Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 86/2023

Nr. 86/2023 27. nóvember 2023

LÖG
um breytingu á lögum um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003 (skipulag o.fl.).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:

  1. Á eftir orðinu „áhafna“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: og siglingavernd.
  2. Á eftir h-lið 1. mgr. koma tveir nýir stafliðir, svohljóðandi, og breytist röð annarra stafliða samkvæmt því:
    1. móttöku upplýsinga um úrgang og farmleifar skipa,
    2. vöktun og greiningu verndarupplýsinga í tilkynningum í SafeSeaNet-kerfinu.
  3. 2. mgr. orðast svo:
        Ef tilkynning berst ekki frá skipi á reglulegum tíma eða ef vaktstöð siglinga berast upp­lýsingar sem gefa tilefni til að ætla að ástæða sé til eftirgrennslunar, leitar eða björgunar skipa í íslenskri lögsögu skal hún þegar tilkynna Landhelgisgæslu Íslands um málið og skal Landhelgisgæsla Íslands, ef þörf krefur, virkja alla þá aðila sem lögum samkvæmt sjá um leit og björgun, þ.m.t. viðeigandi björgunarsveitir eftir atvikum.
  4. 3. mgr. orðast svo:
        Vegagerðinni er heimilt að fela Landhelgisgæslu Íslands að annast tiltekin verkefni vakt­stöðvar siglinga samkvæmt lögum þessum. Vegagerðinni er jafnframt heimilt að gera þjón­ustu­samning við aðra aðila um einstaka þætti reksturs vaktstöðvar siglinga.

 

2. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

    Farþegaskip, 300 brúttótonn að stærð og stærri, sem sigla milli íslenskra hafna, skulu tilkynna vaktstöð siglinga um áætlaða leið að næstu höfn með tilteknum fyrirvara. Jafnframt skulu þau með tilteknum fyrirvara tilkynna vaktstöðinni þegar þau hyggjast setja farþega í land utan hafna. Ráðherra skal með reglugerð mæla nánar fyrir um tilkynningarskyldu.

 

3. gr.

    Á eftir 1. mgr. 17. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

    Ráðherra er enn fremur heimilt að setja reglugerðir um tilkynningarskyldu, hvort sem er vegna komu til hafnar eða brottfarar frá höfn, sem og um form tilkynninga, að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993.

 

4. gr.

    Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein, 18. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Stjórnvaldssektir.

    Vegagerðin getur lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn eða uppfyllir ekki skilyrði eftirfarandi ákvæða og reglna sem settar eru samkvæmt þeim:

  1. 1. mgr. 7. gr. um tilkynningu um komu áður en haldið er til hafnar,
  2. 2. mgr. 7. gr. um tilkynningu um áætlaða leið að næstu höfn,
  3. 8. gr. um tilkynningu um komu með hættulegan eða mengandi varning,
  4. 1. mgr. 13. gr. um leiðsögu skipa og leiðarstjórnun,
  5. 2. mgr. 16. gr. c um afhendingu upplýsinga um komu og brottfarir skipa.

    Landhelgisgæslu Íslands er heimilt að leggja á stjórnvaldssektir skv. 1. mgr. hafi henni verið falin tiltekin verkefni í samræmi við 3. mgr. 2. gr.

    Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 25 þús. kr. til 200 þús. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 25 þús. kr. til 500 þús. kr.

    Við ákvörðun um fjárhæð sekta skal m.a. taka tillit til þess hve lengi brot hefur staðið yfir, samstarfsvilja hins brotlega, hvort brot var framið af ásetningi eða gáleysi og hvort um ítrekað brot er að ræða. Vegagerðinni, og eftir atvikum Landhelgisgæslu Íslands, er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili hagnast á broti. Skal upphæð stjórnvaldssektar þá ákveðin sem allt að tvöfalt margfeldi af þeim hagnaði sem aðili hefur aflað sér með broti gegn lögum þessum.

    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Sé gjaldið ekki greitt innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti skv. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð sem gjaldfallin er frá gjalddaga.

    Ákvörðun um stjórnvaldssekt er aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar. Stjórnvaldssektir renna í ríkissjóð, að frádregnum kostnaði við innheimtu.

    Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

    Aðili máls getur skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til ráðherra sem fer með samgöngumál innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málskot til ráðherra frestar aðför. Úrskurðir ráðherra um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfir.

 

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

Gjört í Reykjavík, 27. nóvember 2023.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Sigurður Ingi Jóhannsson.


A deild - Útgáfud.: 7. desember 2023