HANDHAFAR VALDS FORSETA ÍSLANDS samkvæmt 8. gr. stjórnarskrárinnar forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar, gjöra kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og vér staðfest þau með samþykki voru:
1. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 5. gr. laganna:
- Í stað „2.–4. mgr. 206. gr., 1. mgr. 210. gr. b, 218. gr. a“ í 1. málsl. kemur: 194. gr., 2.–4. mgr. 206. gr., 1. mgr. 210. gr. b, 2. mgr. 216. gr., 218. gr. a, 2. mgr. 225. gr.
- Orðin „194. gr.“ og „200.–201. gr.“ í 2. málsl. falla brott.
2. gr.
Við 6. gr. laganna bætist nýr töluliður svohljóðandi: Fyrir háttsemi sem greinir í samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi frá 11. maí 2011.
3. gr.
Í stað „218. gr. a“ í 2. málsl. 1. mgr. 82. gr. laganna kemur: 2. mgr. 216. gr., 218. gr. a, 218. gr. b, 2. mgr. 225. gr.
4. gr.
Á eftir 218. gr. a laganna kemur ný grein, 218. gr. b, svohljóðandi, og breytist númer næstu greinar samkvæmt því:
Hver sem endurtekið eða á alvarlegan hátt ógnar lífi, heilsu eða velferð núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, niðja síns eða niðja núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, áa síns, eða annarra sem búa með honum á heimili eða eru í hans umsjá, með ofbeldi, hótunum, frelsissviptingu, nauðung eða á annan hátt, skal sæta fangelsi allt að 6 árum. Ef brot er stórfellt getur það varðað fangelsi allt að 16 árum. Við mat á grófleika verknaðar skal sérstaklega líta til þess hvort þolandi hafi beðið stórfellt líkams- eða heilsutjón eða bani hlotist af. Enn fremur ber að líta til þess hvort brot hafi verið framið á sérstaklega sársaukafullan eða meiðandi hátt, hafi staðið yfir í langan tíma eða hvort gerandi hafi misnotað freklega yfirburðastöðu sína gagnvart þolanda.
5. gr.
Við 225. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
Ef maður neyðir annan mann til að ganga í hjúskap, þá varðar það fangelsi allt að 4 árum. Sömu refsingu varðar að neyða annan mann til að gangast undir sambærilega vígslu þó að hún hafi ekki gildi að lögum.
6. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
7. gr.
Breytingar á öðrum lögum.
- Við gildistöku laga þessara bætast tvær nýjar málsgreinar við 31. gr. laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, nr. 25/1975, með síðari breytingum, svohljóðandi:
Beinist brot samkvæmt þessari grein að barni undir 18 ára aldri telst fyrningarfrestur eigi fyrr en frá þeim degi er þolandi nær þeim aldri. Að öðru leyti fer um fyrningu eftir IX. kafla almennra hegningarlaga. Refsað skal eftir þessari grein fyrir brot manns, sem var íslenskur ríkisborgari eða búsettur hér á landi á verknaðarstundu, sem framið er erlendis þrátt fyrir að verknaðurinn teljist ekki refsiverður eftir lögum þess ríkis.
- Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum: Á eftir tilvísuninni „1. mgr. 218. gr.“ í h-lið 1. mgr. 23. gr. laganna kemur: 218. gr. b.
Gjört í Reykjavík, 30. mars 2016.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. |
Einar K. Guðfinnsson. |
Markús Sigurbjörnsson. |
|
(L. S.) |
|
Ólöf Nordal.
|