I. KAFLI
Almennt.
1. gr.
Gildissvið.
Samþykkt þessi gildir um dýrahald hunda, katta og annarra gæludýra í Dalvíkurbyggð sem er á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra og sætir þeim takmörkunum sem getið er um í samþykkt þessari. Þéttbýlin sem um ræðir í samþykkt þessari eru Dalvík, Árskógssandur og Hauganes.
2. gr.
Stjórnsýsla.
Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra fer með málefni gæludýrahalds samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir og hefur eftirlit með framkvæmd samþykktar þessarar. Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar fer með framkvæmd samþykktarinnar í umboði heilbrigðisnefndar, eins og nánar greinir í samþykkt þessari og felur starfsmönnum sínum hlutverk dýraeftirlitsmanna, sem starfa undir eftirliti og á ábyrgð heilbrigðisnefndar, til að framfylgja samþykkt þessari.
Dýraeftirlitsmenn geta leitað aðstoðar heilbrigðisnefndar, Matvælastofnunar og lögregluyfirvalda, ef og þegar þörf krefur, t.d. ef gæludýr er að mati eftirlitsmanns hættulegt umhverfi sínu, vörsluaðili dýrsins tálmar starf eftirlitsaðila samkvæmt samþykkt þessari eða þegar nauðsynlegt er vegna almannahagsmuna, dýravelferðar eða heilbrigðis- og öryggissjónarmiða að leita atbeina lögreglu við að fjarlægja dýr.
3. gr.
Dýravelferð og dýravernd.
Um almennan aðbúnað og velferð gæludýra sem og um ræktun, verslun, geymslu og leigu hunda, katta eða annarra gæludýra í atvinnuskyni gilda ákvæði laga nr. 55/2013, um velferð dýra og reglugerðar nr. 80/2016, um velferð gæludýra.
Samkvæmt lögum nr. 55/2013, um velferð dýra, fer Matvælastofnun með eftirlit og framkvæmd þeirra laga og reglugerða um velferð dýra.
II. KAFLI
Gjaldtaka og skráningar.
4. gr.
Gjaldtaka.
Sveitarstjórn er heimilt að innheimta skráningar- og árgjöld í samræmi við gjaldskrá sem sveitarfélagið setur skv. 5. mgr. 59. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sveitarstjórn skal láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda.
Skráningargjald skal greitt við skráningu hunda og katta. Árgjald skal einnig greiða við skráningu, en þó hlutfallslega miðað við þann mánuð sem skráning fer fram í. Árgjaldið greiðist framvegis árlega. Sveitarstjórn getur ákveðið að veita afslátt af árgjaldi gegn framvísun á staðfestingu á að eigandi/umráðamaður hafi sjálfur látið framkvæma ormahreinsun.
Gjöldunum er ætlað að standa undir kostnaði sveitarfélagsins við hunda- og kattahald. Gjöld skulu taka mið af þeim kostnaði sem leiðir af framkvæmd samþykktarinnar. Í gjaldskránni skal koma fram hvað er innifalið í skráningargjaldi og upphæð handsömunar- og vörslugjalds vegna hunda og katta sem ganga lausir eða sem teknir eru í vörslu sveitarfélagsins vegna brota á samþykkt þessari.
Hundar og kettir sem notaðir eru við búrekstur á lögbýlum eru undanþegnir gjaldtöku, en skylt er að skrá þau dýr og framvísa til sveitarfélagsins árlegu vottorði um ormahreinsun og merkingu. Sveitarstjórn getur fellt niður eða ákveðið lægra gjald fyrir hunda sem notaðir eru til löggæslu- eða björgunarstarfa og minkahunda svo og fyrir hjálparhunda sem að læknisráði eru notaðir til að aðstoða fólk með fötlun.
5. gr.
Leyfi og gögn sem þarf að framvísa við skráningu.
Hunda- og kattahald í lögsagnarumdæmi Dalvíkurbyggðar er háð leyfi og bundið þeim skilyrðum, sem nánar eru tilgreind í samþykkt þessari og ber eigendum og umráðamönnum þessara dýra að fara að fyrirmælum samþykktarinnar í einu og öllu. Umsókn um leyfi til dýrahalds skal berast í gegnum þjónustugátt Dalvíkurbyggðar á heimasíðu sveitarfélagsins. Eftirfarandi gögn skal leggja fram við skráningu dýrs:
- Upplýsingar um heiti, fæðingardag, kyn, tegund og önnur einkenni dýrs.
