreiningur er í dómnefnd skulu greidd atkvæði sérstaklega um hvern umsækjanda og ber hverjum dómnefndarmanni þá að taka afstöðu. Minnihluta gefst kostur á að gera grein fyrir máli sínu með séráliti. Teljist umsækjandi ekki hæfur ber dómnefnd að gera rækilega grein fyrir þeirri niðurstöðu, en að öðru leyti þarf umfjöllun ekki að vera eins ítarleg og um þá sem teljast hæfir.

Í upphafi dómnefndarálits skal dómnefnd gera grein fyrir þeim forsendum, gögnum og heimild­um sem hún byggir á í mati sínu á umsækjendum og vinnubrögðum sínum við mat á umsækjendum. Í dómnefndaráliti skal vera ritaskrá/verkaskrá umsækjenda sem þeir hafa látið fylgja umsókn sinni og greinargerð um námsferil þeirra og fyrri störf. Dómnefnd er heimilt að óska eftir því við umsækj­endur að þeir láti í té viðbótargögn. Í þessu efni skal nefndin láta umsækjendur njóta jafnræðis. Dómnefnd skal hraða störfum sínum eftir föngum og skal hún að jafnaði hafa lokið störfum innan tveggja mánaða.

 

10. gr.

Mat dómnefndar á umsækjendum við nýráðningu.

Þeir sem hljóta akademískt starf við háskólann skulu hafa sýnt þann árangur í starfi að þeir njóti viðurkenningar á viðkomandi sérsviði og jafnan gerð krafa um doktorspróf. Í dómnefndaráliti skal rökstutt hvort ráða megi af ritum og rannsóknum umsækjanda svo og af námsferli hans og störfum, að hann uppfylli lágmarksskilyrði til þess að gegna hinu auglýsta starfi á hlutaðeigandi fræðasviði og skilyrði sem tilgreind eru í auglýsingu. Sá sem uppfyllir fyrrnefnd lágmarksskilyrði telst hæfur til þess að gegna starfinu.

Dómnefnd er heimilt að styðjast við eldri dómnefndarálit um umsækjanda að því tilskildu að þau séu ekki eldri en fimm ára gömul. Ef vitnað er til eldra dómnefndarálits ber að birta þá tilvitnun í dómnefndarálitinu og skal dómnefnd taka rökstudda afstöðu til þess sem þar greinir. Að teknu tilliti til menntunar skal mat byggjast á eftirfarandi starfsþáttum: rannsóknum, kennslu og stjórnun. Dóm­nefnd skal m.a. byggja mat sitt á umsækjanda á matskerfi opinberra háskóla. Þá ber dóm­nefndinni að taka mið af skilgreiningu á því starfi sem auglýst hefur verið. Ef umsækjandi upp­fyllir augljóslega lágmarksskilyrði til þess að gegna hinu auglýsta starfi, t.d. ef fyrir liggur eldra dóm­nefndar­álit eða annað mat sem dómnefnd telur fullnægjandi þarf dómnefnd ekki að fram­kvæma nánara mat hvað hann varðar. Að öðru leyti skulu eftirfarandi sjónarmið lögð til grundvallar við matið:

1.   Við mat á rannsóknum skal leggja megináherslu á vísindagildi þeirra. Við það mat ber að athuga frumleika rannsóknarverkefna og sjálfstæði gagnvart öðrum rannsóknum og rit­verkum, þekkingu á stöðu rannsókna á viðkomandi fræðasviði, meðferð heimilda og vísinda­leg vinnubrögð, fræðilegar nýjungar og eftir atvikum notagildi rannsókna. Kennslurit og önnur hugverk geta haft vísindagildi að því marki sem þau uppfylla þessar kröfur. Í fyrsta lagi skulu metin rit, bækur og ritgerðir, sem hafa verið gefin út eða samþykkt til birtingar í viður­kenndum tímaritum, innlendum eða erlendum, og hlotið hafa faglegt mat. Í öðru lagi er höfð hliðsjón af álitsgerðum og áfanga­skýrslum sem umsækjandi hefur sent frá sér í frágenginni mynd. Í þriðja lagi er heimilt að taka tillit til verka í vinnslu.

2.   Við mat á kennsluframlagi ber öðru fremur að athuga hversu mikla alúð umsækjandi hefur lagt við kennslustörf sín, svo sem við samningu kennsluefnis og leiðbeininga, fjölbreytni og nýjungar í kennsluaðferðum. Eins skal líta til frumkvæðis í uppbyggingu og endurbótum á tilhögun kennslu viðleitni til að hvetja nemendur til sjálfstæðra og fræðilegra vinnubragða.

3.   Við mat á umsækjendum um auglýst störf eða önnur ný störf skal höfð hliðsjón af matskerfi opinberra háskóla við mat á rannsóknum, kennslu og öðrum starfsþáttum. Ekki skal þó gerð krafa um lágmarksstig fyrir kennslu við nýráðningu. Þá er dómnefnd heimilt að hafa til hliðsjónar þau gögn sem kunna að vera til um umsækjendur í vörslu háskólans og snerta starfshæfni og vinnu­framlag.

4.   Meta skal stjórnunarreynslu jafnt innan háskóla sem utan.

5.   Dómnefnd er auk þess heimilt að líta til annarrar starfsreynslu umsækjenda sem telja má að nýst geti við það starf sem sótt er um. Dómnefnd er heimilt að óska eftir upplýsingum um mat á fyrri störfum umsækjanda frá stjórnsýslu háskólans.

