Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 476/2017

Nr. 476/2017 16. maí 2017

REGLUGERÐ
um gjaldtöku af umferð flutningabifreiða.

I. KAFLI

Gildissvið, markmið og orðskýringar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerðin gildir um töku veggjalda og notkunargjalda af umferð ökutækja, sem ætluð eru eða notuð til flutninga á vegum, með leyfilega hámarksþyngd með hleðslu sem er yfir 3,5 tonn, um mannvirki sem eru hluti af samevrópska vegakerfinu hér á landi, sbr. skilgreiningar í 3. gr.

Reglugerðin gildir einnig í þeim tilvikum þegar félag hefur verið stofnað um vegaframkvæmdir á grundvelli ákvæða laga um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir nr. 97/2010 eða annarra sérlaga, þegar þeim lögum sleppir, um þá gjaldtöku sem mælt er fyrir um í 1. mgr.

Undanþegin gjaldtöku á grundvelli reglugerðarinnar eru ökutæki lögreglu, slökkviliðs, sjúkraliðs, björgunarsveita, almannavarna og annarrar neyðarþjónustu, svo og ökutæki hers og vegagerðar.

2. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðarinnar er að koma á réttlátri skipan við gjaldtöku vegna kostnaðar við notkun mannvirkja m.a. til að útiloka röskun á samkeppni flutningafyrirtækja, efla sjálfbæra flutninga og draga úr þætti flutningageirans á loftlagsbreytingar og neikvæðum áhrifum hans sem valda tjóni á heilbrigði og umhverfi.

3. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari og viðaukum sem vísað er til í 18. gr., er merking eftirfarandi orða sem hér segir:

Byggingarkostnaður: Kostnaður við byggingu, þ.m.t., eftir því sem við á, kostnaður við fjármögnun nýs mannvirkis eða endurbóta á mannvirki, þ.m.t. umtalsverðar viðgerðir á burðarvirki.

EURO-losunarflokkur: Flokkun ökutækja í flokka EURO 0, EURO I, EURO II, EURO III, EURO IV, EURO V og EEV sem samræmast leyfilegum viðmiðunarmörkum fyrir losun sem sett eru fram í 0. viðauka.

Fjármögnunarkostnaður: Vextir af lánum og/eða hagnaður af eigin fjármagni sem hluthafar hafa lagt fram.

Gerð ökutækis: Flokkur sem ökutæki tilheyrir eftir fjölda öxla, stærðarmáli eða þyngd eða öðrum flokkunarþáttum sem endurspegla tjón á vegum, t.d. það flokkunarkerfi vegaskemmda sem lýst er í IV. viðauka, svo framarlega sem flokkunarkerfið sem notað er byggist á eiginleikum ökutækis sem annaðhvort koma fram í ökutækjaskjölum, sem notuð eru í öllum aðildarríkjum, eða eru sjáanleg.

Gjald vegna ytri kostnaðar: Gjald sem lagt er á í þeim tilgangi að endurheimta kostnað sem til er stofnað í tengslum við loftmengun frá umferð og/eða hávaða frá umferð.

Grunnnet: Sá hluti samevrópska flutninganetsins sem er skipulagslega mikilvægastur til að ná markmiðum stefnumála um samevrópska flutninganetið og endurspeglar þróun umferðarþarfar og þarfar fyrir fjölþætta flutninga eins og það er skilgreint í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1315/2013 frá 11. desember 2013 um viðmiðunarreglur ESB varðandi uppbyggingu samevrópska flutninganetsins og um niðurfellingu á ákvörðun nr. 661/2010/ESB, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB nr. 74/2015, 10. desember 2015, bls. 543-670.

Kostnaður vegna hávaðamengunar frá umferð: Kostnaður vegna þess skaða sem verður vegna hávaða frá ökutæki eða hávaða vegna samspils ökutækis og yfirborðs vegar.