- Mynd af dýri.
- Útprentaða staðfestingu úr gagnagrunni Dýraauðkennis af skráningu örmerkis, en skylt er að einstaklingsmerkja gæludýr, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 80/2016, um velferð gæludýra.
- Vottorð frá dýralækni um ormahreinsun dýrs, sbr. 42. gr. reglugerðar nr. 903/2024, um hollustuhætti.
- Staðfestingu frá viðurkenndu tryggingafyrirtæki um að umsækjandi hafi gilda ábyrgðartryggingu sem nær til alls þess tjóns sem dýrið kann að valda mönnum, dýrum, gróðri eða munum.
- Þegar fyrirhugað er að halda dýr í fjölbýlishúsi gilda ákvæði laga nr. 26/1994, um fjöleignarhús, og er þá skylt að leggja fram samþykki tilskilins hluta íbúa og/eða eigenda, sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými. Þetta skal gert áður en dýrið er tekið inn á heimili í fjöleignarhúsi.
Skilyrði fyrir veitingu leyfis er að gögn skv. 1. mgr. hafi verið lögð fram af hálfu umsækjanda og skráningargjald greitt samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins sem sett er skv. 4. gr. og að uppfylltum skilmálum samþykktar þessarar.
Eigandi skal tilkynna sveitarfélaginu skriflega innan mánaðar um aðsetursskipti eða dauða dýrs.
Óheimilt er að halda dýr í húsnæði þar sem enginn er búsettur.
Sveitarstjórn getur ákveðið að óheimilt sé að halda dýr í húsnæði sem sveitarfélagið á. Sveitarfélaginu er heimilt að hafna beiðni um skráningu dýrs ef umsækjandi hefur áður gerst brotlegur við samþykkt um dýrahald í sveitarfélaginu eða annars staðar.
III. KAFLI
Skyldur aðila.
6. gr.
Skyldur sveitarfélagsins.
Í kjölfar leyfisveitingar ber sveitarfélaginu að afhenda umráðamanni hunda og katta leyfisskírteini sem staðfestingu á að dýrið hafi fengið leyfi og sé skráð til heimilis í sveitarfélaginu.
Sveitarfélagið skal tryggja að til staðar sé dýrageymsla sem hefur tilskilin leyfi skv. 24. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra, reglugerð nr. 903/2024, um hollustuhætti, og reglugerð nr. 80/2016, um velferð gæludýra. Í dýrageymslu skal hýsa þau dýr sem þarf að fanga vegna lausagöngu eða brota á samþykkt þessari. Sveitarstjórn getur ákveðið að merkja ákveðin svæði þar sem ekki má vera með dýr. Einnig getur sveitarstjórn ákveðið að láta afmarka ákveðin svæði þar sem sleppa má dýrum lausum. Svæði þessi skulu auglýst og kynnt sérstaklega fyrir eigendum dýra sem og almenningi.
7. gr.
Skyldur eftirlitsaðila.
Dýraeftirlitsmenn sveitarfélagsins skulu halda uppfærða skrá yfir dýr þau er þessi samþykkt tekur yfir. Í skránni skulu koma fram allar upplýsingar er varða skráð dýr og sem dýraeftirlitsmaður telur skipta máli þ.m.t. hvenær dýr hafa verið ormahreinsuð og öll afskipti sem eftirlitsaðilar hafa haft af dýrum og eigendum þeirra því tengdu.
Heilbrigðisnefnd, Matvælastofnun, lögregla og eftir atvikum starfsmenn sveitarfélagsins skulu tilkynna dýraeftirlitsmönnum um kvartanir eða afskipti þeirra af viðkomandi dýrum í sveitarfélaginu.
8. gr.
Skyldur eigenda og umráðamanna hunda og katta.
Eigendur skulu færa dýr sín árlega til ormahreinsunar hjá dýralækni og skulu afhenda sveitarfélaginu staðfestingu frá dýralækni um að ormahreinsun hafi farið fram. Sveitarfélagið upplýsir, m.a. á heimasíðu sinni og samfélagsmiðlum, um hvenær árleg ormahreinsun fer fram á vegum sveitarfélagsins. Hvatt er til reglulegra bólusetninga hunda og katta gegn helstu smitsjúkdómum þeirra.
