Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 150/2017

Nr. 150/2017 8. febrúar 2017

REGLUR
um framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna fjármálafyrirtækja.

I. KAFLI

Almennt.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um framkvæmdastjóra og stjórnarmenn fjármálafyrirtækja. Með framkvæmda­stjóra er átt við einstakling sem stjórn fjármálafyrirtækis ræður til þess að standa fyrir rekstri þess í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga eða laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, burtséð frá starfsheiti að öðru leyti, sbr. 6. tölul. 1. gr. a laga nr. 161/2002. Með stjórnarmönnum er átt við aðal­menn og varamenn í stjórn.

2. gr.

Hæfi.

Framkvæmdastjórar og stjórnarmenn skulu uppfylla þær hæfiskröfur sem gerðar eru til þeirra í lögum um fjármálafyrirtæki.

3. gr.

Tilkynning um nýja framkvæmdastjóra eða stjórnarmenn.

Fjármálafyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu fyrirfram, ef hægt er, um skipan og síðari breyt­ingar á framkvæmdastjóra og stjórn. Skila skal til Fjármálaeftirlitsins eftirfarandi gögnum eigi síðar en fjórum vikum eftir kosningu nýrra stjórnarmanna eða ráðningu framkvæmdastjóra:

Upplýsingagjöf framkvæmdastjóra og stjórnarmanna eftirlitsskyldra aðila samkvæmt spurningalista Fjármálaeftirlitsins.

Upplýsingum um fjárhagsstöðu, ef við á, m.a. um heildareignir, skuldir yfir 2 milljónum króna, tekjur, gjöld, ábyrgðir, veðsetningu eigna til þriðja aðila, vanskil og annað sem framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður telur að skipt geti máli við mat á fjárhagslegu sjálfstæði samkvæmt eyðublaði Fjármálaeftirlitsins.

Fjármálaeftirlitið getur óskað eftir frekari gögnum en að framan greinir ef það er nauðsynlegt vegna mats á hæfi aðila.

Ef upplýsingar samkvæmt framangreindu eru ófullnægjandi að mati Fjármálaeftirlitsins getur það leitt til þess að ekki verði unnt að leggja mat á hæfi aðila og fer um það samkvæmt 17. gr. reglna þessara.

II. KAFLI

Hæfisskilyrði.

4. gr.

Mat á hæfi.

Mat á hæfi felst annars vegar í yfirferð yfir skrifleg gögn og hins vegar munnlegu hæfismati þegar það á við, sbr. IV. og V. kafla reglna þessara.

Yfirferð yfir skrifleg gögn, sbr. I. kafla reglna þessara, felst í athugun á því hvort aðili uppfylli m.a. skilyrði 52. gr. og 52. gr. a laga um fjármálafyrirtæki um:

  1. búsetu,
  2. lögræði,
  3. gott orðspor,
  4. að hafa ekki á síðustu fimm árum verið úrskurðaður gjaldþrota,
  5. að hafa ekki á síðustu 10 árum hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnu­rekstur,
  6. fjárhagslegt sjálfstæði,
  7. reynslu og þekkingu eða hafa lokið námi sem nýtist í starfi,
  8. þekkingu á þeirri starfsemi sem viðkomandi fjármálafyrirtæki stundar, þ.m.t. áhættuþáttum og
  9. að ekki séu til staðar þær aðstæður sem kveðið er á um í 1. mgr., sbr. þó 2. og 3. mgr. 52. gr. a laga um fjármálafyrirtæki.

5. gr.

Dómur í tengslum við atvinnurekstur.

Framkvæmdastjórar og stjórnarmenn mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu 10 árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnis­lögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikn­inga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um gjaldeyris­mál, svo og sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármála­starfsemi.

Með dómi í tengslum við atvinnurekstur er átt við að aðili hafi sem starfsmaður, stjórnarmaður, eigandi, verktaki eða vegna annarra tengsla við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt þeim lögum sem tilgreind eru í 1. mgr.

6. gr.

Reynsla og þekking eða menntun.

Framkvæmdastjórar og stjórnarmenn skulu hafa yfir að ráða reynslu og þekkingu eða hafa lokið námi sem nýtist í starfi.

Framkvæmdastjórar og stjórnarmenn skulu jafnframt búa yfir nægilegri reynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt, m.a. hafa þekkingu á þeirri starfsemi sem viðkomandi fjár­mála­fyrirtæki stundar, þ.m.t. áhættuþáttum.