Kostnaður vegna loftmengunar frá umferð: Kostnaður vegna þess skaða sem losun efnisagna og forefna ósons, t.d. köfnunarefnisoxíðs og rokgjarnra, lífrænna efnasambanda, veldur á meðan akstri ökutækis stendur.

Mannvirki: Í reglugerðinni er með hugtakinu mannvirki átt við samgöngumannvirki.

Mannvirkjagjald: Gjald sem lagt er á í þeim tilgangi að endurheimta kostnað sem til er stofnað vegna byggingar, viðhalds, reksturs og þróunar í tengslum við mannvirki.

Notkunargjald: Gjald sem greitt er og veitir ökutæki rétt til að nota mannvirkin sem reglugerðin tekur til í tiltekinn tíma.

Samevrópska vegakerfið: Samevrópska flutninganetið eins og það er skilgreint í reglugerð Evrópu­þingsins og ráðsins nr. 1315/2013 frá 11. desember 2013 um viðmiðunarreglur ESB varðandi uppbyggingu samevrópska flutninganetsins og um niðurfellingu á ákvörðun nr. 661/2010/ESB, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB nr. 74/2015, 10. desember 2015, bls. 543-670.

Sérleyfissamningur: Verk- eða þjónustusamningur þar sem endurgjald fyrir verk eða þjónustu felst annaðhvort eingöngu í rétti til að nýta sér verkið eða þjónustuna eða í rétti til að nýta sér verkið eða þjónustuna ásamt fjárgreiðslu frá kaupanda, sbr. 22. tölul. 2. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Sérleyfisgjald: Notkunargjald sem sérleyfishafi leggur á samkvæmt sérleyfissamningi.

Umtalsverðar viðgerðir á burðarvirki: Viðgerðir á burðarvirki að undanskildum viðgerðum sem veg­farendur hafa ekki lengur ávinning af t.d. þar sem frekari vegayfirlagning eða aðrar bygginga­framkvæmdir hafa komið í stað viðgerðar.

Veggjald: Tiltekin fjárhæð sem greiða skal fyrir ökutæki og fer eftir ekinni vegalengd um ákveðið mannvirki og eftir gerð ökutækis og sem felur í sér mannvirkjagjald og/eða gjald vegna ytri kostnaðar.

Vegið meðaltal mannvirkjagjalds: Heildartekjur af mannvirkjagjaldi yfir tiltekið tímabil deilt með fjölda ökutækjakílómetra sem eknir eru á vegarköflum sem gjaldið tekur til á því tímabili.

Vegið meðaltal vegna ytri kostnaðar: Heildartekjur af gjaldi vegna ytri kostnaðar yfir tiltekið tímabil deilt með fjölda ökutækjakílómetra sem eknir eru á vegarköflum sem gjaldið tekur til á því tímabili.

Viðauki: Með tilvísun í viðauka í reglugerð þessari er átt við viðauka við tilskipun 1999/62/EB um álagningu gjalda á þungaflutningabifreiðar fyrir notkun á tilteknum grunnvirkjum, eins og henni var breytt með tilskipun 2006/38/EB og tilskipun 2011/76/ESB, sbr. 18. gr. um innleiðingu þessara tilskipana, nema annað sé tekið fram.

Ökutæki: Vélknúið ökutæki eða liðskipt, samtengd vagnalest, ætluð eða notuð til flutninga á vegum, með leyfilega hámarksþyngd með hleðslu sem er yfir 3,5 tonnum.

II. KAFLI

Almenn ákvæði um gjaldtöku.

4. gr.

Lagaheimild til töku gjalda.

Heimilt er að ákveða í samgönguáætlun að veghald einstakra vegarkafla þjóðvega skuli kostað að hluta eða öllu leyti með veggjaldi af umferð eða með notkunargjaldi, sbr. 1. mgr. 17. gr. vegalaga nr. 80/2007.

