Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 848/2021

Nr. 848/2021 16. júlí 2021

REGLUGERÐ
um söfnun meðmæla við kosningar til Alþingis o.fl.

I. KAFLI

Almennt ákvæði.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að setja reglur um söfnun meðmæla með framboðum til kosninga til Alþingis og vegna úthlutunar listabókstafs. Einnig að setja reglur þannig að unnt sé að skrifa rafrænt undir tilkynningu stjórnmálasamtaka til yfirkjörstjórna um framboð og að sá sem hyggst bjóða sig fram geti ritað rafrænt undir yfirlýsingu sína um framboð. Jafnframt að setja reglur um form og viðmót, söfnun, meðferð persónuupplýsinga, um varðveislu og eyðingu og tegund rafrænnar auðkenningar þegar það á við.

 

II. KAFLI

Söfnun meðmæla.

2. gr.

Meðmæli með framboðslista.

Framboðslista, sem skilað er til yfirkjörstjórnar, skal fylgja yfirlýsing um stuðning við listann og fyrir hvaða stjórnmálasamtök listinn er boðinn fram, frá kjósendum í hlutaðeigandi kjördæmi. Fjöldi meðmælenda skal vera margfeldi af þingsætatölu kjördæmisins og talnanna 30 að lágmarki og 40 að hámarki. Tilgreina skal nafn meðmælanda, kennitölu hans og heimili. 

Meðmælandi getur einungis mælt með einum framboðslista. Hann getur afturkallað samþykki sitt meðan á söfnun stendur þar til framboð hefur verið afhent yfirkjörstjórn.

Meðmælin geta verið gefin með rafrænum hætti eða með eiginhandarundirritun á pappír.

 

3. gr.

Meðmæli með umsókn um listabókstaf.

Hyggist stjórnmálasamtök sem ekki hafa skráðan listabókstaf, samkvæmt skrá ráðuneytisins skv. 37. gr. a, laga um kosningar til Alþingis, bjóða fram lista við alþingiskosningar skulu þau sækja um listabókstaf til ráðuneytisins eigi síðar en þremur sólarhringum áður en framboðsfrestur rennur út. Umsókn skal fylgja yfirlýsing a.m.k. 300 kjósenda þar sem mælt er með heiti samtakanna og listabókstaf. Tilgreina skal nafn meðmælanda, kennitölu hans og heimili auk dagsetningar yfirlýsingar.

Meðmælin geta verið gefin með rafrænum hætti eða með eiginhandarundirritun á pappír.

 

4. gr.

Rafræn skilríki.

Rafræn söfnun meðmæla á grundvelli 2. og 3. gr. fer fram á Ísland.is. Skulu bæði þeir sem hefja söfnun meðmæla og þeir sem vilja vera meðmælendur nota rafræn skilríki við innskráningu á Ísland.is

 

5. gr.

Stofnun rafrænnar meðmælasöfnunar.

Áður en rafræn söfnun meðmæla með framboðslista skv. 2. gr. getur hafist skulu hlutaðeigandi stjórnmálasamtök tilkynna dómsmálaráðuneytinu hver hafi fyrir þeirra hönd heimild til þess að hefja söfnunina. Tilkynna skal einn aðalmann og einn til vara og tilgreina fullt nafn og kennitölu viðkomandi. Þegar tilkynning berst ráðuneytinu skal það eins fljótt og auðið er tryggja að unnt sé að hefja söfnun meðmæla á Ísland.is.

Stjórnmálasamtök sem ekki hafa skráðan listabókstaf, skv. skrá dómsmálaráðuneytisins á grundvelli 37. gr. a, laga um kosningar til Alþingis, geta hafið söfnun rafrænna meðmæla með umsókn um listabókstaf skv. 3. gr. án tilkynningar til dómsmálaráðuneytisins.

 

6. gr.

Skilyrði um kosningarbærni.

Sá sem vill mæla með framboðslista skv. 2. gr. skal vera kosningarbær á kjördegi, en sá sem vill mæla með umsókn um listabókstaf skv. 3. gr. skal vera kosningarbær þegar hann skráir meðmæli sín.

 

7. gr.

Lok meðmælasöfnunar.

Yfirkjörstjórnir skulu tilkynna hvar og hvenær þær koma saman til að taka við tilkynningum um framboð. Unnt er að safna meðmælum með framboðslistum fram að þeim tíma. Finni yfirkjörstjórn galla á meðmælasöfnun, s.s. að tilskyldum fjölda sé ekki náð skal umboðsmanni framboðslistans gefinn kostur á að bæta úr og veittur frestur í því skyni eftir því sem tími og atvik leyfa. Við slíkar aðstæður er heimilt, að beiðni yfirkjörstjórnar, að opna á ný fyrir rafræna söfnun meðmæla hlutaðeigandi stjórnmálasamtaka í því kjördæmi sem við á.