 

11. gr.

Um meðferð dómnefndarálits og afgreiðslu máls vegna nýráðninga.

Dómnefnd ber að senda rektor álit sitt dagsett og undirritað af öllum dómnefndarmönnum. Um leið og dómnefnd sendir drög að dómnefndaráliti skulu öll umsóknargögn ganga til valnefndar.

Telji rektor að drög dómnefndarálits séu ekki í samræmi við lög, eða að málsmeðferð dóm­nefndar samrýmist ekki lögum ber honum að senda álitið aftur til dómnefndar og skal hún þá bæta úr þeim ágöllum. Í bréfi til dómnefndar skal greina frá því að hvaða leyti störfum nefndarinnar er ábótavant. Sendi rektor dómnefndarálit aftur til nefndar ber að tilkynna það umsækjendum.

Senda skal hverjum umsækjanda dómnefndarálitið í heild. Gefa skal umsækjendum kost á að gera skriflegar athugasemdir við álitið áður en það er sent valnefnd deildar til meðferðar. Umsækj­endur hafa 7 daga frest til að gera athugasemdir. Telji rektor athugasemdirnar gefa tilefni til er heimilt að bera þær eða hluta þeirra undir dómnefnd og einnig að óska eftir nánari skýringum á ákveðnum atriðum. Athugasemdir umsækjenda og eftir atvikum fyrirspurn rektors og svar dóm­nefndar skulu fylgja áliti nefndarinnar þegar það er sent til valnefndar.

Dragi umsækjandi umsókn sína til baka, áður en dómnefndarálitið er sent til valnefndar, á hann rétt á að ekki verði fjallað um hann í áliti dómnefndar, enda fari hann fram á það með skriflegum hætti. Eftir framangreint tímamark verður dómnefndaráliti ekki breytt af þessu tilefni. Þegar dómnefndar­álit hefur verið sent til valnefndar telst það endanlegt og fullfrágengið.

 

12. gr.

Skipan valnefnda vegna nýráðninga.

Valnefnd er skipuð af rektor. Hlutverk valnefndar er að fara yfir umsóknir um akademísk störf við deildina og veita rektor umsögn um umsækjendur áður en tekin er ákvörðun um ráðningu. Í valnefnd deildar skulu sitja þrír fulltrúar. Í valnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa doktorsprófi eða hliðstæðu prófi úr háskóla, nema því verði ekki við komið. Æskilegt er að meirihluti valnefndar hafi hæfi prófessors. Skipan valnefndar er eftirfarandi: Deildarforseti, sem jafnframt er formaður val­nefndar. Einn fulltrúi tilnefndur af deild og skal hann vera sérfræðingur á sviði starfsins. Einn fulltrúi tilnefndur af rektor.

 

13. gr.

Málsmeðferð valnefnda.

Valnefnd getur leitað umsagnar sérfræðinga á hlutaðeigandi fræðasviði. Valnefnd getur ákveðið að umfjöllun takmarkist við þá umsækjendur sem best eru taldir uppfylla þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar við veitingu starfsins. Tilkynna skal umsækjendum um þessa ákvörðun og veita rökstuðning fyrir henni sé eftir því leitað. Valnefnd skal að jafnaði boða þá umsækjendur til viðtals sem valið stendur á milli. Að öllu jöfnu skal valnefnd bjóða umsækjendum sem til greina koma að halda fyrirlestur. Í umsögn valnefndar skal felast niðurstaða hennar um það hver úr þeim hópi sem dómnefnd telur að uppfylli lágmarksskilyrði teljist best til þess fallinn að gegna starfinu á grundvelli heildarmats á þeim þáttum sem liggja til grundvallar ráðningu í starfið. Við val á hæfasta umsækj­andanum skal höfð hliðsjón af stefnu deildar og uppbyggingu sem tengist umræddu starfi.

Valnefnd er heimilt í mati sínu að taka tillit til þess hversu líklegur umsækjandi er, út frá ferli hans, til að stuðla að þeim markmiðum sem deild hefur sett sér. Þá skal valið byggjast á frammistöðu í viðtali og fyrirlestri, ef ákveðið hefur verið að nýta það fyrirkomulag við gagnaöflun. Formaður valnefndar sendir rektor rökstudda umsögn valnefndar. Umsögnin skal send innan 30 daga frá því að gögn bárust valnefnd frá dómnefnd. Valnefnd er einungis skylt að rökstyðja val sitt á hæfasta umsækj­andanum. Valnefnd getur lagt til að ekki skuli ráðið í starfið. Háskólaráð getur sett val­nefndum nánari verklagsreglur.

 

14. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 17. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Reglurnar taka þegar gildi og taka við af reglum um nýráðningar og framgang akademískra starfs­manna við Landbúnaðarháskóla Íslands dags. 20. október 2012. Reglurnar verða einnig aðgengi­legar á vefsíðu háskólans, líkt og aðrar reglur sem háskólaráð setur. Reglurnar skulu endur­skoðaðar þremur árum eftir gildistöku.

 

Samþykkt af háskólaráði Landbúnaðarháskóla Íslands, 21. janúar 2022.

 

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor.


B deild - Útgáfud.: 7. febrúar 2022