Auk einstaklingsmerkingar skulu dýr sem skráð eru í þéttbýli ávallt bera ól með plötu um hálsinn með ágreyptu leyfisnúmeri og símanúmeri umráðamanns.
Eiganda eða umráðamanni er ávallt skylt að fjarlægja saur eftir hund sinn.
Eiganda eða umráðamanni er skylt að sjá til þess að dýr hans valdi ekki hættu, óþægindum, óþrifnaði, óöryggi eða verði mönnum til óþæginda á annan hátt, t.d. með stöðugu eða ítrekuðu gelti, ýlfri, breimi eða óæskilegum heimsóknum.
Ef dýr veldur nágrönnum eða öðrum ítrekuðu ónæði, óþrifum eða tjóni, þá ber eiganda eða umráðamanni þess að leita leiða til að koma í veg fyrir slíkt.
Dýraeigendur eru ábyrgir fyrir því tjóni sem dýr þeirra sannanlega valda. Foreldrar eru ábyrgir fyrir dýri ólögráða barna sinna enda óheimilt að skrá það á annan en lögráða einstakling.
Óheimilt er að hleypa hundum, köttum og öðrum gæludýrum inn í opinberar stofnanir, skólahús, vatnsveitur, vatnsból og verndarsvæði þeirra, brunna og sjóveitur eða inn á aðra þá staði sem tilgreindir eru í 1. mgr. 43. gr. reglugerðar nr. 903/2024, um hollustuhætti, nema í þeim tilvikum sem eru tilgreind í 4. mgr. sömu greinar. Heimilt er þó að fara með dýr inn í íþróttamannvirki, heilbrigðisstofnanir, snyrtistofur og aðra starfsemi sem sérstaklega er ætluð dýrum. Óheimilt er að hleypa dýrum inn í húsnæði matvælafyrirtækja, sbr. reglugerð nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli, og inn í húsnæði vatnsveitna, sbr. reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn.
IV. KAFLI
Hundahald.
9. gr.
Skráning hunda.
Allir hundar eru skráningar- og leyfisskyldir hjá sveitarfélaginu og skal skrá þá á nafn og lögheimili lögráða umráðamanns í sveitarfélaginu. Viðkomandi einstaklingur er skráður umráðamaður hundsins og skal hundurinn haldinn á heimili hans. Að uppfylltum skilyrðum 5. gr. og öðrum ákvæðum samþykktar þessarar er gefið út leyfi. Útgefið leyfi er óframseljanlegt. Að jafnaði er ekki veitt leyfi fyrir fleiri en þrjá hunda á hvert heimili. Sé óskað eftir leyfi til að vera með fleiri en þrjá hunda á heimili skal fylgja rökstuðningur svo sem um ástæður, aðbúnað og færni umráðamanns til frekara hundahalds.
Skylt er að sækja um leyfi fyrir hundi til sveitarfélagsins, innan tveggja vikna frá því að hundur er tekinn inn á heimili. Sækja skal um leyfi fyrir hvolpum eigi síðar en þegar þeir ná fjögurra mánaða aldri.
Um gestkomandi hunda sem dvelja tímabundið í sveitarfélaginu, þ.e. minna en þrjá mánuði og óskráða hunda í sveitarfélaginu gilda öll ákvæði þessarar samþykktar. Dveljist hundur lengur í sveitarfélaginu en þrjá mánuði ber að skrá hann hjá sveitarfélaginu.
Við leyfisveitingu getur sveitarfélagið leitað umsagnar lögreglu, Matvælastofnunar og annarra stjórnvalda, telji það ástæðu til.
10. gr.
Bannaðar hundategundir.
Bannað er að halda hunda af þeim tegundum sem Matvælastofnun hefur bannað innflutning á, sbr. reglugerð nr. 935/2004, um innflutning gæludýra og hundasæðis, og reglugerð nr. 200/2020 um innflutning hunda og katta.
11. gr.
Skyldur umráðamanna hunda.
Skráðum umráðamanni hunds ber að sjá til þess að umhirða hundsins sé í samræmi við ákvæði laga nr. 55/2013, um velferð dýra.
