Forseti Íslands gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:
1. gr.
Við 1. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Rekstraraðili sem sækir um lokunarstyrk fyrir lokunartímabil eftir 17. september 2020 skal hafa hafið þá starfsemi sem sætir takmörkun á samkomum minnst einum almanaksmánuði áður en lokunartímabil hefst.
2. gr.
Við 3. gr. laganna bætist ný orðskýring, í réttri stafrófsröð, svohljóðandi: Lokunartímabil: Þeir dagar sem rekstraraðila er samfellt gert að loka samkomustað eða láta af starfsemi eða þjónustu vegna ákvarðana heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem birtar eru á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997.
3. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
- Við 1. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir jafnframt ef honum var gert að loka samkomustað eða láta af starfsemi eða þjónustu tímabundið vegna ákvarðana heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem birtar voru á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997, og tóku gildi 18. september 2020 eða síðar.
- Við 2. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tekjur rekstraraðila sem fellur undir 3. málsl. 1. tölul. skulu vera a.m.k. 75% lægri á lokunartímabili en á jafnlöngu tímabili í næstu heilu almanaksmánuðum á undan þar sem ekki kom til lokunar eða stöðvunar starfsemi eða þjónustu.
- Við 3. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í tilviki rekstraraðila sem fellur undir 3. málsl. 1. tölul. er heimilt að miða við að tekjur séu a.m.k. 350 þús. kr. á mánuði miðað við næsta heila almanaksmánuð á undan þar sem ekki kom til lokunar eða stöðvunar starfsemi eða þjónustu.
4. gr.
Á eftir 3. mgr. 5. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
Fjárhæð lokunarstyrks á grundvelli 3. málsl. 1. tölul. 4. gr. skal vera jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila á lokunartímabili. Lokunarstyrkur á grundvelli 3. málsl. 1. tölul. 4. gr. getur þó ekki orðið hærri en 600 þús. kr. á hvern launamann sem starfaði hjá rekstraraðila í upphafi lokunartímabils fyrir hverja 30 daga lokun og hlutfallslega lægri fyrir styttra tímabil. Fjöldi launamanna miðast við fyrirliggjandi staðgreiðsluskilagreinar eins og þær lágu fyrir á lokunartímabilinu.
Heildarfjárhæð lokunarstyrkja til tengdra rekstraraðila getur að hámarki numið 120 millj. kr. Sé um að ræða fyrirtæki sem taldist í erfiðleikum 31. desember 2019 getur heildarfjárhæð lokunarstyrkja þó að hámarki numið 30 millj. kr., nema ef um er að ræða lítil fyrirtæki, enda hafi þau ekki hlotið björgunar- eða endurskipulagningaraðstoð.
5. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 6. gr. laganna:
- Á eftir 2. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Umsókn um lokunarstyrk á grundvelli 3. málsl. 1. tölul. 4. gr. skal beint til Skattsins eigi síðar en þremur mánuðum eftir að lokunartímabili lýkur.
- Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skattinum er heimilt að afgreiða umsóknir sem berast að liðnum umsóknarfresti og fram til 30. júní 2021, enda séu önnur skilyrði laga þessara uppfyllt.
6. gr.
22. gr. laganna orðast svo:
Stuðningur til fyrirtækja skv. III. kafla skal samræmast reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1407/2013 frá 18. desember 2013 um beitingu 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins gagnvart minniháttaraðstoð eins og hún var tekin upp í EES-samninginn. Sama á við um stuðning skv. II. kafla til fyrirtækja að því marki sem um er að ræða fyrirtæki sem töldust í erfiðleikum 31. desember 2019, önnur en lítil fyrirtæki.
7. gr.
Við 26. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Réttur til lokunarstyrks skv. II. kafla getur í síðasta lagi stofnast 30. júní 2021.
8. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði b-liðar 5. gr. gildir afturvirkt frá gildistöku laga nr. 38/2020.
Gjört á Bessastöðum, 10. nóvember 2020.
Guðni Th. Jóhannesson. (L. S.)
Bjarni Benediktsson.
|