1. gr.
Markmið.
Markmið reglna þessara er að tryggja viðeigandi ráðstafanir til að greina og koma í veg fyrir eða takast á við hagsmunaárekstra vegna viðskipta starfsmanna Seðlabanka Íslands við eftirlitsskylda aðila.
2. gr.
Gildissvið.
Reglur þessar gilda um öll viðskipti seðlabankastjóra, varaseðlabankastjóra og annarra starfsmanna Seðlabankans og utanaðkomandi nefndarmanna í peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd, hér eftir nefndir starfsmenn, við eftirlitsskylda aðila, sbr. 2. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998, með fjármálagerninga, sbr. lög um verðbréfaviðskipti, og upplýsingaskyldu um slík viðskipti. Reglurnar eiga einnig við um viðskipti starfsmanna með gjaldeyri eins og nánar greinir í reglunum.
3. gr.
Regluvörður.
Seðlabankastjóri tilnefnir regluvörð sem hefur umsjón með að reglum þessum sé framfylgt. Regluvörður skal sjá til þess að reglurnar séu kynntar starfsmönnum með fullnægjandi hætti. Regluvörður skal eigi sjaldnar en árlega gera seðlabankastjóra grein fyrir framkvæmd reglnanna.
Regluvörður skal halda skrá yfir viðskipti starfsmanna samkvæmt 5. gr. þar sem fram kemur um hvaða fjármálagerninga var að ræða, fjárhæð nafnverðs og gengi og á hvaða tíma fyrirhuguð kaup áttu að eiga sér stað. Jafnframt skal koma fram hvernig staðið var að athugun skv. 5. gr. og niðurstöður þeirrar athugunar. Regluvörður skal skrá hið sama um viðskipti skv. 6. gr. eftir því sem við á.
4. gr.
Takmarkanir á viðskiptum með fjármálagerninga.
Starfsmönnum er óheimilt að eiga, beint eða óbeint, viðskipti með hlutabréf, skuldabréf og fjármálagerninga tengda þeim, sem útgefin eru af eftirlitsskyldum aðilum skv. 1. mgr. 2. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998. Starfsmönnum er þó heimilt að eiga viðskipti með hlutdeildarskírteini í sjóðum samkvæmt lögum um verðbréfasjóði eða aðra sjóði sem veita viðtöku fé frá fjárfestum til sameiginlegra fjárfestinga.
Starfsmönnum er heimilt að selja fyrrgreinda fjármálagerninga í eftirlitsskyldum aðilum sem aflað hefur verið áður en viðkomandi kom til starfa hjá bankanum. Sama gildir hafi fjármálagerningurinn komið til eignar viðkomandi fyrir arf eða hjúskapar- eða sambúðarslit.
Starfsmenn skulu að jafnaði eiga fjármálagerninga sem þeir kaupa í þrjá mánuði að lágmarki fari markaðsverð ekki niður fyrir upphaflegt kaupverð.
5. gr.
Viðskipti með fjármálagerninga.
Áður en viðskipti með fjármálagerninga eiga sér stað skal starfsmaður ganga úr skugga um að hann hafi ekki aðgang að innherjaupplýsingum um fjármálagerningana, útgefanda þeirra eða önnur atriði, sbr. lög um verðbréfaviðskipti.
Starfsmanni ber að gera regluverði fyrirfram grein fyrir viðskiptum. Regluvörður skal taka rökstudda afstöðu til fyrirhugaðra viðskipta innan þriggja virkra daga eða tilkynna starfsmanni ef það dregst umfram þann tíma að taka afstöðu. Þegar viðskipti hafa gengið í gegn skal starfsmaður tilkynna um viðskiptin til regluvarðar. Regluvörður skal gera seðlabankastjóra fyrirfram grein fyrir viðskiptum sínum samkvæmt þessari grein, sem tekur rökstudda afstöðu til fyrirhugaðra viðskipta, og tilkynna honum um viðskipti þegar þau hafa gengið í gegn.
Starfsmaður ber ábyrgð á eigin viðskiptum þrátt fyrir að regluvörður hafi tekið afstöðu til þeirra.
6. gr.
Viðskipti með gjaldeyri og takmarkanir á þeim.
Reglur þessar gilda jafnframt um gjaldeyrisviðskipti starfsmanna við eftirlitsskylda aðila, eftir því sem við getur átt, þar með talið viðskipti með fjármálagerninga tengda gjaldeyri. Það á þó ekki við um kaup á gjaldeyri til greiðslu fyrir erlenda fasteign til eigin nota, vörur eða þjónustu; vegna ferðalaga til útlanda eða sölu gjaldeyris vegna hins sama eða vegna greiðslu skulda í erlendum gjaldmiðli.