Með námi sem nýtist í starfi er átt við að aðili hafi aflað sér fræðilegrar þekkingar sem tengist starf­semi, uppbyggingu eða rekstri fyrirtækja.

Við mat á nægilegri reynslu og þekkingu er jafnframt höfð hliðsjón af tegund og umfangi reksturs þess fjármálafyrirtækis sem um ræðir.

7. gr.

Gott orðspor.

Framkvæmdastjórar og stjórnarmenn skulu hafa gott orðspor.

Við mat á góðu orðspori er litið til þess hvort framkvæmdastjórar og stjórnarmenn hafi sýnt af sér háttsemi, athöfn eða athafnaleysi, sem gefur tilefni til að draga í efa hæfni þeirra til að standa fyrir traustum og heilbrigðum rekstri eða að líkur séu til að þeir muni misnota aðstöðu sína eða skaða fjármálafyrirtækið.

Við matið er einnig litið til háttsemi aðila sem kynni að rýra trúverðugleika hans og skaða orðspor fjármálafyrirtækisins ef opinber væri. Í því sambandi koma m.a. til skoðunar fyrri afskipti Fjár­mála­eftirlitsins vegna starfa aðila eða vegna starfshátta eftirlitsskylds aðila sem hann var í forsvari fyrir eða bar ábyrgð á og hvort fyrri háttsemi hafi gefið tilefni til ávirðinga á hendur aðila.

8. gr.

Mat á hagsmunaárekstrum.

Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis mega hvorki eiga sæti í stjórn annars eftirlitsskylds aðila eða aðila sem er í nánum tengslum við hann né vera starfsmenn eða endurskoðendur annars eftirlitsskylds aðila eða aðila í nánum tengslum við hann.

Náin tengsl teljast vera til staðar þegar einstaklingar og/eða félög tengjast með einhverjum eftir­farandi hætti:

  1. með hlutdeild í formi beins eignarréttar eða yfirráðum sem nemur 20% eða meira af hlutafé, stofnfé eða atkvæðavægi félags,
  2. með yfirráðum eða
  3. með varanlegum tengslum þeirra við sama þriðja aðila í gegnum yfirráðatengsl.

Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis mega einungis sinna þeim lögmannsstörfum fyrir annað fjármála­fyrirtæki sem ekki geta valdið hættu á hagsmunaárekstrum á milli félaganna tveggja eða á fjármála­markaði.

Starfsmönnum fjármálafyrirtækis er ekki heimilt að sitja í stjórn viðkomandi fjármálafyrirtækis.

Stjórnarmaður eða starfsmaður fjármálafyrirtækis getur tekið sæti í stjórn annars fjármála­fyrirtækis, vátryggingafélags eða fjármálasamsteypu eða aðila í nánum tengslum við framan­greinda aðila ef um er að ræða félag sem er að hluta eða öllu leyti í eigu fjármála­fyrirtækis­ins eða félag sem er að hluta eða öllu leyti í eigu félags með yfirráð í fjármála­fyrirtæk­inu. Sama gildir um lögmann móðurfélags. Stjórnarsetan er háð því að hún skapi ekki að, mati Fjármála­eftirlitsins, hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði.

Við mat á hagsmunaárekstrum er m.a. litið til eignarhalds aðila og tengsla félagsins við aðra aðila á fjármálamarkaði og hvort tengslin geti skaðað heilbrigðan og traustan rekstur fjármálafyrirtækisins. Þá er við matið litið til þess hvort fyrirtækin hafi sömu starfsheimildir en hætta á hagsmuna­árekstrum getur skapast ef þau teljast í samkeppni.

III. KAFLI

Mat á fjárhagslegu sjálfstæði.

9. gr.

Fjárhagslegt sjálfstæði.

Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar fjármálafyrirtækja skulu vera fjárhagslega sjálfstæðir. Við mat á fjárhagslegu sjálfstæði er litið til eftirfarandi atriða:

  1. Að eiginfjárstaða sé jákvæð.
  2. Að tekjur standi undir afborgunum af skuldum og framfærslu.
  3. Að skuldir, ábyrgðir gagnvart þriðja aðila og veðsetning eigna séu ekki þess eðlis að efast megi um óhæði gagnvart lánveitanda/kröfuhafa og það sé líklegt til að hafa áhrif á störf hans í viðkomandi fjármálafyrirtæki. Við mat á því hvort aðili teljist háður öðrum er horft til þess hvort skuldbindingin, með hliðsjón af árstekjum, teljist veruleg. Undanskildar skuld­bind­ingar samkvæmt þessum lið eru hefðbundin lán sem standa almenningi til boða t.d. íbúðalán, bílalán og námslán.
  4. Annarra atriða en að framan greinir er varða fjárhagsstöðu eða fjárhagsskuldbindingar og máli geta skipt að mati Fjármálaeftirlitsins.

10. gr.

Mat á fjárhagslegu sjálfstæði.

Aðili telst fjárhagslega sjálfstæður ef hann uppfyllir skilyrði allra stafliða 9. gr.

Ef aðili uppfyllir ekki skilyrði a- eða b-liðar 9. gr. er litið til eiginfjárstöðu og tekju- og greiðsluflæðis til framtíðar með tilliti til þess hvort aðili geti staðið við skuldbindingar sínar.

Við mat á c-lið 9. gr. er litið til þess hvort líkur séu til þess að aðili yrði ítrekað vanhæfur til að taka þátt í afgreiðslu mála að teknu tilliti til ákvæða laga, reglna og annarra viðmiða þar að lútandi, sbr. 72. gr. laga um hlutafélög og 55. gr. laga um fjármálafyrirtæki, eftir því sem við á.

Með öðrum atriðum skv. d-lið 9. gr. er átt við atriði sem hafa veruleg áhrif á fjárhagslegt sjálfstæði aðila, þ. á m. atriða sem leiða til ítrekaðs vanhæfis aðila, sbr. 3. mgr.

IV. KAFLI

Munnlegt hæfismat framkvæmdastjóra.

11. gr.

Munnlegt hæfismat framkvæmdastjóra.

Framkvæmdastjóri skal undirgangast hæfismat innan sex vikna frá því að Fjármálaeftirlitið hefur lokið yfirferð skriflegra gagna samkvæmt II. og III. kafla reglna þessara.

Munnlegu hæfismati er ætlað að kanna hvort framkvæmdastjóri búi yfir nægilegri þekkingu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt. Í munnlegu hæfismati er m.a. könnuð þekking aðila á þeirri starfsemi sem viðkomandi fjármálafyrirtæki stundar, þekking á lögum og reglum á fjár­mála­markaði, reikningsskilum, endurskoðun og almennum viðskiptalegum og stjórnunarlegum þáttum.

Við framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra getur Fjármálaeftirlitið notið aðstoðar utanað­komandi aðila, s.s. við mat á þekkingu aðila.

12. gr.

Boðun framkvæmdastjóra í munnlegt hæfismat.

Til hæfismats skal boðað skriflega með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara og tilgreina hvaða efni verður til umræðu. Boðuðu hæfismati verður ekki frestað nema sýnt sé fram á að ríkar ástæður liggi fyrir og almennt ekki lengur en um eina viku.

13. gr.

Niðurstaða munnlegs hæfismats framkvæmdastjóra.

Fjármálaeftirlitið leggur mat á hvort framkvæmdastjóri hafi í munnlegu hæfismati sýnt fram á nægi­lega þekkingu til að geta gegnt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt.

Fjármálaeftirlitið tilkynnir framkvæmdastjóra og stjórn viðkomandi fjármálafyrirtækis skriflega um niðurstöðu hæfismats innan tveggja vikna frá framkvæmd þess.

14. gr.

Endurtekning munnlegs hæfismats framkvæmdastjóra.

Hafi framkvæmdastjóri að mati Fjármálaeftirlitsins ekki sýnt fram á fullnægjandi þekkingu á því efni sem var til umræðu í hæfismati er honum gefinn kostur á að endurtaka munnlega hæfismatið innan fjögurra vikna frá því að niðurstaðan liggur fyrir.

Hæfismat verður einungis endurtekið einu sinni, nema sérstök rök leiði til annars.

15. gr.

Undanþágur frá munnlegu hæfismati framkvæmdastjóra.

Hafi framkvæmdastjóri á síðastliðnum 12 mánuðum sinnt starfi framkvæmdastjóra fjármála­fyrirtækis með sömu tegund starfsleyfis og staðist hæfiskröfur Fjármálaeftirlitsins vegna þess starfs getur hann óskað eftir undanþágu frá munnlegu hæfismati.

