Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1212/2020

Nr. 1212/2020 26. nóvember 2020

REGLUR
um verðmerkingar og verðsamanburð á orkugjöfum fyrir bifreiðar.

I. KAFLI

Markmið og orðskýringar.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglna þessara er að tryggja neytendum skýrar upplýsingar um verð á orkugjöfum fyrir bifreiðar. Einnig er markmið þeirra að veita neytendum verðsamanburð mismunandi orkugjafa fyrir bifreiðar með því að birta verðsamanburð á milli mismunandi tegunda orkugjafa á hverja 100 km. Loks er markmið reglna þessara að auðvelda neytendum að gera greinarmun á mismunandi orkugjöfum með myndrænni framsetningu á orku­gjöfum á áfyllingar- og hleðslustöðvum, áfyllingar- eða hleðslulokum og handbókum bifreiða.

 

2. gr.

Orðskýringar.

Merking hugtaka í reglum þessum er sem hér segir:

Áfyllingar- eða hleðslustöð: Aðstaða þar sem áfylling orkugjafa fyrir bifreiðar fer fram af hvaða tagi sem er, með föstum eða hreyfanlegum búnaði.

Einingarverð: Endanlegt verð í íslenskum krónum, að meðtöldum virðisauka­skatti og öðrum sköttum eða opinberum gjöldum, svo sem fyrir einn lítra, eitt kílógramm, eina kílóvattstund eða aðra einingu sem leyft er að lögum eða reglum fyrir viðkomandi vöru.

Orkugjafi: Hefðbundinn sem og óhefðbundinn orkugjafi.

Hefðbundinn orkugjafi: Til hefðbundins orkugjafa teljast bensín og dísilolía.

Óhefðbundinn orkugjafi: Eldsneyti eða orkugjafar, sem koma a.m.k. að hluta til í stað jarðefna­eldsneytis sem orkugjafi fyrir bifreiðar og sem geta hugsanlega stuðlað að minnkun kolefnislosunar og bætt árangur í umhverfismálum. Til óhefðbundins orkugjafa telst m.a.:

raforka,
vetni,
lífeldsneyti eins og það er skilgreint í i-lið 2. gr. tilskipunar 2009/28/EB,
tilbúið eldsneyti og paraffinskt eldsneyti,
jarðgas, þ.m.t. lífmetan, í loftkenndu formi (þjappað jarðgas (CNG) og fljótandi formi (fljótandi jarðgas (LNG)) og
fljótandi jarðolíugas (LPG).

Sölustaður: Staður þar sem neytendur geta dælt eða hlaðið hefðbundnum sem og óhefð­bundnum orkugjafa á bifreið sína, óháð rekstrarformi og óháð því hvort áfyllingar- og/eða hleðslu­stöðvar á sölustaðnum eru starfræktar af einum eða fleiri seljendum.

 

II. KAFLI

Verðmerkingar á orkugjöfum fyrir bifreiðar.

3. gr.

Gildissvið.

Kafli þessi tekur til seljenda hefðbundinna sem og óhefðbundinna orkugjafa fyrir bifreiðar til neytenda. Hann kveður á um skyldu seljenda til að verðmerkja og upplýsa neytendur um einingar­verð á áfyllingar- og/eða hleðslustöðvum.

 

4. gr.

Verðmerkingar.

Skylt er að verðmerkja orkugjafa fyrir bifreiðar með einingarverði við áfyllingar- og/eða hleðslu­stöð svo auðvelt sé fyrir neytendur að sjá verðið fyrirfram. Verðupplýsingar skulu vera skýrar og auðlæsilegar.

 

5. gr.

Verðskilti.

Á sölustöðum hefðbundinna orkugjafa sem selja eina milljón lítra eða meira á ári skal auk almennra verðmerkinga vera verðskilti. Staðsetning verðskiltis skal vera þannig að verð á þeim tegundum hefðbundinna orkugjafa sem í boði eru á sölustaðnum sjáist auðveldlega úr bifreið þegar hún nálgast sölustaðinn.

Sölustaðir hefðbundinna orkugjafa sem selja minna magn en um getur í 1. mgr. en vilja verð­merkja með skilti skulu fara eftir 4. og 5. gr. reglna þessara.

 

6. gr.

Verð á verðskilti.

Uppgefið verð á verðskilti skv. 4. gr. skal miðast við lægsta verð á sölustað. Verðið skal standa öllum neytendum til boða. Efst á verðskiltinu skal skrá verð á 95 oktana bensíni en neðst skal skrá verð á dísilolíu.

 

III. KAFLI

Samanburður á einingarverði orkugjafa fyrir bifreiðar.

7. gr.

Gildissvið.

Kafli þessi tekur til sölustaða orkugjafa fyrir bifreiðar þar sem seldar eru að minnsta kosti þrjár tegundir orkugjafa, þar af að minnsta kosti ein tegund óhefðbundins orkugjafa. Hann kveður á um skyldur þessara aðila til að birta verðsamanburð milli meðalverðs mismunandi tegunda orkugjafa fyrir hverja 100 km.

Neytendastofa getur veitt mannlausum áfyllingarstöðum undanþágu frá reglum þessum ef sér­stakar aðstæður eru fyrir hendi.

 

8. gr.

Upplýsingar um verðsamanburð.