Gjaldtakan skv. 1. mgr. skal miðast við að standa straum af byggingarkostnaði, viðhaldi, rekstri, þróun og eðlilegum afrakstri af fjárfestingu vega, sbr. 2. mgr. 17. gr. vegalaga nr. 80/2007.

Heimilt er einnig að byggja gjaldtöku skv. 1. mgr. á sjónarmiðum um vernd umhverfis, umferðar­öryggi og stýringu umferðar, svo sem til að jafna álag á einstök vegamannvirki til að greiða fyrir umferð eða til að draga úr sliti vega, sbr. 3. mgr. 17. gr. vegalaga nr. 80/2007.

Gjaldtaka skv. þessari grein skal aldrei vera hærri en nemur kostnaði við þá þjónustu sem sjónar­mið um gjaldtökuna byggjast á.

5. gr.

Gjaldskrá.

Ráðherra samþykkir gjaldskrá vegna samgöngumannvirkis, að undangenginni ákvörðun skv. 1. mgr. 4. gr. í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar, sem birt er í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 5. mgr. 17. gr. vegalaga nr. 80/2007. Þegar við á skal gjaldskrá einnig vera aðgengileg á heimasíðu þess sem stundar gjaldtöku.

Í gjaldskrá skal koma fram hvort um sé að ræða notkunargjald eða veggjald og hvert hlutfall mann­virkja­gjalds og gjalds vegna ytri kostnaðar er í veggjaldi. Þá skal koma fram hvort heimild til hækkunar mannvirkjagjalds á fjallasvæðum sé nýtt og hvort mannvirkjagjald sé breytilegt eftir EURO-losunarflokki.

6. gr.

Aðilar sem geta stundað gjaldtöku.

Vegagerðin er veghaldari þjóðvega skv. 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. vegalaga nr. 80/2007 og þ.m.t. vega sem eru hluti af samevrópska vegakerfinu og reglugerðin tekur til. Hún fer með forræði yfir vegi og vegsvæði, þ.m.t. vegagerð, þjónustu og viðhald, og er bær aðili til að stunda gjaldtöku.

Hafi veghald einstakra vegarkafla sem falla undir reglugerðina að nokkru eða öllu leyti verið falið einstaklingi, fyrirtæki, sveitarfélagi, stofnun eða samtökum þessara aðila með lögum eða samningi skal í þjónustusamningi kveða á um heimildir þessara aðila til stunda gjaldtöku.

Gjaldtaka skv. 1. og 2. mgr. skal vera í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar, þ.m.t. 1. mgr. 4. gr. og gjaldskrár sem vísað er til í 5. gr.

7. gr.

Fyrirkomulag gjaldtöku.

Gjaldtaka og eftirlit með innheimtu gjalda skal hagað þannig að það valdi sem minnstum töfum á umferð. Aðstaða til greiðslu gjalda skal uppfylla almenna staðla um umferðaröryggi.

Fyrirkomulag við innheimtu gjalda skal ekki valda óréttmætri mismunun, hvorki fjárhagslegri né af öðrum toga, fyrir óreglulega notendur vegakerfisins. Ef gjöld eru eingöngu innheimt í gegnum kerfi sem er háð notkun búnaðar um borð í ökutækjum skal búnaðurinn vera tiltækur öllum notendum með sanngjörnum hætti án óhóflegs kostnaðar og uppfylla kröfur reglugerðar nr. 979/2013 um rekstrarsamhæfi rafræns gjaldtökukerfis innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Þegar veggjald er innheimt skal farmflytjandi fá kvittun þar sem fram koma upplýsingar um heildar­fjárhæð veggjaldsins, fjárhæð mannvirkjagjalds og/eða fjárhæð gjalds vegna ytri kostnaðar. Kvittun skal vera á rafrænu formi sé þess kostur.

Ef það er fjárhagslega hagkvæmt skulu gjöld vegna ytri kostnaðar lögð á og innheimt með rafrænu kerfi sem uppfyllir kröfur 2. gr. reglugerðar nr. 979/2013.

