Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1175/2021

Nr. 1175/2021 4. október 2021

REGLUGERÐ
um framkvæmd ársreikningaskrár við gerð kröfu um slit félaga.

I. KAFLI

Tilgangur reglugerðar.

1. gr.

Tilgangur og markmið reglugerðarinnar.

Reglugerð þessi mælir fyrir um meðferð mála hjá ársreikningaskrá áður en krafist er skipta á félagi á grundvelli 1. mgr. 121. gr. laga nr. 3/2006. Tilgangur skipta skv. fyrrgreindri heimild er að stuðla að því að markmið framangreindra laga náist og að fullnægjandi ársreikningi eða samstæðu­reikningi verði skilað til ársreikningaskrár innan tilskilinna tímamarka.

 

2. gr.

Félög sem falla undir reglugerð þessa.

Undir gildissvið reglugerðarinnar falla þau félög sem skilgreind eru í 1. gr. laga nr. 3/2006.

 

3. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um félög sem ekki hafa skilað ársreikningi eða samstæðureikningi innan frests skv. 109. gr. laga nr. 3/2006 og 4. gr. þessarar reglugerðar.

Reglugerðin á einnig við um þau tilvik þegar ársreikningaskrá hefur komist að þeirri niðurstöðu að skýringar eða upplýsingar með ársreikningi eða samstæðureikningi félags sem lagður hefur verið fram til opinberrar birtingar hafi ekki verið fullnægjandi, skv. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006, sbr. 5. gr. þessarar reglugerðar.

 

II. KAFLI

Skilyrði skipta.

4. gr.

Vanskil á ársreikningi.

Ársreikningaskrá skal krefjast skipta á búi félags, sem ekki hefur skilað ársreikningi eða samstæðu­reikningi innan sex mánaða frá því að frestur skv. 109. gr. laga nr. 3/2006 til skila á árs­reikningi eða samstæðureikningi er liðinn.

 

5. gr.

Ófullnægjandi skil.

Að sex mánuðum liðnum frá þeim tíma þegar ársreikningaskrá tilkynnti félagi um þá afstöðu að ársreikningur uppfyllti ekki ákvæði laga nr. 3/2006, um ársreikninga, og félag hefur ekki veitt full­nægjandi skýringar eða upplýsingar með ársreikningi eða samstæðureikningi að mati ársreikninga­skrár, sbr. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006, skal ársreikningaskrá krefjast skipta á búi félags.

Ef ákvörðun ársreikningaskrár, um að skýringar eða upplýsingar með ársreikningi eða samstæðu­reikningi hafi ekki verið fullnægjandi, er kærð til yfirskattanefndar skal miða upphaf frestsins skv. 1. mgr. við það tímamark þegar niðurstaða yfirskattanefndar liggur fyrir.

 

III. KAFLI

Kostnaður af skiptum.

6. gr.

Kostnaður.

Kostnaður af meðferð kröfu vegna skipta greiðist úr ríkissjóði.

 

IV. KAFLI

Málsmeðferð ársreikningaskrár við framsetningu kröfu um skipti félaga.

7. gr.

Frestir.

Við lok sex mánaða frests skv. 4. gr. og 1. og 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar, sendir ársreikn­ingaskrá tilkynningu til viðkomandi félags, þar sem veittur er fjögurra vikna frestur til þess að skila ársreikningi eða eftir atvikum samstæðureikningi sem uppfyllir kröfur laga nr. 3/2006.

Ekki eru veittir frekari frestir af hálfu ársreikningaskrár.

 

8. gr.

Tilkynning.

Í tilkynningu samkvæmt 7. gr. skal skýrlega tekið fram hverjar afleiðingar það hafi, ef ekki verður orðið við kröfu ársreikningaskrár um skil fullnægjandi ársreiknings. Tilkynning er send með almennum pósti á lögheimili viðkomandi félags, eða póstfang þess ef slíkt lögheimili er ekki skráð. Tilkynning getur auk þess verið send með rafrænum hætti til skráðs fyrirsvarsmanns félags.

Ábyrgð á því að lögheimili félags sé skráð með réttum hætti hvílir á stjórn viðkomandi félags.

 

9. gr.

Krafa um skipti.

Að loknum þeim lokafresti sem veittur er félagi, sendir ársreikningaskrá viðkomandi héraðs­dómi beiðni um að félag verði tekið til skipta.

Krafa um skipti skal vera skrifleg og skal þar fylgja fyrirmælum 7. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Krafa um skipti og fylgigögn með henni skulu vera í tvíriti.

Dómari metur framlagða kröfu um skipti og tekur ákvörðun um meðferð hennar, í samræmi við ákvæði laga nr. 21/1991. Ef stjórn félags eða framkvæmdastjóri mætir til fyrstu fyrirtöku getur dómari orðið við beiðni félags um allt að tveggja mánaða frest á meðferð kröfunnar.

 

V. KAFLI

Aðgerðir eftir framsetningu kröfu um skipti.

10. gr.

Skil ársreikninga eftir að krafa um skipti hefur komið fram.

Ef fullnægjandi ársreikningi og samstæðureikningi ef við á, er skilað til ársreikningaskrár eftir að krafa um skipti hefur komið fram en áður en úrskurður um skipti er kveðinn upp, afturkallar árs­reikn­ingaskrá kröfu um skipti á félagi. Skilyrði afturköllunar kröfu um skipti, er að félag hafi greitt allan kostnað vegna skipta, sem og álagða sekt vegna vanrækslu á réttum skilum árs­reikn­ings.

 

V. KAFLI

Gildistaka.

11. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 1. mgr. 121. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

 

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 4. október 2021.

F. h. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,

Ingvi Már Pálsson.

Harpa Theodórsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 18. október 2021