1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir annars vegar um einstaklinga sem þurfa heilsu sinnar vegna að dvelja tímabundið fjarri heimili sínu vegna rannsókna og/eða meðferðar og hins vegar um fylgdarmenn þeirra. Einstaklingar sem dvelja á sjúkrahóteli skulu vera færir um allar athafnir daglegs lífs.
Reglugerðin gildir einnig um heilbrigðisstarfsmenn sem þurfa tímabundið að dvelja hér á landi til að veita sérhæfða heilbrigðisþjónustu sem ekki er að öðrum kosti unnt að veita. Þeir einstaklingar sem þurfa heilsu sinnar vegna að dvelja á sjúkrahóteli njóta þó ætíð forgangs til dvalar.
2. gr.
Skilgreiningar.
Sjúkrahótel er tímabundinn dvalarstaður fyrir einstaklinga sem þurfa heilsu sinnar vegna að dvelja fjarri heimili sínu vegna rannsókna og/eða meðferðar en þurfa ekki á sjúkrahúsdvöl að halda.
Sjúkrahótel er tímabundinn dvalarstaður fyrir einstaklinga sem þurfa að dvelja fjarri heimili sínu vegna nákomins aðstandanda sem sækja þarf heilbrigðisþjónustu.
Sjúkrahótel er einnig tímabundinn dvalarstaður fyrir heilbrigðisstarfsmenn sem koma erlendis frá til að veita sérhæfða heilbrigðisþjónustu sem annars væri ekki í boði hér á landi.
Sjúkrahótel er ekki heilbrigðisstofnun í skilningi laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu. Sá sem dvelur á sjúkrahóteli getur ekki verið innritaður á sjúkrahús á sama tíma.
3. gr.
Markmið.
Markmið með þjónustu sjúkrahótels er að styðja bataferli sjúklinga, auka gæði þjónustu ásamt því að bæta og jafna aðgang landsmanna að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu.
4. gr.
Umsókn um dvöl og lengd dvalartíma.
Umsókn um dvöl á sjúkrahóteli þarf að berast frá lækni, ljósmóður eða hjúkrunarfræðingi enda fylgi umsókninni faglegur rökstuðningur og upplýsingar um hvaða heilbrigðisþjónusta er fyrirhuguð.
Hámarksdvalartími er almennt 21 dagur á 12 mánaða tímabili. Yfirmaður sjúkrahótels tekur ákvarðanir um lengd dvalar hverju sinni. Ef fyrirséð er að einstaklingur þurfi að dvelja lengur en 21 dag á 12 mánaða tímabili er hægt að endurnýja umsókn um dvöl á sjúkrahóteli með sama hætti og upphaflegu umsóknina.
5. gr.
Gjald sjúkratryggðra.
Gjald fyrir dvöl á sjúkrahóteli innifelur gistingu og fullt fæði.
Sjúkratryggðir sem dvelja á sjúkrahóteli greiða gjald sem hér segir:
- 18 ára og eldri greiða 1.440 kr. á dag.
- Yngri en 18 ára greiða ekkert gjald.
Hjúkrunarþjónusta sem veitt er í húsnæði sjúkrahótels er sjúkratryggðum, sem þar dvelja, að kostnaðarlausu. Um kostnað vegna annarrar heilbrigðisþjónustu og aðstoðar, þar með talin lyf, hjúkrunarvörur og þjálfun fer samkvæmt gildandi reglugerðum þar að lútandi.
6. gr.
Fylgdarmenn sjúkratryggðra.
Að jafnaði skal aðeins einn fylgdarmaður, 18 ára eða eldri, fylgja sjúkratryggðum. Ef nauðsynlegt er að fylgdarmenn séu fleiri en einn er hægt að sækja um undanþágu til yfirmanns sjúkrahótels.
Fylgdarmenn sjúkratryggðra greiða gjald sem hér segir:
- Fylgdarmaður greiðir 1.440 kr. á dag fyrir gistingu, gisti hann í sama herbergi og sjúkratryggður. Kaupi fylgdarmaður fæði á sjúkrahótelinu þá greiðir hann fyrir það samkvæmt gjaldskrá sjúkrahótels.
- Ef sjúkratryggður yngri en 18 ára er í fylgd tveggja fylgdarmanna sem gista í sama herbergi greiða þeir samanlagt 1.440 kr. fyrir gistingu. Kaupi fylgdarmenn fæði á sjúkrahótelinu greiða þeir fyrir það samkvæmt gjaldskrá sjúkrahótels.
- Gisti fylgdarmaður/-menn í öðru herbergi en sjúkratryggður skal greiða 7.000 kr. fyrir herbergið á dag. Kaupi fylgdarmaður/-menn fæði á sjúkrahótelinu er greitt fyrir það samkvæmt gjaldskrá sjúkrahótels.
- Börn á aldrinum 0-18 ára, í fylgd með sjúkratryggðum, greiða ekkert gjald fyrir gistingu.
Börn á aldrinum 14-18 ára sem kaupa fæði greiða fyrir það samkvæmt gjaldskrá sjúkrahótels. Börn á aldrinum 4-14 ára sem kaupa fæði greiða hálft gjald samkvæmt gjaldskrá sjúkrahótels. Börn undir 4 ára greiða ekkert fyrir fæði.
7. gr.
Gjald ósjúkratryggðra og fylgdarmanna þeirra.
Ósjúkratryggðir og fylgdarmenn þeirra sem dvelja á sjúkrahóteli greiða gjald fyrir gistingu og fæði samkvæmt gjaldskrá sjúkrahótels nema í gildi sé milliríkjasamningur um þjónustu við ríki sem þeir koma frá.
Ósjúkratryggðir greiða gjald vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt er í húsnæði sjúkrahótels samkvæmt gildandi reglugerðum þar að lútandi. Annan kostnað, svo sem vegna lyfja, hjúkrunarvara og þjálfunar, greiða þeir að fullu.
8. gr.
Birting gjaldskrár.
Sjúkrahótel skal birta gjaldskrá sína á vefsvæði og með áberandi hætti í húsakynnum sínum.
9. gr.
Fjölskylduherbergi sjúkrahótels.
Fjölskylduherbergi standa fjölskyldum til boða. Fjölskylda sjúkratryggðra greiðir samkvæmt gjaldskrá um fylgdarmenn.
10. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 8. tölul. 1. mgr. og 6. mgr. 29. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Með gildistöku reglugerðarinnar fellur brott reglugerð nr. 207/2010, um gjald fyrir dvöl á sjúkrahóteli.
Heilbrigðisráðuneytinu, 7. maí 2019.
Svandís Svavarsdóttir.
Guðlín Steinsdóttir.
|