Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 951/2023

Nr. 951/2023 1. september 2023

SAMÞYKKT
um breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, nr. 1020/2019, með síðari breytingum.

1. gr.

1. mgr. 8. gr. samþykktarinnar breytist og verður svohljóðandi:

Borgarstjórn heldur reglulega fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur samkvæmt fundadagatali sem borgar­stjórn samþykkir á síðasta fundi sínum fyrir sumarleyfi og er auglýst sérstaklega. Borgarstjórn skal funda tvisvar í mánuði, á þriðjudögum sem ekki ber upp á helgidag eða almennan frídag, og skulu fundir hefjast kl. 12.00. Borgarstjóri, forseti borgarstjórnar eða borgarstjórn geta ákveðið að færa fundartíma um að hámarki tvo daga og/eða gert breytingar á fundarstað og skulu breytingar auglýstar sérstaklega.

 

2. gr.

3. mgr. 10. gr. samþykktarinnar breytist og verður svohljóðandi:

Borgarfulltrúi sem óskar eftir að fá mál tekið á dagskrá borgarstjórnarfundar skal tilkynna forsætis­nefnd það skriflega fyrir kl. 9.00 á föstudegi fyrir reglulegan fund.

 

3. gr.

22. gr. samþykktarinnar breytist og verður svohljóðandi:

22. gr.

Hve oft má tala.

Borgarfulltrúar mega tala tvisvar við hverja umræðu máls, að frummælanda undanskildum sem má tala þrisvar.

Borgarfulltrúa er þó heimilt að taka oftar til máls til að gera stutta athugasemd eða bera af sér ámæli. Forseti getur heimilað borgarfulltrúa að gera stutta athugasemd oftar en einu sinni undir hverjum dagskrárlið sé um að ræða athugasemd um fundarsköp, fundarstjórn forseta eða ef borgar­fulltrúi hyggst bera af sér ámæli. Borgarstjóri hefur óbundið málfrelsi og getur því tekið til máls oftar en tvisvar.

 

4. gr.

24. gr. samþykktarinnar breytist og verður svohljóðandi:

24. gr.

Andsvar.

Þrátt fyrir ákvæði 23. gr. getur forseti leyft borgarfulltrúum að veita stutt andsvar við einstökum ræðum strax og þær hafa verið fluttar. Skal þá sá er vill svara bera fram ósk um það við forseta. Andsvari má einungis beina að máli ræðumanns en ekki annarri ræðu eða öðru andsvari.

Hvert andsvar má ekki taka lengri tíma en eina mínútu og skal ræðumanni heimilt að svara því á einni mínútu. Svari ræðumaður andsvari er þeim sem andsvar veitti heimilt að veita andsvar öðru sinni og er ræðumanni jafnframt heimilt að svara því andsvari. Veiti fleiri en einn borgarfulltrúi andsvar við sömu ræðu skal ræðumanni að jafnaði veitt færi á að svara hverju andsvari fyrir sig.

Orðaskipti í andsvörum mega að jafnaði ekki standa lengur en 10 mínútur í einu.

Að jafnaði er borgarfulltrúa heimilt að veita andsvar við tveimur ræðum undir hverjum dagskrár­lið.

 

5. gr.

Samþykkt þessi sem borgarstjórn Reykjavíkur hefur sett skv. ákvæðum 9. og 18. gr. sveitar­stjórnar­laga nr. 138/2018 staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.

 

Innviðaráðuneytinu, 1. september 2023.

 

F. h. r.

Aðalsteinn Þorsteinsson.

Jóhanna Sigurjónsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 15. september 2023