Umráðamenn hunda skulu árlega greiða gjald fyrir hunda sína samkvæmt gjaldskrá sem sveitarfélagið setur í samræmi við ákvæði 59. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Aðeins er heimilt að tjóðra hunda utandyra í undantekningartilvikum og þá einungis undir eftirliti í stuttan tíma í senn, sbr. reglugerð nr. 80/2016, um velferð gæludýra. Þegar hundur er í festi á lóð skal lengd festarinnar við það miðuð að þeir sem eiga réttmætt erindi inn á lóðina geti óhindrað farið um lóðina.
Hundur skal aldrei ganga laus utan svæða sem eru þar til ætluð, heldur vera í taumi í fylgd með aðila sem hefur fullt vald yfir honum eða vera í tryggu gerði innan lóðar. Ef hundur sleppur skulu umráðamenn þegar gera ráðstafanir til að handsama hann.
Utan þéttbýlis er heimilt að sleppa hundi lausum undir eftirliti umráðamanns, án þess þó að gengið sé á rétt viðkomandi landeiganda. Sé hundur laus ber umráðamanni að tryggja að hann valdi ekki öðrum ónæði, skapi hættu eða óöryggi og hlýði innkalli.
Hundar á lögbýlum mega ganga frjálsir á landareign umráðamanna sinna. Að öðru leyti skulu þeir hundar háðir ákvæðum samþykktar þessarar.
Hafi umráðamaður hunds vitneskju um eða ástæðu til að ætla að hundurinn sé grimmur eða varasamur skal hann ávallt hafa hundinn mýldan utan heimilis.
Umráðamanni hunds ber að hlíta lögum og reglum sem varða hundahald sem og fyrirmælum sem heilbrigðisnefnd setur.
12. gr.
Lausaganga hunda.
Hund sem gengur laus á almannafæri er heimilt að handsama og færa í dýrageymslu á vegum sveitarfélagsins. Lesið skal af einstaklingsmerki og gera þegar ráðstafanir til að hafa uppi á umráðamanni hundsins.
Sé ekki leyfi fyrir hundinum í sveitarfélaginu er óheimilt að afhenda hann fyrr en hann hefur fengið leyfi hjá sveitarfélaginu í samræmi við 5. gr. samþykktarinnar. Ef hundur dvelur tímabundið í sveitarfélaginu er þó heimilt að afhenda hann gegn skuldbindingu eiganda um að hann verði færður úr sveitarfélaginu. Að fengnu leyfi fyrir hundinum eða skuldbindingu eiganda um að hann verði færður úr sveitarfélaginu, ásamt framvísun á staðfestingu greiðslu leyfis- og/eða handsömunargjalds auk annars áfallins kostnaðar vegna brotsins, sbr. gjaldskrá sveitarfélagsins, getur umráðamaður hundsins fengið hann afhentan.
Sé hundur með leyfi handsamaður skal strax tilkynna umráðamanni það og upplýsa hann um hvað vanræksla á að vitja hundsins getur haft í för með sér. Ef umráðamaður vitjar ekki dýrsins innan viku frá því að tilkynnt var um handsömun þess eða ef umráðamaður finnst ekki innan tveggja vikna er sveitarfélaginu heimilt að ráðstafa dýrinu eins og um hálfvillt dýr sé að ræða, sbr. ákvæði 24. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra. Áfallinn kostnaður greiðist af skráðum umráðamanni.
Hundur sem ekki er einstaklingsmerktur í samræmi við 22. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra, telst vera hálfvillt dýr. Komi til handsömunar á slíkum hundi er sveitarfélaginu heimilt að ráðstafa honum til nýs eiganda, selja hann gegn áföllnum kostnaði eða aflífa án bóta, þegar liðnir eru sjö sólarhringar frá handsömun.
13. gr.
Grimmir, varasamir og hættulegir hundar. Aflífun.
Hafi hundur bitið mann, skepnu eða gæludýr svo á sjái sem og ef hundur telst hættulegur skal hann handsamaður og hafður í vörslu sveitarfélagsins og heilbrigðisnefnd tilkynnt um atvikið.
Tjónþoli eða sveitarfélagið getur lagt fram kröfu til heilbrigðisnefndar um að hundurinn verði aflífaður eða honum fundin önnur úrræði. Óski hundaeigandi þess getur hann lagt fram álit sérfróðs aðila, dýralæknis eða hundaþjálfara sem heilbrigðisnefnd viðurkennir, áður en ákvörðun um afdrif hunds er tekin. Heilbrigðisnefnd úrskurðar um hvort aflífa skuli viðkomandi hund eða honum fundin önnur úrræði.