8. gr.

Jafnræðisregla.

Gjaldtöku má ekki haga með þeim hætti að jafnræði raskist. Þannig er óheimilt að mismuna notanda mannvirkis beint eða óbeint, á grundvelli ríkisfangs hans, staðfestustaðar ökutækis eða skráningarlands þess eða á grundvelli upphafs- eða ákvörðunarstaðar flutnings.

III. KAFLI

Notkunargjald og veggjald.

9. gr.

Notkunargjald.

Notkunargjald skal vera í réttu hlutfalli við tímalengd notkunar á mannvirki en þó ekki vera umfram þau gildi, sem mælt er fyrir um í II. viðauka, og það skal fást með gildistíma fyrir dag, viku, mánuð eða ár. Mánaðargjald skal ekki vera hærra en 10% árgjalds, vikugjald skal ekki vera hærra en 5% árgjalds og daggjald skal ekki vera hærra en 2% árgjalds. Árgjöld verða aðeins lögð á ökutæki sem eru skráð á Íslandi.

Notkunargjald, þ.m.t. umsýslukostnað, fyrir alla ökutækjaflokka, skal ákveðið og skal það ekki vera hærra en þau hámarksgjöld sem mælt er fyrir um í II. viðauka.

10. gr.

Mannvirkjagjald.

Mannvirkjagjald er hluti veggjalds. Gjald skal miðast við meginregluna um endurheimt kostnaðar við mannvirkið.

Vegið meðalmannvirkjagjald skal tengjast kostnaði við byggingu, rekstur, viðhald og þróun við­kom­andi mannvirkjanets. Vegið meðalmannvirkjagjald getur einnig náð yfir fjármagnstekjur og/eða hagnaðarhlutfall byggt á markaðsaðstæðum.

Kostnaður, sem tekið er tillit til, skal tengjast vegakerfinu eða þeim hluta þess, sem mann­virkja­gjaldið er lagt á, sem og þeim ökutækjum sem gjaldið á við um. Leggja má á lægri gjöld sem nema aðeins hluta af þessum kostnaði.

11. gr.

Gjald vegna ytri kostnaðar.

Gjald vegna ytri kostnaðar er hluti veggjalds. Gjald getur tengst kostnaði vegna loftmengunar frá umferð. Á vegarköflum sem liggja um svæði, þar sem íbúar verða fyrir hávaða frá umferð, má gjald vegna ytri kostnaðar fela í sér kostnað vegna hávaða frá umferð.

Gjald vegna ytri kostnaðar skal vera breytilegt og ákvarðað í samræmi við lágmarkskröfurnar og aðferðirnar, sem tilgreindar eru í III. viðauka a, og skal ekki fara yfir hámarksgildin sem mælt er fyrir um í III. viðauka b.

Kostnaður, sem tekið er tillit til, skal tengjast vegakerfinu eða þeim hluta þess, sem gjöld vegna ytri kostnaðar eru lögð á, sem og þeim ökutækjum sem gjaldið á við um. Leggja má á lægri gjöld sem nema aðeins hluta af þessum kostnaði.

Gjald vegna ytri kostnaðar, sem tengist loftmengun frá umferð, á ekki við um ökutæki, sem upp­fylla ströngustu losunarstaðla EURO, fyrr en fjórum árum eftir gildistökudaginn sem mælt er fyrir um í reglunum þar sem þessir staðlar eru innleiddir.

12. gr.

Ákvörðun mannvirkjagjalds.

Hámarksgildi fyrir mannvirkjagjald skal reiknað með aðferðum sem byggjast á meginreglum fyrir útreikning sem settar eru fram í III. viðauka.

