Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1244/2022

Nr. 1244/2022 2. nóvember 2022

REGLUR
um verðsamanburð á fjarskiptaþjónustu.

1. gr.

Markmið.

Markmið þessara reglna er að auka gagnsæi í verðlagningu á fjarskiptaþjónustu með því að birta opinberlega og gera aðgengilega heildstæða samantekt á verðskrám starfandi fjarskiptafyrirtækja, draga fram mismunandi þætti í samsetningu verðs og gefa notendum sjálfum kost á því að gera marktækan samanburð á verði með tilliti til eigin notkunar. Reglur þessar eru settar til hagsbóta fyrir neytendur á fjarskiptamarkaði og er ætlað að stuðla að bættri neytendavernd og aukinni verðvitund almennings.

 

2. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar taka til fjarskiptaþjónustu sem boðin er almenningi til sölu af hálfu skráðra fjarskipta­fyrirtækja. Reglurnar gilda ekki um virðisaukandi þjónustu í tal- og farsímanetum.

Reglurnar taka ekki til umsýslugjalda, seðilgjalda og vanskilagjalda sem kunna að bætast við gjaldskrárverð fyrir fjarskiptaþjónustu eða til afslátta vegna sérstakra greiðslukjara sem kunna að dragast frá almennum gjaldskrárverðum, t.d. að borgað sé með ákveðnu greiðslukorti eða þess háttar.

 

3. gr.

Skilgreiningar.

Merking orða og hugtaka í reglum þessum er sem hér segir:

Frelsisþjónusta: Fyrirframgreidd farsímaþjónusta.

Gjaldtökumæling: Mæling sem segir til um hvernig lengd símtala eða magn gagnasendinga er gjaldfærð. Er þá bæði gjaldfært fyrir ákveðið lágmark í lengd eða magni og svo fyrir hverja byrjaða mælieiningu sem mæld er umfram lágmarkið. Mælieining er ákveðin af fjarskiptafyrirtæki og getur verið breytileg.

Raunlengd símtals: Mæling á raunverulegri lengd símtals í sekúndum.

Skilyrtir afslættir: Afsláttarkjör sem eru háð skilyrðum um tiltekna notkun eða ákveðin viðskipti samkvæmt þjónustuleið, t.d. pakkatilboðs um að notandi kaupi tvenns konar eða fleiri tegundir þjón­ustu af sama fjarskiptafyrirtæki, að hann hringi í tiltekin númer eða farsímanet tiltekinna fjarskipta­fyrirtækja eða uppfylli skilyrði um lágmarksnotkun.

Umframgjald (e. over charge): Gjald sem er greitt samkvæmt gjaldtökumælingu viðkomandi fjarskipta­fyrirtækis umfram notkun samkvæmt raunlengd símtals.

 

4. gr.

Söfnun gjaldskrár- og tölfræðiupplýsinga.

Fjarskiptastofu er heimilt að krefja fjarskiptafyrirtæki um upplýsingar um gildandi verðskrár á neytendamarkaði fjarskiptaþjónustu.

Fjarskiptastofu er heimilt að krefja fjarskiptafyrirtæki um að afhending verðskrárupplýsinga sé með sjálfvirkum hætti gegnum vefþjónustu. Fjarskiptastofu er heimilt að fara fram á samræmda fram­setningu gagna, þ.e. sniðmát þeirra, í slíkri vefþjónustu.

 

5. gr.

Birting gjaldskrárupplýsinga.

Fjarskiptastofu er heimilt að taka saman og birta á heimasíðu sinni upplýsingar úr gjaldskrám fjarskiptafyrirtækja.

Fjarskiptastofu er heimilt í framsetningu sinni að sundurliða hvernig verð fyrir fjarskipta­þjónustu er samsett úr mismunandi þáttum, s.s. föstu mánaðargjaldi, upphafsverði, einingaverði og umfram­gjaldi.

 

6. gr.

Samanburður á verði fyrir fjarskiptaþjónustu.

Fjarskiptastofa gerir samanburð á verðskrám fjarskiptafyrirtækja fyrir sambærilega fjarskipta­þjónustu á grundvelli samanburðarhæfra skilmála og kjara. Er þá tekið mið af mánaðarlegum verðum fyrir mælda eða ómælda innifalda notkun símtala, smáskilaboða eða gagnamagns sem og almennu einingarverði sem í gildi er að teknu tilliti til skilyrtra afslátta, eftir því sem þeir rúmast innan almennra reikniforsendna samanburðarins. Ekki er tekið tillit til afsláttar sem byggir á einstaklingsbundnum eða sértækum forsendum, né tímabundinna afslátta eða tilboða.

Getur samanburður hvort tveggja náð til áskriftarþjónustu og frelsisþjónustu. Fjarskiptastofa getur ákveðið að samanburður nái eingöngu til gjaldfærslu sem byggist á tiltekinni gjaldtöku­mælingu.

Fjarskiptastofa metur hvað telst vera sambærileg fjarskiptaþjónusta með tilliti til samanburðar­hæfra skilmála og kjara.

 

7. gr.

Reiknilíkan.

Í þeim tilgangi að bera saman verð fyrir fjarskiptaþjónustu getur Fjarskiptastofa hannað rafrænt reiknilíkan og gert það almenningi aðgengilegt á internetinu svo notendum gefist kostur á því að gera sína eigin verðkönnun.

Fjarskiptastofu er heimilt að fela þriðja aðila að útbúa slíkt samanburðarlíkan, sinna gagna­söfnun og birta á vefsíðu sinni, sé slíkur aðili óháður fjarskiptafyrirtæki.

Gera skal notendum kleift, eins og kostur er, að breyta forsendum verðsamanburðar til sam­ræmis við eigin notkun fjarskiptaþjónustu.

 

8. gr.

Notkun á samanburðarupplýsingum.

Fjarskiptastofa getur áskilið að notendur verðsamanburðar samkvæmt 7. gr. samþykki fyrir fram skilmála um notkun þess, m.a. um ábyrgðartakmörkun stofnunarinnar og um framsetningu á niður­stöðum reiknilíkansins í auglýsinga- og markaðsskyni.

 

9. gr.

Gildistaka og heimild.

Reglur þessar eru settar með stoð í 70. gr. laga um fjarskipti nr. 70/2022 og öðlast þegar gildi.

 

Fjarskiptastofu, 2. nóvember 2022.

 

Hrafnkell V. Gíslason.

Arnar Stefánsson.


B deild - Útgáfud.: 16. nóvember 2022