Meðan mál hunds er í skoðun er eiganda skylt að hafa hundinn í samþykktri dýrageymslu. Eigandi getur þó sótt um heimild til heilbrigðisnefndar til að hafa hundinn á heimili sínu meðan málið er í skoðun gegn skuldbindingu um að hafa hundinn ávallt mýldan þegar hann er utandyra.
Allur kostnaður vegna skapgerðarmats og vistunar hunds skal greiddur af eiganda.
V. KAFLI
Kattahald.
14. gr.
Skráning katta.
Allir kettir í þéttbýli eru leyfisskyldir.
Skylt er að sækja um leyfi til kattahalds í þéttbýli hjá sveitarfélaginu þar sem umráðamaður hefur lögheimili, innan tveggja vikna frá því að köttur er tekinn inn á heimili. Sækja skal um leyfi fyrir kettlingum eigi síðar en þegar þeir ná fjögurra mánaða aldri.
Ketti skal skrá á nafn og heimili lögráða umráðamanns sem hefur lögheimili í sveitarfélaginu og skal kötturinn haldinn á heimili hans. Útgefið leyfi er óframseljanlegt. Að jafnaði er ekki veitt leyfi fyrir fleiri en þrjá ketti á hvert heimili. Sé óskað eftir leyfi til að vera með fleiri en þrjá ketti á heimili, skal fylgja rökstuðningur svo sem um ástæður, aðbúnað og færni umsjónaraðila til frekara kattahalds.
Kattahald í dreifbýli sætir að öllu jöfnu ekki takmörkunum.
Við leyfisveitingu getur sveitarfélagið leitað umsagnar lögreglu, Matvælastofnunar og annarra stjórnvalda telji það ástæðu til.
15. gr.
Skyldur umráðamanna katta.
Umráðamönnum katta ber að sjá til þess að högnar sem ganga lausir séu geldir og að læður séu gerðar ófrjóar eða hafðar á getnaðarvarnapillu.
Umráðamönnum katta ber, eftir því sem framast er unnt, að sjá svo um að kettir þeirra valdi ekki hávaða, ónæði, óþrifnaði eða óhollustu.
Umráðamenn katta eru hvattir til að koma í veg fyrir að kettir þeirra séu á flækingi utandyra frá kl. 24.00 að nóttu til kl. 07.00 að morgni.
Umráðamönnum katta ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma, t.d. með því að takmarka útiveru þeirra eða halda þeim í taum og eftir atvikum hengja á þá bjöllu.
16. gr.
Föngun katta.
Ef köttur hverfur frá heimili sínu skal eigandi eða umráðamaður gera ráðstafanir til að finna köttinn. Sveitarstjórn er heimilt að láta fanga ketti í eftirfarandi tilfellum:
- ef köttur er ómerktur, hvort sem er án hálsólar og/eða varanlegs merkis,
- ef ítrekað er kvartað undan ágangi katta á tilteknu svæði,
- ef köttur finnst innandyra í leyfisleysi, á öðrum heimilum, á tímabundnum íverustað eða í fjöleignarhúsi, þar sem skortir tilskilið samþykki annarra íbúðareigenda, sbr. 5. gr.
Kettir sem fangaðir eru skulu færðir í dýrageymslu skv. 2. mgr. 6. gr. Merktum köttum sem ekki er kvartað yfir en lenda í búrum skal þó sleppa lausum og skráðum umráðamönnum tilkynnt um handsömunina og ástæður hennar.
Ef merktir kettir eru teknir úr umferð skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. skal það tilkynnt skráðum umráðamönnum. Komi ítrekað til handsömunar á merktum ketti vegna ónæðis telst það vera brot á samþykkt þessari. Ef umráðamaður vitjar ekki dýrsins innan viku frá því að tilkynnt var um handsömun þess eða ef umráðamaður finnst ekki innan tveggja vikna er sveitarfélaginu heimilt að ráðstafa dýrinu eins og um hálfvillt dýr sé að ræða, sbr. ákvæði 24. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra. Köttur, sem hefur verið handsamaður ítrekað, skal færður í dýrageymslu og því aðeins afhentur eiganda að öll skilyrði fyrir kattahaldi skv. 5. gr. séu uppfyllt. Kattareigandi ber allan kostnað af handsömun, vörslu og fóðrun kattarins, sem og aflífun hans ef til hennar kemur samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins. Köttur sem ekki er einstaklingsmerktur í samræmi við 22. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra, telst vera hálfvillt dýr. Í þeim tilvikum sem hálfvilltir kettir eru handsamaðir er sveitarfélaginu heimilt að ráðstafa kettinum til nýs eiganda, selja hann gegn áföllnum kostnaði eða aflífa án bóta eftir sjö sólarhringa frá handsömun.