Hæsta þrep mannvirkjagjalds vegna sérleyfisgjalda skal vera jafnt eða jafnt eða lægra en þrepið sem hefði orðið niðurstaðan með notkun aðferða sem byggjast á meginreglum fyrir útreikning, sem settar eru fram í III. viðauka. Mat á slíku jafngildi skal framkvæmt á grunni hæfilega langs við­mið­unar­tímabils í samræmi við eðli sérleyfissamningsins.

Veggjaldafyrirkomulag, sem var til staðar 10. júní 2008 skal ekki vera háð þeim skuldbindingum sem settar eru fram í 1. og 2. mgr., á meðan þetta fyrirkomulag er í gildi og svo framarlega sem því er ekki breytt að verulegu leyti.

13. gr.

Hækkun mannvirkjagjalds á fjallasvæðum.

Heimilt er í undantekningartilvikum sem varða mannvirki á fjallasvæðum, og eftir að hafa tilkynnt það Eftirlitsstofnun EFTA, að hækka mannvirkjagjald sem lagt er á tiltekna vegarkafla þar sem mikil umferðarteppa myndast eða þar sem notkun ökutækja veldur umtalsverðu umhverfistjóni ef:

  1. tekjur af hækkun álagningarinnar eru notaðar til fjármögnunar grunnnetsins,
  2. hækkun álagningar fer ekki yfir 15% af vegnu meðalmannvirkjagjaldi, reiknuðu í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar nema þegar tekjur sem skapast eru lagðar í forgangsverkefni sem varða hagsmuni Evrópska efnahagssvæðisins á landamærasvæðum og taka til mann­­virkja á fjallasvæðum, en þar má hækkunin ekki fara yfir 25%,
  3. hækkun álagningarinnar veldur ekki ósanngjarnri meðferð flutningaumferðar samanborið við aðra vegfarendur,
  4. nákvæm lýsing er lögð fyrir Eftirlitsstofnun EFTA á því hvar hækkun álagningarinnar gildir og sönnur eru færðar fyrir ákvörðuninni um að fjármagna framkvæmdir forgangsverkefnanna, sem um getur í a-lið, áður en til hækkunar á álagningu kemur,
  5. gildistímabil hækkunarinnar er skilgreint og takmarkað fyrirfram og, með tilliti til þeirra tekna sem vænst er að verði aflað, er í samræmi við fjárhagsáætlanir og kostnaðar- og ábatagreiningu verkefnisins, sem að hluta til er fjármagnað með tekjum af hækkuninni.

Heimilt er að hækka mannvirkjagjald á grundvelli þessarar greinar þrátt fyrir að það hafði verið lækkað á grundvelli 14. gr.

Á vegarköflum, þar sem viðmiðanir um hækkun álagningar skv. 1. mgr. eru uppfylltar má ekki leggja á gjald vegna ytri kostnaðar nema að álagning sé hækkuð.

Fjárhæð hækkunarinnar skv. þessari grein skal dregin frá fjárhæð gjaldsins vegna ytri kostnaðar, reiknuðu út í samræmi við 11. gr., nema þegar um er að ræða ökutæki í EURO-losunarflokki 0, I og II, frá og með 15. október 2011 og flokki III, frá og með árinu 2015. Allar tekjur, sem skapast af því að beita samtímis hækkaðri álagningu og gjaldi vegna ytri kostnaðar, skulu lagðar í fjármögnun grunnnetsins.

14. gr.

Breyting mannvirkjagjalds skv. EURO-losunarflokki.

Breyta skal mannvirkjagjaldi samkvæmt EURO-losunarflokki ökutækis þannig að ekkert mann­virkja­gjald sé meira en 100% hærra en sama gjald fyrir sambærileg ökutæki sem uppfylla ströngustu losunarstaðla. Gildandi sérleyfissamningar eru undanþegnir þessari kröfu þar til samn­ingur­inn er endurnýjaður.

