1. gr.
Með vísan til þess að SARS-CoV-2 veiran sem veldur COVID-19 sjúkdómnum í mönnum hefur greinst í minkum í mörgum löndum á undanförnum mánuðum, hefur ráðherra ákveðið, að fengnum tillögum Matvælastofnunar, að fyrirskipa eftirfarandi ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að hindra útbreiðslu og til að afstýra hættu og tjóni af völdum sjúkdómsins.
2. gr.
Öllum þeim sem halda minka er skylt að fylgja eftirfarandi reglum:
|
a) |
Öllum óviðkomandi skal bannaður aðgangur að minkahúsunum. |
|
b) |
Allir sem fara inn í minkahús skulu nota hlífðarbúnað (galla, stígvél og einnota andlitsgrímur), sem eingöngu er notaður þar, og skulu þeir einnig þvo og sótthreinsa hendur fyrir og eftir umhirðu minkanna. Allur búnaður, svo sem símar og verkfæri, sem notaður hefur verið í minkahúsum skal þrifinn og sótthreinsaður áður en farið er með hann út af búinu. |
|
c) |
Óheimilt er að fara í minkahús með einkenni COVID-19. |
|
d) |
Halda skal heimsóknarskrá í minkahúsunum þar sem fram kemur dagsetning, nafn og símanúmer þess sem kom í húsin og tilgangur heimsóknarinnar. |
|
e) |
Óheimilt er að flytja minka milli búa. |
|
f) |
Farga skal dauðum minkum og öllum öðrum úrgangi á öruggan hátt í samráði við Matvælastofnun. |
|
g) |
Tryggja skal góðar smitvarnir við fóðrun og fóðurgeymslu. |
|
h) |
Hundar og kettir mega ekki koma í minkahús. |
|
i) |
Sýningarhald og aðrar samkomur með minka er bannað. |
3. gr.
Tilkynna skal til Matvælastofnunar um sjúkdómseinkenni frá öndunarfærum minka svo sem andnauð og rennsli frá trýni, óvenjulega mikinn dauða minka og dauða af óþekktum orsökum.
Matvælastofnun tekur sýni og lætur rannsaka þau, ef ástæða er til að mati stofnunarinnar.
4. gr.
Matvælastofnun hefur eftirlit með framkvæmd þessara reglna og getur veitt undanþágur frá þeim við sérstakar aðstæður, að því tilskildu að smitvarnir séu nægilega tryggðar með öðrum hætti að mati stofnunarinnar.
5. gr.
Verði eigandi eða umráðamaður minka ekki við fyrirmælum sem kveðið er á um í auglýsingunni eða tilmælum Matvælastofnunar um aðgerðir samkvæmt auglýsingu þessari getur ráðherra með vísan til 8. og 21. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, fyrirskipað bótalausa förgun eða eyðingu minkanna að fengnum tillögum Matvælastofnunar.
Um brot gegn ákvæðum auglýsingar þessarar fer samkvæmt 30. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.
6. gr.
Auglýsing þessi er sett með vísan til 8. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, ásamt síðari breytingum, og tekur þegar gildi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 13. nóvember 2020.
F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,
Kolbeinn Árnason.
|