Söfnun meðmæla með umsókn um listabókstaf er lokið þegar meðmælum er skilað til ráðuneytisins. Finni ráðuneytið galla á meðmælasöfnun, s.s. að tilskyldum fjölda sé ekki náð skal hlutaðeigandi gefinn kostur á að bæta úr og veittur frestur í því skyni eftir því sem tími og atvik leyfa. Við slíkar aðstæður er heimilt, að beiðni ráðuneytisins, að opna á ný fyrir rafræna söfnun meðmæla.

 

8. gr.

Heimild til að sannreyna upplýsingar.

Heimilt er að sannreyna upplýsingar úr meðmælendaskrá með samanburði við þjóðskrá að fullnægðum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Tilgangur þess er að tryggja að meðmælandi sé skráður í þjóðskrá sem og að hann sé kosningarbær með tilliti til aldurs, ríkisfangs og kjördæmis. Heimildin nær bæði til rafrænnar söfnunar meðmæla sem og söfnunar á pappír.

 

9. gr.

Miðlun meðmælendaskráa og upplýsinga úr þeim.

Stjórnmálasamtökum sem og öðrum sem aðgang hafa að meðmælendaaskrám, hvort sem er rafrænt eða á pappír, er óheimilt að miðla skránum eða upplýsingum úr þeim til annarra en þeirra sem þær eiga að fá samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis.

 

III. KAFLI

Skil á framboðslista.

10. gr.

Tilkynning framboðs.

Þegar alþingiskosningar fara fram skulu öll framboð tilkynnt yfirkjörstjórn þeirri sem í hlut á eigi síðar en kl. 12 á hádegi 15 dögum fyrir kjördag. Framboðslista skal fylgja yfirlýsing um stuðning við listann frá kjósendum í hlutaðeigandi kjördæmi sbr. 2. gr.

Framboðslista skal einnig fylgja tilkynning frá frambjóðendum listans um það hverjir tveir menn séu umboðsmenn listans. Skal yfirkjörstjórn tilkynnt um umboðsmenn með sannanlegum hætti s.s. með tölvupósti.  Ef umboðsmenn listans eru ekki tilgreindir eða nauðsynjar hamla umboðsmanni eru frambjóðendur í aðalsætum hver um sig réttir umboðsmenn hans. 

Í tilkynningu um framboð skv. 1. mgr. skal tilgreina nafn frambjóðanda, kennitölu hans, stöðu eða starfsheiti og heimili.

Á framboðslista skulu vera nöfn tvöfalt fleiri frambjóðenda en nemur þingsætum í kjördæminu, hvorki fleiri né færri.

Tilkynningu um framboð skal fylgja yfirlýsing frambjóðenda um að þeir hafi leyft að nöfn þeirra séu sett á framboðslista. Yfirlýsing frambjóðanda getur verið undirrituð eigin hendi eða með fullgildri rafrænni undirskrift.

Tilkynning til yfirkjörstjórnar um framboð skv. 1. mgr. skal undirrituð eigin hendi eða með fullgildri rafrænni undirskrift.

 

11. gr.

Fullgild rafræn undirskrift.

Fullgild rafræn undirskrift er útfærð rafræn undirskrift sem er mynduð með fullgildum rafrænum undirskriftarbúnaði og studd fullgildu vottorði fyrir rafrænar undirskriftir. Fullgild rafræn undirskrift hefur sömu réttaráhrif og eiginhandarundirskrift.

 

IV. KAFLI

Meðferð persónuupplýsinga, varðveisla og eyðing.

12. gr.

Meðferð persónuupplýsinga.

Við vinnslu upplýsinga úr rafrænu meðmælendakerfi á Ísland.is skal gera viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir til að tryggja viðunandi öryggi persónuupplýsinga með hliðsjón af lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.

 

13. gr.

Varðveisla og eyðing gagna.

Yfirkjörstjórnir skulu að loknum kosningum til Alþingis og eigi síðar en ári eftir að söfnun meðmæla lauk, sjá til þess að meðmælendaskrám verði eytt nema fram komi kæra eða dómsmál höfðað þar sem meðmælendaskrár kunna að hafa gildi. Skal eyðing þá ekki fara fram fyrr en niðurstaða er fengin. Tilkynningar um framboð og yfirlýsingar frambjóðanda skulu varðveittar ótímabundið nema yfirkjörstjórnir ákveði annað.

Dómsmálaráðuneytið varðveitir í málaskrá sinni gögn um söfnun meðmæla vegna umsóknar um listabókstafi, en ráðuneytið er afhendingarskyldur aðili samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014.

 

14. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þess er sett skv. 32. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, sbr. 3. gr. laga nr. 67/2021 og tekur þegar gildi.

 

Dómsmálaráðuneytinu, 16. júlí 2021.

 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Bryndís Helgadóttir.


B deild - Útgáfud.: 16. júlí 2021