Heimilt er að víkja frá kröfum 1. mgr. um breytilegt mannvirkjagjald að undangenginni tilkynningu til Eftirlitsstofnunar EFTA ef:

  1. með því er grafið verulega undan samræmi á veggjaldakerfi,
  2. ekki er tæknilega gerlegt að taka upp slíka aðgreiningu í veggjaldakerfi,
  3. það leiðir til þess að umferð ökutækja sem valda mestri mengun beinist annað, með neikvæðum áhrifum á umferðaröryggi og lýðheilsu eða
  4. veggjaldið felur í sér gjald vegna ytri kostnaðar.

Þegar skoðun fer fram og ökumaður eða, ef við á, farmflytjandi getur ekki lagt fram nauðsynleg skjöl vegna ökutækis til að staðfesta EURO-losunarflokk þess, er heimilt að beita allt að hæsta þrepi veggjalds sem unnt er að leggja á.

Einnig er heimilt að leggja á breytilegt mannvirkjagjald til þess að draga úr umferðarteppu, lág­marka tjón á mannvirki og hámarka notkun viðkomandi mannvirkis eða til að stuðla að umferðar­öryggi ef:

  1. breytilegu gjöldin eru gagnsæ, opinber og aðgengileg öllum notendum á jafnræðisgrundvelli,
  2. breytilegu gjöldunum er beitt eftir tíma dags, degi eða árstíð,
  3. ekkert mannvirkjagjald er meira en 175% hærra en hæsta mögulega vegið meðal­mannvirkja­gjald eins og um getur í 10. gr.,
  4. álagstíminn, þegar hærra mannvirkjagjald er lagt á í þeim tilgangi að draga úr umferðar­teppu, er ekki lengri en fimm klukkustundir á dag,
  5. breytilegu gjöldin eru útfærð og þeim beitt á gagnsæjan hátt og þannig að það hafi ekki áhrif á heildartekjur og þetta er gert á vegarkafla þar sem umferðarteppa er tíð með því að bjóða lægri veggjöld fyrir farmflytjendur sem ferðast utan álagstíma og hærri taxta fyrir farmflytjendur sem ferðast á álagstímum á sama vegarkafla og
  6. Eftirlitsstofnun EFTA er tilkynnt um að fyrirhugað er að taka upp slík breytileg gjöld eða gera breytingar á því fyrirkomulagi breytileika sem fyrir er og henni eru afhentar nauðsynlegar upplýsingar til staðfestingar því að öll skilyrði eru uppfyllt.

Breytilegum gjöldum skv. þessari grein er ekki ætlað að skapa aukatekjur af veggjöldum. Öll aukn­ing á tekjum, sem ekki er ráðgerð, skal jöfnuð út með breytingum á útfærslu breytileikans, sem hrinda skal í framkvæmd innan tveggja ára frá lokum þess uppgjörsárs þegar aukatekjurnar skapast.

15. gr.

Afsláttur.

Óheimilt er að veita afslátt eða lækkun á gjaldi að því er varðar þann hluta veggjalds sem lýtur að ytri kostnaði.

Heimilt er að veita afslátt eða lækka mannvirkjagjald ef:

  1. slíkt gjaldtökufyrirkomulag er hlutfallslegt, birt opinberlega og aðgengilegt öllum á jafn­ræðis­grundvelli og hefur ekki í för með sér að viðbótarkostnaður leggist á aðra í formi hærri veggjalda,
  2. slíkur afsláttur eða lækkun leiðir til raunsparnaðar í stjórnsýslukostnaði og
  3. slíkur afsláttur eða lækkun er ekki umfram 13% af mannvirkjagjaldi því sem samsvarandi ökutæki, sem ekki njóta afsláttar eða lækkunar, greiða.

Í undantekningartilvikum og með fyrirvara um skilyrðin sem kveðið er á um í b-lið 4. mgr. 14. gr. og í 5. mgr. 14. gr. geta veggjöld verið breytileg á annan hátt ef um er að ræða tiltekin verkefni sem varða grunnnetið, svo tryggja megi viðskiptalega hagkvæmni slíkra verkefna þegar þau mæta beinni samkeppni við annan máta flutninga með ökutækjum.