Áður en viðskipti með gjaldeyri eiga sér stað skal starfsmaður ganga úr skugga um að hann hafi ekki aðgang að trúnaðarupplýsingum sem líklegar eru til að hafa marktæk áhrif á gengi gjaldmiðla ef opinberar væru. Starfsmenn skulu tilkynna regluverði fyrirfram um viðskipti með gjaldeyri sem nema hærri fjárhæð en 3.000.000 kr. Að öðru leyti gildir 2. mgr. 5. gr. að breyttu breytanda um tilkynningu gjaldeyrisviðskipta til regluvarðar.
7. gr.
Upplýsingaskylda starfsmanna.
Starfsmenn skulu gera regluverði skriflega grein fyrir eftirfarandi:
- Skuldbindingum gagnvart eftirlitsskyldum aðilum (þ. á m. ábyrgðum), sé um að ræða hærri fjárhæð en 10.000.000 kr. ótryggða skuld og tryggða skuld umfram 55.000.000 kr., einnig tímalengd skulda og stöðu að öðru leyti.
- Greiðsluerfiðleikum vegna allra skuldbindinga. Með greiðsluerfiðleikum er átt við sérstaka innheimtumeðferð eða aðra erfiðleika sem gefa til kynna að viðkomandi sé háður sérstakri fyrirgreiðslu viðkomandi eftirlitsskylds aðila.
- Ávöxtun sparifjár hjá eftirlitsskyldum aðilum þegar verðmæti þess nemur a.m.k. 10.000.000 kr. Gera skal grein fyrir samningum um eignastýringu við eftirlitsskylda aðila, án tillits til fjárhæða.
Gera skal grein fyrir upplýsingum samkvæmt 1. og 3. tölul. 1. mgr. eigi síðar en viku eftir að viðskipti eða samningar eiga sér stað. Veita skal upplýsingar skv. 2. tölul. 1. mgr. þegar starfsmanni er kunnugt um stöðu mála. Starfsmaður skal í fyrsta sinn veita upplýsingar skv. 1. mgr. við ráðningu og staðfesta þær síðan árlega.
Starfsmenn skulu einnig gera regluverði skriflega grein fyrir upplýsingum skv. 1. tölul. 1. mgr. varðandi skuldir maka séu þær tryggðar með veði í fasteign sem er ætluð til bústaðar fyrir fjölskylduna eða er notuð við atvinnurekstur maka eða beggja hjóna.
Regluvörður skal gera seðlabankastjóra grein fyrir viðskiptum sínum samkvæmt þessari grein með samsvarandi hætti.
8. gr.
Samskipti við eftirlitsskylda aðila.
Starfsmönnum er óheimilt að þiggja þjónustu, afla öðrum aðila þjónustu eða afla viðskiptakjara vegna þjónustu eftirlitsskyldra aðila sem öðrum viðskiptamönnum stendur ekki til boða í sambærilegum tilvikum.
Starfsmönnum er óheimilt að taka við gjöfum eða annarri ívilnun frá eftirlitsskyldum aðilum, öðrum en þeim sem veittar eru viðskiptamönnum almennt og/eða eðlilegar geta talist.
9. gr.
Yfirlýsing.
Starfsmenn skulu rita undir yfirlýsingu um að þeir hafi kynnt sér efni þessara reglna og önnur ákvæði laga, reglugerða og reglna sem varða trúnaðarskyldu þeirra í starfi.
10. gr.
Ábyrgð og viðurlög.
Starfsmenn bera ábyrgð á því að reglum þessum sé fylgt í viðskiptum þeirra.
Starfsmenn skulu ekki stunda viðskipti sem gætu með réttu gefið tilefni til tortryggni að því er varðar meðferð og notkun upplýsinga, sem þeir öðlast í störfum sínum, eða geta skaðað trúverðugleika Seðlabankans. Starfsmönnum ber jafnframt að leitast við að tryggja að viðskipti maka, sambúðaraðila, ófjárráða barna og annarra aðila sem eru þeim fjárhagslega tengdir séu ekki til þess fallin að draga með réttu í efa óhlutdrægni starfsmannsins eða trúverðugleika Seðlabankans.
Brot á reglum þessum skulu tilkynnt til regluvarðar eða seðlabankastjóra. Regluvörður skal tilkynna um brot til seðlabankastjóra.
Brot á reglum þessum geta varðað áminningu eða brottrekstri.
11. gr.
Gildistaka o.fl.
Reglur þessar eru settar með stoð í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands og taka gildi 1. apríl 2020.
Bráðabirgðaákvæði.
Innan þrjátíu virkra daga frá gildistöku reglnanna skulu starfsmenn samkvæmt reglum þessum tilkynna regluverði um tilkynningarskylda eign sína, skuldbindingar og önnur atriði.
Forsætisráðuneytinu, 23. mars 2020.
Katrín Jakobsdóttir.
|