Eigandi ómerkts kattar sem gefur sig fram skal því aðeins fá köttinn afhentan að fengnu leyfi, greiðslu skráningar- og árgjalds vegna hans og að uppfylltum öllum skilyrðum samþykktar þessarar til kattahalds.
17. gr.
Aðgerðir gegn hálfvilltum köttum.
Meiriháttar föngun hálfvilltra katta í þéttbýliskjörnum skal auglýsa með a.m.k. viku fyrirvara og með tilmælum um að köttum með leyfi frá sveitarfélaginu sé haldið innandyra. Eftir sjö sólarhringa frá handsömun er sveitarfélaginu heimilt að ráðstafa hálfvilltum ketti til nýs eiganda, selja hann gegn áföllnum kostnaði eða aflífa án bóta, sbr. ákvæði 24. gr. laga nr. 55/2013 um dýravelferð.
VI. KAFLI
Önnur gæludýr.
18. gr.
Gæludýr önnur en kettir og hundar.
Umráðamönnum gæludýra annarra en hunda og katta er skylt að koma í veg fyrir að dýr þeirra sleppi úr haldi. Gerist það skal þegar gera ráðstafanir til að handsama dýrið.
Umráðamenn gæludýra sem haldin eru utandyra, svo sem kanína eða annarra nagdýra, skulu sjá til þess að dýrin valdi ekki nágrönnum ama svo sem með hávaða eða óhreinindum. Skulu þeir tryggja að dýrin geti ekki nagað sig út úr búri eða aðhaldi.
Kanínur skulu einstaklingsmerktar skv. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra.
Ómerktar kanínur eru skilgreindar sem hálfvillt dýr, við handsömun er sveitarfélaginu heimilt að ráðstafa hálfvilltum kanínum til nýs eiganda, selja fyrir áföllnum kostnaði eða aflífa án bóta.
VII. KAFLI
Önnur ákvæði.
19. gr.
Þvingunarúrræði og afturköllun leyfa.
Um valdsvið og þvingunarúrræði fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Eigendur eða umráðamenn dýra sem brjóta gegn ákvæðum samþykktar þessarar skulu jafnan sæta skriflegri áminningu og þeim gefinn hæfilegur frestur til úrbóta.
Sveitarstjórn er heimilt að afturkalla skráningu dýra ef skyldur til að ábyrgðartryggja dýr eða greiðslu árgjalds eru vanræktar, sem og ef eigandi hefur brotið gegn samþykkt þessari að öðru leyti. Einnig er heimilt að afturkalla allar skráningar telji sveitarfélagið það nauðsynlegt í þágu hollustuhátta og öryggis. Jafnframt getur sveitarfélagið, telji það og héraðsdýralæknir brýna þörf á, af sömu ástæðu bannað eða takmarkað gæludýrahald í dreifbýli.
Ef eigandi eða umráðamaður dýrs vanrækir skyldur sínar eða brýtur ítrekað eða alvarlega gegn ákvæðum samþykktar þessarar eða öðrum reglum sem gilda um dýrahald getur sveitarstjórn bannað eða takmarkað rétt viðkomandi að halda dýr og látið fjarlægja dýrið.
Eiganda dýrs er skylt að greiða kostnað sem leiðir af brotum á samþykkt þessari.
20. gr.
Viðurlög og kæruheimild.
Um viðurlög vegna brota á samþykkt þessari fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Um kæruheimildir fer samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.
21. gr.
Gildistaka.
Samþykkt þessi staðfestist hér með skv. 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi samþykktir nr. 1234/2020 um hundahald í Dalvíkurbyggð og nr. 1361/2019 um kattahald í Dalvíkurbyggð.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 6. nóvember 2024.
F. h. r.
Erla Arnardóttir.
Trausti Ágúst Hermannsson.
|