Gjaldtökufyrirkomulag skv. 3. mgr. skal vera línulegt, hlutfallslegt, birt opinberlega og aðgengilegt öllum notendum á jafnræðisgrundvelli og skal ekki hafa í för með sér að viðbótarkostnaður leggist á aðra notendur í formi hærri veggjalda. Eftirlitsstofnun EFTA sannreynir að farið sé að þessum skilyrðum áður en viðkomandi gjaldtökufyrirkomulagi er hrint í framkvæmd.

16. gr.

Bann við tvöfaldri gjaldtöku.

Óheimilt er að leggja á samtímis veggjald og notkunargjald fyrir notkun tiltekins mannvirkis. Heimilt er þó að leggja á veggjald fyrir notkun jarðganga og brúa samhliða notkunargjaldi á aðlæga vegi.

IV. KAFLI

Ýmis ákvæði.

17. gr.

Eftirlit og stjórnvaldssektir.

Samgöngustofa skal, skv. verklagsreglum sem stofnunin setur sér og skv. þeim heimildum sem henni eru veittar í 6. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála nr. 119/2012, hafa eftirlit með því að aðilar sem stunda gjaldtöku samkvæmt reglugerðinni fullnægi við gjald­tökuna þeim reglum sem gilda samkvæmt henni.

Samgöngustofu er heimilt að leggja á gjaldtakendur skv. 2. mgr. 6. gr. stjórnvaldssektir telji hún að framkvæmd gjaldtöku hafi ekki verið í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Fjárhæðir sekta geta að hámarki numið allt að 1% af heildarveltu gjaldtakanda á síðasta rekstrarári, sbr. 2. mgr. 59. gr. vegalaga nr. 80/2007.

Ákvarðanir Samgöngustofu um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar. Slíkum ákvörðunum má skjóta til ráðherra innan mánaðar frá því aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málskot til ráðherra frestar aðför. Úrskurðir ráðherra um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfir, sbr. 3. mgr. 59. gr. vegalaga nr. 80/2007.

V. KAFLI

Innleiðing og gildistaka.

18. gr.

Innleiðing.

Með reglugerð þessari eru innleiddar og öðlast gildi hér á landi eftirtaldar gerðir:

  1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/62/EB frá 17. júní 1999 um álagningu gjalda á þungaflutningabifreiðar fyrir notkun á tilteknum grunnvirkjum, ásamt viðaukum. Vísað er til tilskipunarinnar í XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 5/2002, þann 1. febrúar 2002. Tilskipunin, ásamt viðaukum, er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 47/2002, 19. september 2002, bls. 91-99.
  2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/38/EB frá 17. maí 2006 um breytingu á tilskipun 1999/62/EB um álagningu gjalda á þungaflutningabifreiðar fyrir notkun á tilteknum grunn­virkjum, ásamt viðaukum. Vísað er til tilskipunarinnar í XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndar­innar nr. 129/2012, þann 13. júlí 2012. Tilskipunin, ásamt viðaukum, er birt í EES-við­bæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 67/2012, 29. nóvember 2012, bls. 387-402.
  3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/76/ESB frá 27. september 2011 um breytingu á tilskipun 1999/62/EB um álagningu gjalda á þungaflutningabifreiðar fyrir notkun á tilteknum grunnvirkjum, ásamt viðaukum. Vísað er til tilskipunarinnar í XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndar­innar nr. 244/2016, þann 2. desember 2016. Tilskipunin, ásamt viðaukum, er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 10/2017, 16. febrúar 2017, bls. 204-219.

19. gr.

Gildistaka.

Reglugerðin er sett með heimild í 17. gr., 58. gr. og 2. mgr. 59. gr. vegalaga nr. 80/2007 og öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 16. maí 2017.

Jón Gunnarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


B deild - Útgáfud.: 31. maí 2017