Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1145/2024

Nr. 1145/2024 16. október 2024

REGLUGERÐ
um Afurðasjóð Grindavíkurbæjar.

I. KAFLI

Um sjóðinn.

1. gr.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins.

 

2. gr.

Afurðasjóður Grindavíkurbæjar lýtur stjórn þriggja manna sem ráðherra skipar til tveggja ára í senn, einn samkvæmt tilnefningu forsætisráðherra, einn samkvæmt tilnefningu ráðherra sem fer með opinber fjármál og einn án tilnefningar sem vera skal formaður.

Ef verkefnum sjóðsins lýkur innan skipunartímabils stjórnarmanna fellur skipunin niður og sjóðnum verður slitið.

 

3. gr.

Stjórn sjóðsins skilar ársreikningi og reglulegu yfirliti um starfsemi sjóðsins til ráðherra.

Stjórn metur og tekur ákvarðanir um afgreiðslu umsókna og styrkveitinga.

 

4. gr.

Tekjur Afurðasjóðs Grindavíkurbæjar eru framlag ríkissjóðs eftir því sem nánar er kveðið á um í fjár­lögum eða millifærslur úr almennum varasjóði fjárlaga, þó aldrei umfram 400 millj. kr.

Kostnaður af rekstri sjóðsins greiðist af tekjum hans.

 

5. gr.

Stjórn Afurðasjóðs Grindavíkurbæjar er heimilt að gera samning við þriðja aðila um umsýslu sjóðsins. Stjórn getur falið umsýsluaðila að sjá um fjárreiður, reikningshald og uppgjör sjóðsins og að vera í fyrirsvari fyrir sjóðinn vegna þess á ábyrgð og í umboði stjórnar. Umsýsluaðili sér um að boða stjórnarfundi og að undirbúa fundarmál í umboði stjórnarformanns.

 

II. KAFLI

Styrkveitingar.

6. gr.

Hlutverk Afurðasjóðs Grindavíkurbæjar er að veita rekstraraðilum sem falla undir gildissvið laga um Afurðasjóð Grindavíkurbæjar, nr. 74/2024, um fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar óbeint tjón á matvælum og fóðri í eigu rekstraraðila af völdum náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, þ.m.t. tjón vegna rýmingaraðgerða stjórnvalda sem tengjast hamförunum.

Fjárhagsaðstoð vegna tjóns skv. 1. mgr. verður aðeins veitt hafi tjón orðið innan sveitarfélagsins Grindavíkurbæjar eins og það var skilgreint í aðalskipulagi sveitarfélagsins við gildistöku laga um Afurðasjóð Grindavíkurbæjar nr. 74/2024.

Ekki verður veitt fjárhagsaðstoð vegna tjóns sem nýtur almennrar tryggingaverndar eða hægt er að fá bætt á annan hátt, t.d. á grundvelli laga um Náttúruhamfaratryggingu Íslands, nr. 55/1992, laga um Bjargráðasjóð, nr. 49/2009, eða á annan sambærilegan hátt.

Ekki verður veitt fjárhagsaðstoð vegna tjóns ef um ásetning eða gáleysi eiganda eða umsjónar­manns er að ræða og ef eðlilegar varnir hafa ekki verið viðhafðar til að varna tjóni. Eigendur eða umsjónarmenn skulu með hliðsjón af aðstæðum í Grindavíkurbæ hverju sinni grípa til viðeigandi ráðstafana, sem með sanngirni er unnt að ætlast til af þeim, til að fyrirbyggja eða takmarka tjón, m.a. með takmörkun birgðahalds og gerð flutningsáætlana.

 

7. gr.

Stjórn sjóðsins leggur mat á styrkhæfi tjóns og ákveður styrkhlutfall. Stjórn sjóðsins er heimilt að ákveða styrkhlutfall og taka í því efni m.a. mið af rekstraráhættu, stærð félaga og umfangi tjóns. Eigin áhætta rekstraraðila er 10% af umfangi tjóns.

Stjórn sjóðsins er heimilt að setja sér nánari vinnureglur um veitingu styrkja. Setji stjórn sjóðsins slíkar reglur skulu þær birtar á heimasíðu sjóðsins. Þá getur stjórn sett sérstakar reglur um ein­staka atburði þegar það á við og skulu þær birtar á heimasíðu sjóðsins.

Stjórn getur falið umsýsluaðila samkvæmt 5. gr. að undirbúa og gera tillögu til stjórnar um afgreiðslu einstakra umsókna. Umsýsluaðili skal þá haga meðferð og undirbúningi mála í samræmi við þessa reglugerð og ofangreindar vinnureglur um veitingu styrkja, ef þær hafa verið settar skv. 2. mgr.

Styrkveitingar takmarkast við þær fjárhæðir sem stjórn sjóðsins ákveður hverju sinni í samræmi við fjárhag og stöðu sjóðsins.

 

8. gr.

Við mat á tjóni skal taka mið af ástandi og raunverulegu verðmæti hins skemmda þegar tjónið varð. Stjórn er heimilt að leita til sérfróðra aðila til að leggja mat á umfang tjóns og verðmæti hins skemmda. Kostnaður við slíkt mat greiðist af sjóðnum.

 

9. gr.

Ákvarðanir stjórnar eru endanlegar á stjórnsýslustigi. Um málsmeðferð við ákvarðanir um veitingu styrkja gilda ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

 

III. KAFLI

Umsóknir.

10. gr.

Umsókn um styrk skal berast Afurðasjóði Grindavíkurbæjar svo fljótt sem kostur er í kjölfar tjóns en eigi síðar en innan tveggja mánaða frá tjónsatburði. Umsókn skal vera skrifleg. Heimilt er að skilyrða að umsókn sé skilað í rafrænu umsóknarkerfi eða á eyðublöðum sem sjóðurinn gefur út. Ef vettvangi er spillt áður en sjóðnum gefst kostur á að leggja mat á tjónið skal stjórn synja umsókn.

 

11. gr.

Í umsókn skal koma fram hvert tjónið er og upplýsingar um umfang þess. Sjóðurinn getur krafist frekari gagna og upplýsinga frá umsækjanda sjálfum eða öðrum sem slíkar upplýsingar geta veitt ef ástæða þykir til. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til afhendingar nauðsyn­legra upplýsinga og gagna sem heimilt er að krefja einstaklinga, lögaðila og stjórnvöld um, þ.m.t. skatt­yfirvöld.

 

12. gr.

Umsækjanda skal veittur hæfilegur frestur til að útvega þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að taka afstöðu til styrkumsóknar. Ef umsækjandi veitir sjóðnum ekki umbeðnar upp­lýsingar innan tilskilins frests, þrátt fyrir leiðbeiningar þess efnis, skal stjórn synja umsókn enda hafi umsækjandi verið upplýstur um afleiðingar þess að verða ekki við beiðni sjóðsins.

 

IV. KAFLI

Gildistaka.

13. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 10. gr. laga um Afurðasjóð Grindavíkurbæjar nr. 74/2024. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

 

Matvælaráðuneytinu, 16. október 2024.

 

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

Kolbeinn Árnason.


B deild - Útgáfud.: 17. október 2024