1. gr.
Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að kveða á um skýrt ferli við setningu skipulagsreglna flugvalla sem tryggir hlutaðeigandi aðilum aðkomu að mótun þeirra og flugöryggi.
2. gr.
Skipan og verkefni starfshóps.
Í kjölfar ákvörðunar um setningu skipulagsreglna flugvallar skal ráðherra skipa starfshóp sérfræðinga í flug- og skipulagsmálum. Verkefni hópsins skal vera að annast gerð tillögu að skipulagsreglum flugvallar sem uppfyllir lög og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, auk þess að tryggja flugöryggi með fullnægjandi hætti með sem minnstum takmörkunum á skipulag þeirra svæða í kringum flugvöllinn sem skipulagsreglurnar skulu taka til. Að vinnu lokinni skal tillagan lögð fyrir ráðherra ásamt greinargerð.
Starfshópurinn skal skipaður þannig:
Einn fulltrúi ráðherra og annar til vara, einn fulltrúi samkvæmt tilnefningu Samgöngustofu og annar til vara, einn fulltrúi samkvæmt tilnefningu rekstraraðila flugvallar og annar til vara, tveir fulltrúar samkvæmt tilnefningu þess sveitarfélags þar sem flugvöllur er innan staðarmarka og tveir til vara.
Sé flugvöllur innan staðarmarka tveggja eða fleiri sveitarfélaga skal starfshópurinn þó einungis skipaður einum fulltrúa frá hverju sveitarfélagi.
Fulltrúi ráðherra er formaður hópsins.
3. gr.
Fundir starfshóps.
Formaður boðar til fundar með a.m.k. þriggja sólarhringa fyrirvara og skal fundardagskrá fylgja fundarboði.
Formaður stýrir fundum. Ávallt skal leitast við að komast að sameiginlegri niðurstöðu um mál, en sé þess ekki kostur ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum.
Á fundum starfshópsins skal rituð fundargerð.
Starfshópurinn skal funda eftir þörfum og óski fulltrúi í honum eftir fundi skal verða við því svo fljótt sem kostur er.
4. gr.
Samráð.
Þegar starfshópurinn hefur mótað tillögu að skipulagsreglum flugvallar skal hann viðhafa opið samráð um tillöguna. Ríki ágreiningur innan starfshópsins skal viðhafa opið samráð um þá tillögu sem meirihluti er fyrir.
Hið opna samráð skal a.m.k. felast í birtingu tillögu, ásamt greinargerð, í samráðsgátt stjórnvalda og Lögbirtingablaði með að lágmarki sex vikna umsagnarfresti þar sem skorað er á þá sem hlut eiga að máli að veita umsögn um tillöguna innan umsagnarfrests.
Verði breytingar á tillögu í kjölfar opins samráðs skal leitað samráðs á ný um tillöguna skv. 2. mgr. Þó er heimilt að veita skemmri umsagnarfrest en hann skal þó aldrei vera skemmri en tvær vikur.
Að loknum umsagnarfresti tekur starfshópur rökstudda afstöðu til umsagna og skal hún birt á vefsíðu ráðuneytisins eigi síðar en tillaga er lögð fyrir ráðherra eða samráðs leitað á ný, eftir því sem við á.
5. gr.
Tillaga til ráðherra.
Sé starfshópur sammála um tillögu að loknu samráði skal leggja hana fyrir ráðherra án tafar, ásamt greinargerð. Ríki ágreiningur um tillöguna skal hún ekki lögð fyrir ráðherra fyrr en starfshópur hefur greitt atkvæði um tillöguna tvisvar sinnum með a.m.k. tveggja vikna millibili, og um hana fundað áður en seinni atkvæðagreiðsla fer fram með það að markmiði að leysa þann ágreining sem uppi er. Að lokinni málsmeðferð skv. 2. málsl. skal leggja tillögu, ásamt greinargerð, fyrir ráðherra án tafar. Liggi fyrir tillögur frá minnihluta skulu þær jafnframt hljóta málsmeðferð skv. 2. og 3. málsl.
6. gr.
Staðfesting og birting.
Ráðherra staðfestir tillögu að skipulagsreglum flugvallar. Í kjölfarið skulu þær birtar í B-deild Stjórnartíðinda og á vefsíðu rekstraraðila flugvallar.
Hyggist ráðherra staðfesta tillögu að skipulagsreglum flugvallar með breytingum eða staðfesta tillögu minnihluta starfshóps óbreytta skal tillaga ráðherra kynnt starfshópnum með skriflegum hætti og hópnum gefið tækifæri til umfjöllunar um hana. Hyggist ráðherra gera efnislegar breytingar á tillögu eða staðfesta tillögu minnihluta óbreytta skal hann einnig viðhafa opið samráð um hana með sams konar hætti og um breytta tillögu starfshóps skv. 3. mgr. 4. gr.
7. gr.
Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 6. mgr. 147. gr. laga um loftferðir nr. 80/2022, öðlast þegar gildi.
Innviðaráðuneytinu, 13. október 2023.
Sigurður Ingi Jóhannsson.
|