Sölustaðir skv. 7. gr. skulu birta með áberandi hætti verðsamanburð milli eftirtalinna orkugjafa: bensín, dísilolía, rafmagn á hleðslustöð, rafmagn á heimili, metan og vetni. Skal verðsamanburður­inn miða við hefðbundnar fólksbifreiðar. Bifreiðarnar skulu vera sambærilegar að stærð og afli eins og kostur er.

Sölustaðir geta notast við upplýsingar og framsetningu verðsamanburðar eins og það er birt hjá Orkusetri hverju sinni.

 

9. gr.

Útreikningur fyrir samanburð á einingarverði orkugjafa.

Verð fyrir hverja tegund orkugjafa skal gefið upp í íslenskum krónum á hverja 100 km. Skal það reiknað á eftirfarandi hátt:

Einingarverð viðkomandi orkugjafa × orkunotkun á hverja 100 km.

 

10. gr.

Nánar um útreikninginn.

Verð orkugjafa skal vera meðaltal á markaðsverði viðeigandi orkugjafa sem samsvarar að hámarki síðasta almanaksársfjórðungi áður en útreikningur fór fram.

Orkunotkun skal vera byggð á meðaleyðslu samkvæmt WLTP prófunum að minnsta kosti þriggja söluhæstu bifreiðategunda í hverjum orkuflokki frá síðastliðnu ári.

Ef upplýsingar um meðaleyðslu skortir varðandi eina eða fleiri tegundir bifreiða af þeim þremur söluhæstu má nota upplýsingar frá næstu tegund bifreiða þar á eftir. Ef færri en þrjár tegundir bifreiða hafa verið seldar í sínum orkuflokki skal meðaleyðsla reiknuð út frá þeim fjölda tegunda bifreiða sem seldar voru.

 

11. gr.

Framsetning upplýsinga um verðsamanburð.

Upplýsingarnar skulu bera yfirskriftina: „Samanburður á meðalverði orkugjafa fyrir hverja 100 km.“

Verð skal birt í töfluformi í eftirfarandi röð: bensín, dísilolía, rafmagn á hleðslustöð, rafmagn á heimili, metan og vetni.

Neðst skal birta hlekk á vefsíðu Orkuseturs eða aðra tilvísun til þeirra upplýsinga sem stuðst er við á upplýsingaskilti. Jafnframt skal koma fram það tímabil sem upplýsingarnar miðast við.

 

IV. KAFLI

Merkingar á áfyllingar- og hleðslustöðvum og áfyllingar- eða
hleðslulokum auk handbóka bifreiða.

12. gr.

Gildissvið.

Kafli þessi tekur annars vegar til seljenda orkugjafa og hins vegar til framleiðenda, seljenda og þeirra sem gera breytingar á orkugjafa bifreiða. Hann kveður á um skyldu til myndmerkinga á áfyllingar- og hleðslustöðvum sem og á áfyllingar- eða hleðslulokum auk handbóka bifreiða.

 

13. gr.

Merkingar á áfyllingar- og hleðslustöðvum.

Á öllum sölustöðum orkugjafa fyrir bifreiðar, frá þeim degi sem áfyllingar- eða hleðslustöð er tekin í notkun, skal með áberandi hætti merkja áfyllingar- og hleðslustöðvar sem og stúta með viðeigandi merkjum sem gefa til kynna hvers konar orkugjafa þær innihalda. Merkingar skulu vera í samræmi við staðal ÍST EN 16942:2016 – Eldsneyti – Tilgreining á samhæfi – Myndræn framsetning upp­lýs­inga fyrir neytendur eða staðal ÍST EN 17186:2019 – Identification of vehicles and infra­structures compatibility – Graphical expression for consumer information on EV power supply, eftir því sem við á.

 

14. gr.

Merkingar á bifreiðum og handbókum bifreiða.

Framleiðendur, seljendur og þeir sem gera breytingar á orkugjafa bifreiðar skulu ganga úr skugga um að merkingar séu á áfyllingarloki, eða mjög nálægt því, á öllum bifreiðum sem gefur til kynna hvers konar orkugjafi hentar umræddri bifreið.

Handbækur bifreiða skulu innihalda merkingar sem gefa til kynna hvers konar orkugjafi hentar umræddri bifreið.

Merkingar skulu vera í samræmi við staðal ÍST EN 16942:2016 – Eldsneyti – Tilgreining á samhæfi – Myndræn framsetning upplýsinga fyrir neytendur eða staðal ÍST EN 17186:2019 – Identi­fi­cation of vehicles and infrastructures compatibility – Graphical expression for consumer inform­ation on EV power supply, eftir því sem við á.

 

V. KAFLI

Eftirlit, málsmeðferð, viðurlög og gildistaka.

15. gr.

Eftirlit.

Neytendastofa fer með eftirlit með reglum þessum og beitir viðurlögum þegar það á við, sbr. 16. gr.

 

16. gr.

Málsmeðferð og viðurlög.

Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Ef brotið er í bága við reglur þessar varðar það viðurlögum samkvæmt 21. gr. c., 22. gr. og 26. gr. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

 

17. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem innleiða 7. gr. tilskipunar 2014/94/ESB og reglugerð (ESB) 2018/732, eru settar með heimild í 17. og 18. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðs­setningu. Jafnframt eru felldar úr gildi reglur nr. 385/2007, um verðmerkingar á bifreiðaeldsneyti.

Reglur þessar öðlast gildi 7. desember 2020.

 

Neytendastofu, 26. nóvember 2020.

 

Þórunn A. Árnadóttir.

Matthildur Sveinsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 4. desember 2020