Beiðni um undanþágu skal send Fjármálaeftirlitinu með skriflegum hætti og studd viðeigandi gögnum.

Fjármálaeftirlitið getur óskað viðbótarupplýsinga ef þörf krefur.

V. KAFLI

Munnlegt hæfismat stjórnarmanna.

16. gr.

Munnlegt hæfismat stjórnarmanna.

Fjármálaeftirlitið metur hvort stjórnarmenn skuli gangast undir munnlegt hæfismat.

Við matið er m.a. horft til tegundar, stærðar og umfangs reksturs fjármálafyrirtækisins og þess hvort vafi sé á að viðkomandi uppfylli skilyrði laga um fjármálafyrirtæki, um nægilega þekkingu og reynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt.

Við framkvæmd hæfismats stjórnarmanna getur Fjármálaeftirlitið notið aðstoðar utanaðkomandi aðila, s.s. við mat á þekkingu aðila.

Ákvæði IV. kafla reglna þessara gilda eftir því sem við á um munnlegt hæfismat stjórnarmanna.

VI. KAFLI

Mat á hæfi.

17. gr.

Niðurstaða mats á hæfi.

Geri Fjármálaeftirlitið ekki athugasemd við hæfi aðila með vísan til hæfisskilyrða laga um fjár­mála­fyrirtæki og reglna þessara skal það tilkynnt aðila og stjórn fjármálafyrirtækis skriflega.

Telji Fjármálaeftirlitið að aðili uppfylli ekki hæfisskilyrði laga um fjármálafyrirtæki og ákvæði reglna þessara eða ef ekki er unnt að leggja mat á hæfi aðila samkvæmt 3. mgr. 3. gr. reglna þessara tilkynnir það aðila og stjórn fjármálafyrirtækis skriflega um niðurstöðu sína ásamt rökstuðningi.

Aðila sem uppfyllir ekki hæfisskilyrði laga um fjármálafyrirtæki og reglna þessara er óheimilt að gegna starfi framkvæmdastjóra eða taka sæti í stjórn fjármálafyrirtækis. Hafi aðili hafið störf getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að aðili láti af störfum, ýmist tímabundið eða til frambúðar. Ef kröfum Fjármálaeftirlitsins er ekki sinnt innan hæfilegra tímamarka getur Fjármálaeftirlitið einhliða vikið aðila frá störfum, sbr. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

18. gr.

Viðvarandi mat á hæfi.

Framkvæmdastjórar og stjórnarmenn skulu á hverjum tíma uppfylla hæfisskilyrði laga um fjár­mála­fyrirtæki og ákvæði reglna þessara. Í því skyni ber þeim að viðhalda þekkingu sinni og afla sér nýrrar þekkingar eftir því sem tilefni er til.

Verði breytingar á áður veittum upplýsingum sem geta haft áhrif á hæfi aðila ber honum að til­kynna það til Fjármálaeftirlitsins án tafar en eigi síðar en innan tveggja vikna frá breytingunum.

Fjármálaeftirlitið getur á hverjum tíma tekið hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna til sér­stakrar skoðunar.

19. gr.

Mat á hæfi í tengslum við umsókn um starfsleyfi.

Ef mat á hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna tengist umsókn um starfsleyfi sem fjár­mála­fyrirtæki, og viðkomandi aðili uppfyllir ekki hæfisskilyrði laga um fjármálafyrirtæki, verður starfs­leyfi ekki veitt fyrirtækinu.

Fjármálaeftirlitið getur í tengslum við umsókn um aukið starfsleyfi ákveðið að taka hæfi fram­kvæmda­stjóra og stjórnarmanna til endurskoðunar. Uppfylli viðkomandi aðili ekki hæfisskilyrði laga um fjármálafyrirtæki verður aukið starfsleyfi ekki veitt fyrirtækinu.

VII. KAFLI

Gildistaka.

20. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar með heimild í 5. mgr. 52. gr. laga um fjármálafyrirtæki og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 887/2012 um framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna fjármálafyrirtækja.

Fjármálaeftirlitinu, 8. febrúar 2017.

Jón Þór Sturluson.

Sigurður Freyr Jónatansson.


B deild - Útgáfud.: 23. febrúar 2017